miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Typpatal

Auðunn Blöndal
NASA 30. nóvember 2005.

Höfundur: Richard Herring
Leikstjóri: Sigurður Sigurjónsson
Flytjandi: Auðunn Blöndal.

Strákahúmor


ÞAÐ er ekki að spyrja að okkur karlmönnum. Að sjálfsögðu var ekki hægt að sjá einlæga, kröftuga og, það verður að viðurkennast, dálítið barnalega krossferð Evu Ensler fyrir kynfrelsi kvenna í friði. Í framhaldi af Píkusögum hlaut að koma Typpatal, og það gat aldrei orðið annað ein stólpagrín. Það góða er að grínið er meira og minna á okkar kostnað, en engu að síður ber það vott um að við höfum sterka tilhneygingu til að mæta alvarlegum vangaveltum kvenna um málefni kynjanna með djúpstæðu alvöruleysi.

Að forminu til er Typpatal fyrirlestur, með Power Point sýningu, kökuritum og öllu, um niðustöður “rannsóknar” sem höfundur sýningarinnar segist hafa gert á netinu. Brandararnir byggjast á hvernig lagt er út af niðurstöðunum, og svo náttúrulega eru sum svörin bráðhlægileg í sjálfu sér. Viðfangsefnin eru gamalkunn: stærð, úthald, sjálfsfróun, getuleysi, samkynhneigð, og svo náttúrulega hinir ýmsu vinklar á samskiptum við hitt kynið. Allt er það frekar hellisbúalegt eins og við er að búast, og það verður að viðurkennast að efnið sem þeir Auðunn og Sigurður vinna hér með er ekki upp á sérlega marga fiska. Alls ekki ónýtt, en dálítið jaskað og þreytt, kannski ekki ósvipað ástandinu á manngreyinu sem samkvæmt sýningunni átti hæsta “skorið” í könnuninni um tíðni sjálfsfróunar.

Góðu fréttirnar eru aftur á móti frammistaða Auðuns Blöndal, sem mér hefur hingað til virst vera svona heldur í aftursætinu meðal “Strákanna” hvað varðar skophæfileika. Þar líður hann sjálfsagt fyrir að vera ekki eins trúðslega vaxinn og Sveppi eða jafn eðlisfyndinn og Pétur. Kannski einfaldlega of myndarlegur, sem hjálpar mönnum ekki alltaf til að vekja hlátur. Hér sýnir hann hinsvegar alveg prýðileg tök á list uppistandarans, tímasetningar bjuggu iðulega til áhrifarík “pöns” úr þunnum bröndurum og honum tókst vel virka “spontant”, telja okkur trú um að þaulæft eintalið væri fullt af hugmyndum sem væru að kvikna á staðnum. Samband Auðuns við salinn var góð, það er kraftur og snerpa í flutningnum. Reikna má með að hér hafi fjölþætt reynsla og hæfileikar Sigurðar Sigurjónssonar komið flytjandnanum í góðar þarfir. Staðfærslan og heimfæring efnisins á íslenskan veruleika prýðilega lukkuð.

Typpatal er prýðileg léttmetissýning, best þegar hún er kjánalegust, verst þegar hún reynir að láta eins og verið sé að tala í alvöru. Sem betur fer skilur hún ekkert eftir sig nema innsýn í víðtækt notagildi Royal-búðinga og aukið álit á Auðunni Blöndal sem uppistandara.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Komi þeir sem koma vilja

Bandamenn
Þjóðleikhúskjallaranum 29. nóvember 2005.

Leikstjóri: Sveinn Einarsson
Tónlist: Guðni Franzson.

Flytjendur: Borgar Garðarsson, Felix Bergsson, Jakob Þór Einarsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Stefán Sturla Sigurjónsson og Þórunn Magnea Magnúsdóttir.

Forn forréttur


MÉR þykir Bandamenn vera ansi hreint merkilegur hópur. Þau gegna hlutverki fornleifafræðingsins í íslensku leikhúsi, grufla í fornum fræðum og dusta grómið af gömlum handritum. Leiklestrar þeirra á týndum leikritum á borð við Álf í Nóatúnum sameina skemmtigildi og fræðslu. Bandamenn taka hlutverk sitt alvarlega, en sem betur fer ekki leiklistina sjálfa hátíðlega, og þegar best lætur, eins og í frumverkinu Bandamannasögu krækja þau í bernskan og hömlulausan leikstíl sem óupplýst fólk kennir við áhugamennsku en er í raun ein af uppsprettum lifandi leikhúss.

