föstudagur, mars 28, 2003

Grease

Verkmenntaskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólanum 28. mars 2003.

Höfundar: Jim Jacobs og Warren Casey
Leikstjóri: Þorsteinn Bachmann
Tónlistarstjóri: Arnór Vilbergsson.

Gúmmítöffarar

GREASE hverfist um samdrátt ofurtöffarans Danny Zuko og sakleysingjans Sandy Dumbrowsky, en dvelur ótrúlega lítið við þetta aðalefni sitt. Miklu meiri tíma er varið í að lýsa töffaraklíku Dannys og stúlknagerinu í kringum það, dansa og syngja - að miklu leyti án þátttöku Sandyar. Einkennilega upp byggður söngleikur en skemmtileg rokktónlistin og kostulegar týpurnar bæta það upp. Parið er vel leikið og sungið af Sigursveini Þór Árnasyni og Rósu Björg Ásgeirsdóttur. Sigursveinn fær úr öllu meiru að moða og nýtir sér það svikalaust, dansar til dæmis sérlega vel. Þá er Sunna Valgerðardóttir verulega góð sem Rizzo, og nánast sú eina sem skilar söngtextum svo hvert orð skilst.

Sýning Verkmenntaskólans er kraftmikil og fjörug, tónlist og dans ágætlega leyst. Svo skemmtilega vill til að þétt og vel spilandi hljómsveitin er að mestu skipuð kennurum, en slík þátttaka kennara í leiklistarstarfi skólans er að ég held einsdæmi en vissulega til fyrirmyndar.

Það sem einna helst stendur í vegi fyrir því að sýningin verði eins áhrifamikil og hún gæti verið er sú leið sem leikstjórinn hefur valið. Hann lætur leikarana, sérstaklega strákana, ýkja töffarastælana upp úr öllu valdi. Það skilar nokkrum hlátrarsköllum í byrjun en verður síðan afar hvimleitt og stendur í vegi fyrir persónusköpun og samkennd okkar með persónunum. Einnig gegnir furðu sviðsetning hans á eina tveggja manna atriði Sandy og Danny, en hann lætur þau snúa baki í áhorfendur, við sjáum einungis skuggamynd af þeim og þau tala í hljóðnema. Eina tækifærið sem við höfum til að fylgjast með sambandi þeirra fer því fyrir lítið.

Þrátt fyrir þessa annmarka er vel hægt að hafa gaman af sýningunni, sérstaklega tónlistinni og skemmtilegum hópatriðunum. Söngleikjahefðin er á réttri leið í Verkmenntaskólanum og gaman verður að fylgjast með frekari framgangi hennar.