laugardagur, október 04, 2003

Fjóla á ströndinni

Hlöðunni við Litla Garð 4. október 2003

Höfundur: Joan MacLeod
Þýðandi: Sigríður E. Friðriksdóttir
Leikstjóri: Skúli Gautason
Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson
Ljósahönnun: Skúli Gautason.

Leikandi: Sigríður Eyrún Friðriksdóttir.


Sakbitinn áhorfandi

ÞAÐ framtak Skúla Gautasonar að koma upp kammerleikhúsi í hlöðubragga við heimili sitt er þakkarvert sem slíkt, og ánægjuleg viðbót við möguleika leiklistarfólks á Akureyri til að koma á framfæri því sem því liggur á hjarta. Þegar hafa ýmsar uppákomur leik- og tónlistarlegar verið í húsinu, enda strax kominn andi í húsið, auk salernisaðstöðu og hita, eins og fram kom í ræðu leikhússtjórans á undan sýningunni.

Fjóla á ströndinni segir frá Fjólu, sem er uppreisnargjarn unglingur sem neyðist til að endurmeta ákveðna kafla í lífi sínu þegar fregnir berast af hópi unglingsstúlkna sem hafa myrt eina úr sínum hópi. Sambærilegt mál í vinahópi Fjólu er smám saman afhjúpað fyrir okkur, og hvernig henni hefur á endanum tekist að losna út úr því og rétta fram hjálparhönd.

Einelti er mikið tískuböl þessa dagana og að því leyti er auðvelt að láta sér fátt um finnast þó að ungri leikkonu langi að kveða sér hljóðs í þeirri umræðu. En ef verkið hefur eitthvað sérstakt til þeirra mála að leggja er það einna helst að benda á hversu útbreytt, lúmskt og, mér liggur við að segja, eðlilegt þetta samskiptamynstur er. Það þarf mikið átak fyrir aðalpersónu verksins að rífa sig út úr farinu sem hún er komin í sem fylgihnöttur vinsællar stúlku sem kvelur aðra. Og áhrifamáttur verksins er ekki síst sá að sýna okkur hversu “eðlilegar” þessar stúlkur eru. Þær eru ekki siðblindir sadistar, ekki óeðlilegar á nokkurn hátt. Þó ofbeldið verði á endanum nokkuð hrottalegt. Verkið sýnir en dæmir ekki og þeir þættir þess sem lýsa viðburðum og hversdagslegum atvikum og hugsunum unglingsstúlkna eru sterkustu hlutar þess. Höfundi fatast heldur flugið þegar hann kýs að gerast skáldlegur, og auk þess hefur hann að mínu mati flækt fyrir sér málið með að blanda inn í aðalsöguna annari sögu af eineltismáli sem leiddi til dauða fórnarlambsins. Þó svo kveikjan að verkinu liggi í slíku máli átti höfundurinn að sjá að það þjónar ekki erindi hans að hafa þetta með. Ennfremur er form verksins dálítið skrítið, sérstaklega það hve mikið af textanum beinist að bróður persónunnar, sem engum tilgangi þjónar. En það læsist um mann ískaldur hrollur þegar höfundur hittir naglann á höfuðið hvað eftir annað í raunsannri lýsingu sinni á unglingahugsunarhættinum.

Sigríður E. Friðriksdóttir byrjaði frumsýninguna með nokkru óöryggi, auk þess sem leikstjórnarlegar hugmyndir voru óþarflega augljósar og “utanáliggjandi” í upphafi sýningarinnar. Fljótlega náði Sigríður þó tökum á persónunni og þar með áhorfendum og sýndi innlifaðan og sterkan leik. Sigríður náði sérstaklega góðum tökum á að túlka tjáningarmáta og líkamsmál unglingsins, og þar sem lítið hefur sést til þessarar ungu leikkonu áður er ekki auðvelt að ímynda sér annað en hún sé fjórtán ára gelgja með unglingaveiki á háu stigi. Lýsing var einföld en sterk, en hófstilltari notkun á áhrifshljóðum og tónlist hefði að mínu mati verið til bóta. Á stundum var eins og hljóðin ættu að bjarga málunum, þegar augljóst var að engin þörf var á björgunaraðgerðum. Þýðing leikkonunnar er þjál og staðfærsla hefur tekist nokkuð vel.

Fjóla á ströndinni er ágætlega unninn einþáttungur og mun án efa verða betri eftir því sem öryggi leikkonunnar eykst. Ég get vel ímyndað mér að sýningin eigi eftir að orka sterkt á unglinga sem hana sjá, enda er hér ekki á ferðinni spéspegill heldur raunsæisleg skoðun á útbreiddu böli. Verkið sýnir vel hvernig það getur virst nánast ógerningur að spila ekki með í þeim ljóta leik sem einelit er, en jafnframt hvað það er eftir á að hyggja auðvelt að rjúfa vítahringinn. Þetta er ekki áróðurs- eða kennsluverk, heldur áhrifamikið raunsæisleikrit um sammannlega reynslu. Sannur og einlægur leikur leikkonunnar, ásamt brennandi þörf til að miðla innihaldinu skilar sterkri sýningu - enda hljómar þetta tvennt nánast eins og uppskrift að góðu leikhúsi.