sunnudagur, október 05, 2003

Tenórinn

Iðnó 5. október 2003.

Höfundur: Guðmundur Ólafsson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikendur: Guðmundur Ólafsson, Sigursveinn Magnússon og Sigrún Edda Björnsdóttir.

Söngskemmtun í Iðnó

ÞAÐ er eitthvað hlægilegt við tenóra. Eða kannski öllu heldur - við þá staðalmynd sem við höfum af þeim. Sjálfsupptekknir, hávaðasamir og hégómlegir loftbelgir. Og svo bætist alltaf við, ef þeir eru heimsfrægir í útlöndum, sú tilfinning að eitthvað sé málum blandið með þá heimsfrægð. Halldór Laxness hefur mikið á samviskunni gagnvart þessari stétt listamanna. Nú hefur Guðmundur Ólafsson skrifað leikrit þar sem þessar klisjur eru nýttar sem skopefni og fléttað saman við nokkuð alvarlega lífshlaupssögu. Útkoman er verulega skemmtileg sýning.

Aðalpersónan hefur ekkert nafn, sem er ákaflega viðeigandi, enda er hér mættur Tenórinn. Klæðskerasaumaður upp úr öllum hugmyndunum sem við höfum um svoleiðis hljóðabelgi. Heimsfrægur, eigingjarn, aðfinnslusamur, hégómlegur og yfirborðskenndur. Stjarna. Eða það finnst allavega honum sjálfum. En bæði er síðan flett ofan af því hversu lítið númer hann er, og svo er líka manneskjan sýnd, fortíð hennar og fjölskyldulíf í upplausn, einmanaleikinn, maðurinn á bak við tenórinn. Þessa mynd dregur höfundurinn Guðmundur að mestu leyti afar vel, er bráðfyndinn þegar það á við og nær líka að gefa skýrt til kynna raunveruleika fólksins sem hann fjallar um. Tenórinn kemur víða við og hefur skoðun á öllu því sem svona tenórar eiga að hafa skoðun á. Óréttlátur frami kolleganna, fálæti fjölmiðla, holdafar sópransöngkvenna, hið tenórfjandsamlega veðurlag á Íslandi, hið áreynslulausa og ljúfa líf poppsöngvara, draumurinn um að vera bara "hversdagslegur maður", pípari - eða jafnvel undirleikari.

Því Tenórinn er ekki einleikur. Þarna er líka píanóleikari, og við fylgjumst með þeim undirbúa tónleika í subbulegu búningsherbergi í ótilteknu (tónlistar)húsi á Íslandi. Þessi návist undirleikarans er uppspretta allskyns skemmtilegheita og vitaskuld tæknilega nauðsynleg, því í verkinu eru flutt nokkur lög. Á hinn bóginn veldur hún nokkrum formlegum vandræðum fyrir verkið. Tenórinn er ekki einleikur en hlutverk tenórsins er skrifað eins og einleikshlutverk. Þannig lætur Guðmundur hann játa hluti fyrir píanóleikaranum sem virkar ótrúverðugt, en væri fullkomlega eðlilegt að játa fyrir salnum í eiginlegum einleik, sem er trúnaðarsamtal við áhorfendur. Undirleikarinn fær ekki að verða persóna, það er nánast ekki pláss fyrir hann í verkinu. En hann er þarna samt, og skapar óróleika í forminu. Annar galli á verkinu er að mínu mati notkun á rödd af bandi til að miðla ákveðnum upplýsingum sem skapa tilfinningalegan hápunkt verksins. Þetta er skiljanleg lausn, en virkar eins og þrautalending.

Fyrir utan þessa aðfinnslupunkta er rétt að ítreka að texti verksins er góður, og það heldur athyglinni og skemmtir áhorfendum frá upphafi til enda. Leikstjórinn, Oddur Bjarni Þorkelsson, hefur líka unnið gott starf og mótað flæði sýningarinnar vel. Enginn er skrifaður fyrir raunsæislegri og ágætlega heppnaðri leikmynd sýningarinnar, en gera má ráð fyrir að hún sé samvinnuverkefni hópsins.

Guðmundur er bráðgóður í hlutverki tenórsins. Hann hefur áður sýnt að hann býr yfir afar næmri tilfinningu fyrir kómískri tímasetningu og nýtir hana óspart hér, ísmeygileg hæðnin í afstöðu tenórsins til alls í kringum sig kemst vel til skila, svo og hégómleiki hans og innistæðulaus mikilmennskan. En Guðmundur nær líka inn að kvikunni, miðlar óörygginu sem undir býr og tenórinn flýtur á eins og korktappi. Og svo syngur hann hreint ljómandi vel, leikur sér að hefðbundnum tenórlögum á borð við Draumalandið og Una Furtiva Lagrima úr Ástardrykknum. Þá verður mjög svo frumlegur flutningurinn á Söng villiandarinnar ógleymanlegur og aukalagið sem hann söng á frumsýningunni hreint yndislegt. Áhorfendur eru minntir á að tryggja að Guðmundur sleppi ekki við það. Vitaskuld er sérstök ánægja að heyra þjálfaðan leikara skila hverju einasta atkvæði söngtextanna til áhorfenda, nokkuð sem lendir oft í öðru sæti hjá flytjendum sem fyrst og fremst eru söngmenntaðir.

Sigursveinn Magnússon er píanóleikarinn og skilaði hlutverki sínu af hófstilltu öryggi, og átti sinn ísmeygilega þátt í fyndninni. Samleikur þeirra er áreynslulaus og Sigursveinn komst eins langt með þessa ófullburða persónu og hægt er að fara fram á. Sigrún Edda Björnsdóttir var svo heiðursgesturinn fjarverandi, rödd af bandi sem tenórinn átti samtal við í gegnum síma. Þetta tókst snurðulítið tæknilega séð, en hefur leiklistarlega vankanta eins og áður segir.

Tenórinn er þegar á heildina er litið góð kvöldskemmtun, skýr mynd af staðlaðri týpu með undirtóna af einstaklingsbundinni mannlýsingu og rós í hnappagat höfundar, leikstjóra og flytjenda.