laugardagur, nóvember 01, 2003

Nóttin er móðir dagsins

Þjóðleikhúsið
Leiklestur á Smíðaverkstæðinu 1. 11. 2003.

Höfundur: Lars Norén
Þýðandi: Birgir Sigurðsson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson

Leikendur: Atli Rafn Sigurðsson, Baldur Trausti Hreinsson, Hjalti Rögnvaldson og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.

Ársuppgjör

SIR Peter Hall, fyrrum þjóðleikhússtjóri breta skrifaði í dagbók sína 20. febrúar 1979 eitthvað á þá leið að Eugene O’Neill væri án efa besti VONDI leikritahöfundurinn. Með því á hann við að þrátt fyrir klisjur, melódrama, skort á undirtexta og almenn klunnalegheit í byggingu verka sinna nái hann áhrifum með spennunni og heiðarlegri túlkun tilfinninga sem einkennir hans helstu verk. Sömu höfundareinkenni má sjá hjá hans helsta lærisveini á Norðurlöndum, Lars Norén, og Nóttin er móðir dagsins er afar gott dæmi um þetta - kannski það hreinræktaðasta sem hingað hefur rekið hér á fjörur, enda held ég að þessi leiklestur sé þrátt fyrir allt það stefnumót við höfundinn sem hefur sagt mér mest - haft mest áhrif.

VIð fylgjumst með lítilli fjölskyldu, foreldrum og tveimur sonum, sem reka lítið hótel í litlum bæ. Daginn sem við kíkjum í heimsókn er hótelið reyndar lokað, því nú er ársuppgjör - dæmi um yfirborðskenndan symbólisma Noréns og erfðagóss frá O’Neill. Vitaskuld er allt í kaldakoli, og allir hata og elska alla af mikilli sannfæringu.

Fljótlega eru helstu fjölskyldudraugar dregnir út úr skápnum: samkynhneigð yngri sonarins og tilheyrandi andstyggð þess eldri, hið ástlausa samband foreldranna, krabbamein hennar og síðast en ekki síst alkóhólismi hans. Allt þetta og tilheyrandi ofsafengin samskipti er síðan viðrað fyrir áhorfendum í eins og þrjá klukkutíma - enginn undirtexti, engin tilraun til að segja aðra sögu en að lýsa smásmyglislega tilfinningaróti hjá fólki á síðasta snúningi. En vegna þess að Norén er fyllsta alvara, meinar það sem hann segir, þá snýst efnið ekki upp í hjákátlega sápuóperu - þó það rambi á brúninni - heldur þröngvar áhorfandanum til að horfast í augu við tilfinningarótið sem aðferð höfundar og efni þyrlar upp.

Viðar Eggertsson er ekki sérlega hlýðin leiklestursforminu og fer ansi nálægt því að sviðsetja einfaldlega verkið. Og það töluvert áhrifamikið. Þá er athyglisvert hvernig hann snýr ágöllum leiklestursins upp í merkingarbæra þætti í því sem fyrir augu ber. Þannig var upphaf sýningarinnar til marks um það að það voru PERSÓNURNAR sem komu inn með handritin, ekki leikararnir - með öðrum orðum - persónurnar fóru eftir handriti í brölti sínu. Annað stílbragð sömu ættar var beiting blýantanna, hjálpartækis leikaranna, við ýmis tækifæri. Allt hjálpaði þett við að sætta áhorfandann við frumstæðar kringumstæðurnar og nálgast þannig sanna leikhúsupplifun en losna undan dauðri hönd bókmenntakynningarinnar.

Leikhópurinn var vel skipaður og kemur ekki á óvart að hann náði firnatökum á efninu. Sjálfum þótti mér kannski mest spennandi að sjá Baldur Trausta Hreinsson ná þeim áhrifum sem hann náði með jafn hófstilltum leik en kraftmikill nærveru í hlutverki eldri sonarins. Þá naut Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir sín vel í hlutverki móðurinnar. Atli Rafn Sigurðarson var kannski dálítið óræður sem yngri sonurinn, hann náði ekki alveg að gera æsku hans og því sem henni fylgir nægilega skýra. Hjalti Rögnvaldsson var fantagóður sem hinn drykkfelldi heimilisfaðir.

Þetta var vel heppnuð kynning á Lars Norén. Hún náði kannski ekki að sannfæra mig um að hann sé óviðjafnanlegur snillingur, en gerði stöðu hans sem óvægins og heiðarlegs listamanns algerlega skýra með skarpri og sterkri allt-að-því sviðssetningu á áleitnu verki.