Um þessar mundir eru Bandamenn að grúska í gömlum danskvæðum og öðrum dægrastyttingarskáldskap fyrri alda, og buðu til dagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum til að viðra efniviðinn, sem greinilega var ekki kominn ýkja langt í vinnslu, en nægilega þó til að gefa hugmynd um möguleikana og þá lítt nýttu auðlegð sem þarna leynist.

Um flutningin er í sjálfu sér ekki margt að segja. Leikhópurinn var afslappaður og kátur með möppurnar sínar, flutti textann (oftast) af öryggi og einfaldar sviðshreyfingar næsta fumlausar. Búningar svört betriföt en sviðið skreyttu brúður úr fyrri verkum hópsins, þar af tvær sem fengu aðeins að vera með, enda ættaðar úr sama jarðvegi og verið var að róta í þetta kvöld: Háa-Þóra og Finngálknið. Tónlist Guðna Franzsonar vel heppnuð og viðeigandi, en mest var þó sungið undir hefðbundnum þjóðlegum lagboðum. Og sungið vel, með nýliðann Jóhönnu Vigdísi í fararbroddi. Mest var áberandi og eftirminnilegast hve gaman hópnum þótti að kynna okkur efnið, hve stolt þau báru það á borð. Hér var innihaldið í forgrunni.

Þó svo allskyns kveðskap hafi borði á góma, öfugmælavísur, bænir, jafnvel galdraþulur, voru það danskvæðin sem mynduðu kjarnann. Það er sterkur seiður í þessum gömlu kvæðum, og freistandi að bera tilfinninguna við að hlýða á þau flutt saman við þá sem kviknar í færeyskum dansi. Það er auðvelt að sökkva sér ofan í þjóðernislega sjálfsvorkun og öfund þegar manni gefst kostur á að upplifa og taka þátt í hinni sprelllifandi hefð nágranna okkar, gleyma sér í hrynjandinni, vera þátttakandi en ekki áhorfandi. Eins er það saknaðarblandin gleði að hlýða á FLUTNING á samskonar kvæðum, þar sem þaulmenntaðir leikarar undir stjórn ástríðumanns um fornan arf hafa lagt á sig grúsk og erfiði til að finna og æfa eitthvað sem á næsta bæ er hverju barni munntamt.

En í öllum vanköntum býr tækifæri, segir nútíminn. Framandleikinn og dularblærinn sem umlykur þessi ljóð getur orðið helsti styrkur þeirra í hverjum þeim búningi sem Sveinn og Bandamenn hans munu skapa þeim endist þeim erindið. Endurtúlkun, endursköpun, rannsókn á hvaða erindi þetta efni á í dag, er möguleg einmitt vegna þess að kvæðin eru ekki á hvers manns vör.

Þessi kvöldstund í Þjóðleikhúskjallaranum var eins og heimsókn í eldhúsið hjá meistarakokki. Okkur var sýnt hráefnið, aðeins brugðið á leik með það, en sjálf matreiðslan fer síðan fram bak við luktar dyr eins og vera ber.

Skemmtileg heimsókn - og vatn í munninum.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Vetrarævintýrið um selinn Snorra

Leikbrúðuland
Gerðubergi 26. nóvember 2005.

Leikgerð Helgu Steffensen og Arnar Árnasonar byggð á efni úr sögu Frithjof Sælen.
Leikstjórn: Örn Árnason.
Brúðugerð: Erna Guðmarsdóttir og Helga Steffensen
Leikmynd: Þorvaldur Böðvar Jónsson
Leikraddir: Sigrún Edda Björnsdóttir, Pálmi Gestsson og Örn Árnason
Brúðustjórnun: Aldís Davíðsdóttir og Helga Steffensen
Tónlist: Níels Ragnarsson

Lífsleikni á norðurhjara


STARFSEMI Leikbrúðulands er eitt af merkilegum menningarverkum sem fara ekki hátt, en þeim mun víðar. Í þrjátíu ár hefur þetta fyrirferðalitla leikhús flutt yngstu áhorfendunum skrautlegar sýningar við þeirra hæfi og örugglega sáð ýmsum fræjum í ímyndunarafl áhorfenda sinna sem hafa haft ósýnileg en afdrifarík áhrif til góðs. Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn sem undirritaður sér sýningu Leikbrúðulands og sjálfsagt of seint að ala mig upp.

