föstudagur, febrúar 07, 2003

Þrúgur reiðinnar

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsið á Húsavík 7. febrúar 2003

Höfundur: John Steinbeck
Leikgerð: Frank Galati
Leikstjórn: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Guðni Bragason.

Tveggja drauma sýn*

Tónlist er líka ljáð mikilvægt hlutverk í sýningu Leikfélags Húsavíkur á Þrúgum reiðinnar, stærra hlutverk en í rómaðri uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur. Auk laga KK sem þar urðu til hafa Húsvíkingar bætt við lögum eftir Bubba Morthens, tveimur eftir tónlistarstjórann, Guðna Bragason, og kyrja auk þess hið frábæra Man of Constant Sorrow úr Ó brother, where art thou, sem á einstaklega vel við. Það sama gildir um lög Guðna og svo náttúrulega Fjöllin hafa vakað, sem ég hef hingað til ekki vitað um hvað er, en veit núna. Innblásin hugmynd. Um Manila er ég ekki eins viss. Tónlistarflutningur þriggja manna hljómsveitar er algerlega skotheldur og kontrabassi hljómsveitarstjórans er á við meðal hljóðgervil í áhrifshljóðadeildinni.

Stórvirki Steinbecks um uppflosnun Oklahomabænda vegna kreppu og vélvæðingar og ómennska misnotkun ávaxtaiðnaðarins í Kaliforníu á neyð fólksins snertir greinilega streng í brjóstum Þingeyinga nú á tímum kvótabrasks, fólksflótta og óvissrar framtíðar. Arnór Benónýsson hefur sýnt það í kraftmiklum sýningum sínum hjá Ungmennafélaginu Eflingu að honum er lagið að virkja tilfinningar leikara sinna og þessi sýning er engin undantekning þó annað sé félagið.

Leikgerðin fer eðlilega þá leið að einbeita sér að Joad-fjölskyldunni og ferðalagi hennar og er þeim öllum skilað á einkar trúverðugan og sterkan hátt, og eins og áður í sýningum Arnórs næst hér alger samruni milli Oklaranna úr kreppunni og Húsvíkinganna á sviðinu. Gunnar Jóhannsson og synir hans,Jóhann Kristinn og Hilmar Valur eru verulega góðir sem fjölskyldufaðirinn og tveir sona hans og Anna Ragnarsdóttir sterk og sönn sem móðirin. Þorkell Björnsson er sannfærandi sem hinn samviskubitni bróðir Joads og það sama má segja um aðra fjölskyldumeðlimi sem leiknir eru af Svavari Jónssyni, Guðnýju Þorgeirsdóttur, Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur, Sigurjóni Ármannssyni, Ármanni Erni Gunnlaugssyni og Anítu Guðjónsdóttur. Fyrir utan fjölskylduna mæðir mest á hinum heimspekilega predikara Jim Casy. Hann er í öruggum höndum Sigurðar Illugasonar. Aðrir leikarar fá tækifæri til að skapa persónur sem birtast í svipleiftri og trúlega verða vankaður tjaldbúi Guðnýjar Þorgeirsdóttur og bílasali Guðna Bragasonar eftirminnilegust af þeim.

Þrúgur reiðinnar er stór saga og vitaskuld er stiklað á stóru í leikgerð hennar. Þetta bitnar meira á síðari hluta sögunnar sem verður æði brotakennd og ekki allskostar ljósar þær skelfilegu aðstæður sem Joad-fólkið mætir og hvernig þær eru til komnar. Sýningin missir fyrir vikið flugið eftir hlé, en nær því aftur í tilfinningaþrungnum og dramatískum lokaatriðum sem eru verulega áhrifamiklar í einfaldleik sínum. Fyrri hlutinn er sterkari enda erum við þá að kynnast þessu blóðríka og skemmtilega fólki og draumum þeirra um betra líf, sem okkur og jafnvel þau grunar að sé tálsýn ein.

Það hefur verið firnaerfitt að koma þessu öllu saman fyrir á sviðinu í Samkomuhúsinu á Húsavík en hefur þegar á heildina er litið tekist vel með sáraeinfaldri leikmynd sem leiðir athyglina að aðalatriðunum. Þó voru hvimleiðar myrkvanir alltof tíðar, enda atriðin stutt. Ekki var mikið um snjallar sviðslausnir, enda áherslan á leikarana en þó verð ég að segja að bílalestin er snilldarlega leyst, ég útskýri það ekkert nánar, drífið ykkur í leikhúsið.

*Birtist með dómi um sýningu Versló á Made in USA