föstudagur, mars 21, 2003

Káinn

Heimabrennt í Eyjafirði
Freyvangi 21. mars 2003.

Freyvangsleikhúsið
Höfundur: Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Saga Jónsdóttir
Tónlist: Hannes Örn Blandon, Eiríkur Bóasson, Jóhann Jóhannsson og Hulda Svanhildur Björnsdóttir
Leikmynd: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Ingvar Björnsson.

EINS mikið og hefur verið skrifað bókakyns um vesturferðirnar undanfarin ár gegnir furðu að enginn hafi ómakað sig fyrr við að færa eitthvað af þeim óviðjafnanlegu örlagasögum upp á leiksvið. En nú er semsagt Hannes Blandon búinn að rjúfa þá þögnina með þessu fjöruga og skrautlega leikverki um skopskáldið Káinn og samferðamenn hans.

Það er margt gott um þetta leikverk að segja. Úr penna Hannesar drýpur einatt safaríkt mál og hann er húmoristi góður. Margar senur eru afar skemmtilegar. Það sem helst vantar upp á er að illa hefur gengið að skipa efninu í sterka leikræna heild, og sá sem helst líður fyrir það er titilpersónan sjálf. Káinn hverfur dálítið í skuggann af litríku mannlífinu í kringum hann og örlög hans verða áhorfendanum hvorki skýr né hugleikin. Kannski er saga Káins svo ódramatísk að höfundur þarf sífellt að snúa sér að öðru til að hafa eitthvað skemmtilegt að skrifa um. Því það gerir hann, og gerir vel.

Uppfærslan og umgjörð hennar er frábærlega af hendi leyst hjá leikstjóra og útlitshöfundum. Það, og jafngóður leikurinn gerir Káinn að fagmannlegustu og áferðarfallegustu sýningu sem undirritaður hefur séð hjá áhugaleikfélögunum í vetur. Auðvitað ná samt nokkrir leikarar að fara á kostum, annars væri þetta varla Freyvangsleikhúsið. Höfundurinn er afbragð sem Káinn eldri, Leifur Guðmundsson algerlega sannfærandi Stephan G., Stefán Guðlaugsson óborganlegur Jón vinnumaður og Hjördís Pálmadóttir kostulegur niðursetningur. Tónlistin er létt og skemmtileg og á sinn þátt í að gera heimsókn í Freyvang að góðum kosti til að létta geð.