laugardagur, nóvember 22, 2003

Steinn Steinarr

Kómedíuleikhúsið
Hamar, Ísafirði, 22. nóvember 2003

Leikverk byggt á ljóðum og öðrum skrifum Steins Steinarr, sett saman af
Elfari Loga Hannessyni og Guðjóni Sigvaldasyni
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Leikari: Elfar Logi Hannesson

GOTT framtak hjá Elfari Loga og Kómedíuleikhúsi hans að gera verkum Steins Steinarr skil á leiksviði, og sú ákvörðun að nota einungis texta frá skáldinu gerir sýninguna áhugaverðari en ella, en setur vissulega þröngar skorður þeirri sögu sem unnt er að segja.

Dagskrá byggð á verkum Steins Steinarr, ljóðum, viðtölum og skrifum í óbundnu máli, leiðir ýmislegt í ljós sem blasir ekki endilega við við einberan lestur. Eitt af því sem sýning Kómedíuleikhússins kemur sterkt til skila er hversu mikið Reykjavíkurskáld Steinn var, og hvað sýn hans á borgina er mótuð af viðhorfi utanbæjarmannsins. Þetta á Steinn vitaskuld sameiginlegt með Tómasi Guðmundssyni, og munurinn á þeim Reykjavíkum sem þeir skáldbræður lýsa skýrist fyrst og fremst af ólíkum lyndiseinkunnum þeirra. Reyndar er Reykjavík meira áberandi í öðrum skrifum Steins en ljóðunum – þó hún sé þar sífellt nálæg sem leiktjöld fyrir þá kaldhömruðu sálarangist sem mörg þeirra lýsa. Á hinn bóginn er mikið af óbundna málinu sérlega skarpar smámyndir af borgarlífinu og áhrifum þess á Stein, miðlað með þeirri hetjulegu kaldhæðni sem einkennir bæði skrif hans sjálfs og viðtöl sem við hann voru tekin.

Þeim Elfari og Guðjóni tekst á köflum ágætlega að flétta saman líf og skáldskap, og oft koma tengingarnar ánægjulega á óvart. Reyndar þótti mér á stundum teflt á tæpasta vað með hvernig ljóðin eru sett inn í aðra texta, og fyrir kemur að hvorki ljóð né saga græða á samspilinu. Eins setti þessi klippiaðferð svip sinn á textaflutninginn, og fyrir minn smekk fórnaði Elfar of miklu af hrynjandi bundna málsins til að gera ljóðin að eðlilegri hluta framvindunnar. Rím og taktur er órjúfanlegur hluti af merkingu og áhrifum margra ljóðanna, og að láta þessi stíleinkenni lönd og leið í flutningnum er að neita sér um stóran hluta af áhrifamætti þeirra. Þá þótti mér sem dálítið ýkt dramatíkin og sálarangistin sem fyrri hluti sýningarinnar einkennist af undarlega á skjön við efnið og andblæ textans. Í seinni hlutanum er mun meiri kyrrð yfir flutningi Elfars, sem hæfir Steini betur, og dregur betur
fram hæfileika leikarans.

Sviðsetningin er að mörgu leyti vel af hendi leyst. Upphaf sýningarinnar er sérlega áhrifamikið, sá beður sem Steinn rís upp af, og leggst að lokum aftur í, mjög óvanalegur, en jafnframt viðeigandi. Leikmyndin er að öðru leyti nokkuð sérkennileg, og að mínu mati sækir hún myndmál sitt of sterkt í náttúruna, sem er ekki vettvangur Steins í lífi sínu eða list. Lýsing Friðþjófs Þorsteinssonar og Guðjóns Sigvaldasonar er afgerandi hluti sýningarinnar, og á til að mynda stóran hlut í að gera túlkun Elfars á ljóðinu Verkamaður jafn áhrifamikla og raun ber vitni, þó það atriði sé að vissu leyti stílbrot, og komi eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í sýninguna.

Reyndar þykir mér öll notkun á sönglögum við ljóð skáldsins mjög hæpinn þáttur í sýningunni, fyrir utan lag Bergþóru Árnadóttur við fyrrnefndan Verkamann eru þau hvert öðru verra og minna viðeigandi.

Sýning Kómedíuleikússins á Steini Steinarr er ekki allskostar vel heppnuð, en nær þó að teikna spennandi mynd af skáldinu sem fannst hann vera í ævilangri kaupstaðarferð með gleymt erindi. Ágallar hennar eru forvitnilegir, og það sem vel er gert er áhrifaríkt.