laugardagur, desember 27, 2003

BLESS FRESS

3 Sagas Entertainment Höfundur Robert Dubac, þýðandi Hallgrímur Helgason, leikstjóri Sigurður Sigurjónsson, leikari Þröstur Leó Gunnarsson, leikmynd og búningar Úlfur Grönvold, lýsing Sverrir Kristjánsson, tónlist og hljóðhönnun Friðrik Sturluson, raddir Unnur Ösp Stefánsdóttir og Helga Helgadóttir. Loftkastalinn 27. desember.  2003.


Enn um árans kjóann 


RÁÐALEYSI karlmanna í samskiptum sínum við konur er klassískt viðfangsefni í listum og skemmtiefni af öllu tagi. Lítill undirflokkur slíkra verka hefur orðið til á undanförnum árum, þar sem gengið er út frá eðlismun kynjanna og skopast með andstæða og að því er virðist ósamrýmanlega eiginleika karla og kvenna. Hellisbúinn er vitaskuld frægasta dæmið hér um slóðir, en allir gamanþættirnir um feitu sófakartöflurnar með fallegu og greindu eiginkonurnar eru af sama meiði. Og Bless fress er meira af því sama, nokkurs konar varnarræða árans kjóans hans Jóhanns, sem Jónas Árnason orti um og Þrjú á palli sungu um um árið. Ekkert er nýtt undir sólinni, sérstaklega ekki þegar kemur að samskiptum kynjanna. 


Í Bless fress er það hann Þröstur, eða Dösti til aðgreiningar frá leikaranum, sem er í klípu. Hann hefur sumsé níutíu mínútur til að skilja af hverju kærastan hans yfirgaf hann fyrir hálfum mánuði og hvað það er sem hún vill fá út úr sambandinu og lífinu. Eftir níutíu mínútur mun hún hringja og þá verður hann að hafa svör á reiðum höndum. En hann hefur ekki hugmynd um hvert svarið getur verið, og þótt hann hafi afbragðs vísbendingu – nafnið á kettinum hennar er lykilorðið yfir hvað hún vill fá út úr sambandinu við hann – þá man hann því miður ekki hvað kötturinn heitir. Megnið af þessum níutíu mínútur nýtir Dösti illa, réttlætir og útskýrir það sem hann sér sem karlmennsku sína og fjargviðrast yfir óskiljanleika kvenkynsins. En með hjálp fimm vina sinna dragast samt saman vísbendingar um hvað konur vilja, og að lokum telur hann sig hafa svarið. Sumar vangaveltur Dösta eru vitaskuld hlægilegar, sumt meira að segja af þeirri ágætu gerð gríns sem er fyndið af því að það er satt. Enda var mikið hlegið á frumsýningunni. 


En á heildina litið er Bless fress afleitt leikverk, illa uppbyggt, sundurlaust, klisjuborið og flatneskjulegt. Samband Dösta og Helgu, forsendan fyrir sögunni, verður nánast algerlega útundan meðan Dösti og félagar hans buna út úr sér viðteknum „sannindum“ um eðli karla og kvenna. Í stað þess að kynnast aðalpersónunni og sérstökum aðstæðum hennar fáum við níutíu mínútna langan stefnulausan fyrirlestur um útjaskað efni. Karlar hugsa með vinstra heilahvelinu, elska hunda en þola ekki ketti, eru rökvísir og þurfa sitt „speis“, eru með kynlíf á heilanum og muna ekkert stundinni lengur. Konur eru órökrænar tilfinningaverur sem stjórnast af hægra heilahvelinu og stýra karlmönnum með dyntum sínum og með því að breyta sífellt óskráðum reglunum sem þær hafa sett um samskipti kynjanna. Allt er þetta sett fram sem algild og óbreytanleg sannindi, en vandinn er að bæði er þetta orðið nokkuð margtuggið og þreytt, og auk þess, eins og flest einföld svör við flóknum spurningum, rangt. Það sem bjargar Bless fress frá því að vera alveg ómögulegt er frammistaða leikarans. 


Þröstur Leó Gunnarsson er afburða gamanleikari og flutti verkið með miklum krafti, einlægni og ísköldu öryggi hins þjálfaða listamanns sem hvílir í hæfileikum sínum og hlutverkinu. Frábærlega unnar tímasetningar skiluðu hlátri þar sem efnið gaf ekkert endilega tilefni til þess og allt samspil við áhorfendur var frjálslegt og eðlilegt. Auk Dösta bregður Þröstur sér í hlutverk vinanna fimm og fór létt með þau umskipti. Félagarnir voru reyndar misskemmtilegir, allir jafn klisjulegar persónur og við var að búast: hranalegur skipstjóri, franskur menningarviti, sjálfsöruggur og montinn Vestmannaeyingur, gamalmenni og heimskur smákrimmi. Skemmtilegastur var sá síðastnefndi, kostuleg skrípamynd hjá Þresti og sagan sem hann segir nánast eini staðurinn í verkinu þar sem prédikunartónninn víkur fyrir raunverulegum aðstæðum og atburðum sem varpa ljósi á samskiptavandann. Enda var þetta atriði líka einna fyndnast í sýningunni. 


Leikmynd Úlfs Grönvold er ekki mikið augnayndi, en gegnir sínu hlutverki og tjáir grunnhugsun sýningarinnar um heilahvelin tvö ágætlega. Þýðing og staðfærsla Hallgríms Helgasonar er vel heppnuð, og víða voru auðþekkjanleg fingraför Hallgríms á bröndurunum. Sigurður Sigurjónsson, leikstjóri sýningarinnar, hefur í samvinnu við Þröst Leó náð öllu því út úr þessu þunnildi sem hægt er með nokkurri sanngirni að ætlast til. 


Bless fress er lítilfjörlegt verk með heimskulegan boðskap, skreytt stöku vel heppnuðum brandara og skilað betur en það á skilið af frábærum gamanleikara. Ef það er nóg þá ætti fólk endilega að drífa sig í Loftkastalann, en bíða ella eftir að Þröstur, Hallgrímur og Sigurður finni hæfileikum sínum verðugra viðfangsefni.