miðvikudagur, október 29, 2003

Afmælistertan

Útvarpsleikhúsið
Frumflutt 23. október, endurtekið 30. október.

Höfundur: Kristín Ómarsdóttir

Leikstjóri: Ingólfur Níels
Hljóðvinnsla: Hjörtur Svavarsson
Leikendur: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Gísli Páll Hinriksson, Jón Páll Eyjólfsson og Pálmi Gestsson.

Hvað viltu fá í afmælisgjöf?

Í þeim verkum hennar sem ég þekki til fjallar Kristín Ómarsdóttir gjarnan um ástina, kynlífið og hvernig þessu tvennu reiðir af í heimi þar sem allt er til sölu. Kristín fellur ekki í þá gryfju að predika eða bregða sér í hlutverk heimsósómaskáldsins, heldur horfir á atgang mannskepnunnar á þessu sviði með hlutlausum, og á stundum nokkuð háðskum, augum. Kynímyndir, kyngerfi og hið fljótandi eðli kynhneigðarinnar er í forgrunni í Ástarsögu þrjú, en kynlíf og ást sem neysluvara áberandi þáttur í Vini mínum heimsenda. Afmælistertan er lítil stúdía sem snertir báða þessa þætti.

Sálfræðingurinn Quintin heldur upp á fimmtugsafmælið sitt og býður gamalli vinkonu sinni og starfssystur, Marilyn, ásamt tveimur yngri mönnum, þeim Wolf og Olaf. Eftir því sem boðinu vindur fram skýrist hverra erinda þeir eru þarna, Wolf er kominn til að sofa hjá afmælisbarninu, kannski fyrir borgun, kannski ekki. Því að sjálfsögðu hefur Kristín engan áhuga á að skrifa ádeiluverk um vændi og félagslegar ástæður þess, enda er samband Quintins og Wolfs flóknara en það. Sama má segja um tengslin sem skapast milli Olafs og Marilyn, sem hann heillast af - að því er virðist einlæglega - og fölnandi kvenleiki hennar og viðhorf til hlutskiptis síns er kannski veigamesti þáttur verksins. Marilyn birtist sem yfirborðörugg og veraldarvön, en fljótlega brjótast fram biturð og einmanaleiki hennar. Quintin er hins vegar augljóslega óöruggur með sig og samband sitt við Wolf, hann er þiggjandi og upp á Wolf kominn, sem nýtur þess að leika sér að honum. Wolf er líka valdaaðilinn í sambandi sínu við Olaf. Þetta valda- og kynjatafl er efni verksins.

Hófstilling einkennir stíl Afmælistertunnar og á það bæði við um efnistök Kristínar, framgöngu leikaranna og stíl uppfærslunnar. Það hefur áhrif bæði til góðs og ills fyrir áhrifamátt verksins. Hvörf og sumar setningar verða sterkari fyrir það að falla að því er virðist umhugsunarlaust og kæruleysislega. En á móti kemur að það er auðvelt að láta sér fátt um finnast um vandamál og örlög þessa fólks sem virðist varla hafa áhuga á þeim sjálft. Anna Kristín Arngrímsdóttir kemst einna lengst með að komast að áheyrandanum sem Marilyn. Einnig voru tvíleikssamtöl hennar og Gísla Páls Hinrikssonar sum sterk, og hann gerði skýra persónu úr hinum barnalega og ósjálfstæða Olaf sem vill verða eins og Marilyn. Þeim Pálma Gestsyni og Jóni Páli Eyjólfssyni lét ekki eins vel að teikna hinn taugaveiklaða Quintin og þann kaldlynda Wolf með raddirnar einar að vopni.

Mér þykir líka heldur verra hvað Kristín heldur rækilega aftur af óstýrlátu ímyndunarafli sínu í þessari smámynd, helstu kostir hennar sem leikskálds njóta sín lítið hér. Leikstjórn og hljóðumgjörð er einnig einföld sem mest má vera. Ef til vill hefði verið meira gaman ef allir aðstandendur Afmælistertunnar hefðu leyft sér örlítið meira flug. Allt um það þá heldur Afmælistertan athyglinni og kveikir hugsanir um kynhlutverk, ást og girnd.