þriðjudagur, mars 11, 2003

Bullets over Broadway

Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni
Menningarsal Suðurlands 11. mars 2003.

Höfundur: Woody Allen
Þýðendur: Ármann Guðmundsson og Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson.

Stríð og söngur

ÞAÐ var landnemabragur yfir sýningu Leikfélags Menntaskólans að Laugarvatni í hinum skammarlega hálfkaraða Menningarsal Suðurlands. Nístingskuldi, lýsing í lágmarki og hljómburður eins og í tómri tunnu. En þau börðust hetjulega við að koma til skila dásamlegri sögu Woody Allen um metnaðargjarna leikskáldið hæfileikalausa og undrabarnið siðblinda sem dregur hann að landi með leikritið hans. Hér er á ferðinni sviðsgerð af kvikmyndahandriti, en því miður hefur ekki verið gengið nógu langt í því að laga efnið að nýjum miðli og til að bæta gráu ofan á svart hefur leikstjórinn valið þá leið að myrkva sviðið og breyta sviðsmyndinn í hverri einustu skiptingu. Það er alger nauðsyn fyrir svona verk að finna einfalda leið til að láta örstuttar senurnar taka við hverja af annari án nokkurs hlés, en þessi leið hefur þær afleiðingar að sýningin nær aldrei að flæða og verður aukinheldur of löng. Þá hefur “sjóveikin” gripið Laugvetninga eins og fleiri framhaldsskólaleikfélög og nokkrum tónlistaratriðum verið bætt við, algerlega án sýnilegs tilgangs, þó ágætlega væri sungið.

Leikhópurinn kemst ágætlega frá sínu, ekki síst þeir félagar Sveinn Óskar Ásbjörnsson og Loftur Þ. Guðmundsson sem leikskáldið og séníið. Skemmtilegust allra er samt Hildur Magnúsdóttir sem hin óbærilega Olive Neal, hin hæfileikalausa lagskona mafíósans sem borgar fyrir uppfærsluna með því skilyrði að hún fái hlutverk. Í heildina ræður leikhópurinn þó varla við annmarkana, augljóst kvikmyndaeðli handritsins og furðulega leið leikstjórans.