laugardagur, nóvember 08, 2003

Í boði leikfélagsins

Leikfélag Hafnarfjarðar
Hafnarfjarðarleikhúsinu 8. nóvember 2003.

Níu stuttverk eftir sex höfunda.

Kraftur í Hafnarfirði

STUTTVERKAVERTÍÐINNI virðist hvergi nærri lokið hjá áhugaleikfélögunum. Þó stuttverkahátíðin í Borgarleikhúsinu, Margt smátt, sé yfirstaðin þá býður Leikfélag Hafnarfjarðar til sinnar eigin stuttverkasýningar og sýnir níu verk, öll nýsmíðar, þar á meðal þau fjögur sem þau sýndu á hátíðinni. Verkin voru sýnd við frumstæðar aðstæður í veitingasal Hafnarfjarðarleikhússins, en það var eftirtektarvert að öll fjögur fyrrnefndu verkin voru sterkari þar en í Borgarleikhúsinu. Skýrist það vafalaust bæði af meiri nánd og frekara öryggi sem leikendur höfðu öðlast í millitíðinni.

Wannabe eftir Jón Stefán Sigurðsson var skondin smámynd, en nokkuð endaslepp. Höfundur flutti verkið ágætlega, en ekki var ég sáttur við þá ákvörðun leikstjórans, Gunnars Björns Guðmudssonar, að láta leikarann ekki tala beint við áhorfendur heldur tala við sjálfan sig, stílbragð sem hentaði ekki verkinu.

Hjartað er bara vöðvi eftir Hildi Þórðardóttur er vel skrifuð raunsæisleg lýsing á endalokum ástarsambands. Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson voru sannfærandi í hlutverkunum og leikstjórn fyrrnefnds Gunnars Björns nostursamleg.

Óhamingja var kostuleg lýsing á tveimur einföldum sálum, drepfyndinn þáttur eftir Jón Guðmundsson. Aldís G. Davíðsdóttir og Sara Blandon fóru vel með í leikstjórn Halldórs Magnússonar.

Dansað fyrir Svandísi er nærfærin og sterk lýsing á líknarmorði eftir Lárus Húnfjörð sem skilaði þættinum einnig vel ásamt mótleikkonu sinni, Kristínu Helgadóttur. Gunnar Björn leikstýrði. Bæði þessi þáttur og Hjartað er bara vöðvi náðu mun sterkari tökum að þessu sinni en á hátíðinni.

Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson er höfundur og leikstjóri Jóga, sem reyndist vera snjall og vel skrifaður brandari um örvæntingarfulla viðreynslu. Aldís G. Davíðsdóttir og Jón Stefán Sigurðsson stóðu sig prýðilega í hlutverkunum.

í Hver heyrir? Heldur Lárus Húnfjörð áfram að vinna með samband leikara og áhorfenda sem hann hóf í Þið eruð hérna sl. vor. Lilja Nótt fór vel með hlutverk misþyrmdrar konu, en ekki finnst mér þessi rannsókn Lárusar sérlega frjó.

Aðdragandi að glæp eftir Ingvar Bjarnason er einnig verk um heimilisofbeldi, en þau Jón Stefán og Eygló Scheving hefðu þurft sterkari leikstjórn en þá sem höfundur bauð upp á, sem mun vera frumraun hans á því sviði.

Augun sem glóðu af gulli er einnig eftir Ingvar, en hér var boðið upp á hreinræktað frásagnarleikhús. Þau Lilja Nótt, Guðmundur Lúðvík og Stefán Vilhelmsson sýndu stílhreina og fágaða sýningu, sem hefði samt þurft örlítið meiri hugmyndaauðgi til að fá þá lyftingu sem þetta leikhúsform kallar á.

Snorri Engilberts lauk síðan dagskránni með verki sínu, Pálma, og fór vel á þvi, því hér var um algerlega óborganlegan gjörning að ræða. Kostuleg persónusköpun og frábær hugmyndaauðgi. Sýningin hefði grætt á smá leikstjórn, en stóð engu að síður algerlega fyrir sínu.

Þetta framtak Leikfélags Hafnarfjarðar, og það hversu vel tókst þegar á heildina er litið er enn ein sönnun þess að félagið er í mikilli sköpunarlegri uppsveiflu. Hér voru ýmis stílbrigði prófuð og nýir höfundar og leikstjórar stigu sín fyrstu skref. Það er krafur í félaginu, sem flytur nú í nýtt húsnæði og eflist þar vafalaust enn frekar.