Snorri litli þarf að læra að varast hætturnar í umhverfinu. Sumar eru augljósar eins og rándýrin tvö sem vilja leggja sér hann til munns, gaman að sjá háhyrninga aftur komna í hlutverk illhvelisins eftir hliðarsporið sem ímynd þeirra steig á mektarárum Keikós. Það er tiltölulega einfalt mál að læra á slíka óvætti. Öllu snúnara er að öðlast skilning á því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Hér er þeirri lexíu gerð skil með framgöngu mávanna tveggja, Sultar og Svangrar, sem leiða Snorra í veg fyrir hinn sísvanga ísbjörn Voða. En erfiðast er að sigrast á sjálfum sér, læra að þekkja veikleika sína og varast ógöngurnar sem þeir geta leitt mann í. Snorri er nefnilega hégómlegur lítill kópur og fljótur að láta blekkjast af skjalli. Alla þessa lærdóma er hann látinn nema í sýningunni á beinskeittann en samt skemmtilegan hátt. Orugglega verður gaman að diskútera boðskap sögunnar við unga áhorfendur á leikskólum og annarsstaðar þar sem sýningin mun dúkka upp.

Því þetta er farandsýning, haganlega sett upp í snjallri og fallegri leikmynd sem þjónar sínum tilgangi vel. Brúðurnar eru og ásjálegar mjög, sérstaklega þó þær minni. Stóru dýrin eru öllu groddalegri, sérstaklega er Glefsir háhyrningur óþarflega föndurlegur miðað við sumar hinar. Mávarnir eru á hinn bóginn alveg sérlega vel heppnaðir og skemmtilegt að sjá þá birtast bæði agnarsmáa í fjarska og svo aftur stærri þegar þeir nálgast. Og fiskar og önnur smádýr sem gefa tilfinningu fyrir umhverfinu njóta sín vel, sérstaklega í fallegu upphafsatriðinu.

Textinn er lipur og þjáll og vel fluttur af þeim Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Pálma Gestsyni og Erni Árnasyni. Brúðustjónunin er fumlaus og aldrei tilfinning fyrir þeim mikla handagangi sem hlýtur að vera í öskju þeirra Helgu Steffensen og Aldísar Davíðsdóttur á bak við tjöldin. Hljóðmynd og upptaka á leiktexta er prýðileg og vel hefur tekist að samræma brúðustjórnun og hið upptekna efni.

Söguna um selinn Snorra las ég í æsku eins og flestir, en það er snjóað yfir það allt saman í minninu og því verður engin tilraun gerð til að meta hvað Vetrarævintýrið um selinn Snorra sækir í þá bók og hvað er frá leikgerðarhöfundum komið. Hitt má fullyrða að sýningin er ljúf og snotur með hæfilegan lífsháska til að halda athygli hinna yngstu þann rúma hálftíma sem það tekur að segja hana og miðla tímalausum lærdómnum sem hún býr yfir.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Trainspotting

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu í Keflavík 25. nóvember 2005

Höfundur: Irvine Welsh, þýðandi: Megas: leikstjóri: Jón Marinó Sigurðsson.

Niður til heljar hérumbil


Skoska skáldsagan Trainspotting hefur gert víðreist jafnt í landfræðilegum og formlegum skilningi, verið breytt bæði í kvikmynd og leikhúshandrit og sýnd í þeirri birtingarmynd um allar jarðir. Sennilega er það óbeislaður og óvæginn krafturinn sem laðar leikhúsfólk að þessari hráslagalegu sögu um unga skota á leið niður í eiturlyfjahyldýpið og endurkomu sumra þeirra úr því aftur. Verkið er blessunarlega laust við þann predikunartón sem einkennir of mörg verk sem fjalla um það böl sem vímuefni verða sumum neytendum þeirra, en nær þeim mun meiri áhrifum með því að varpa köldu ljósi á atburðina, persónuleika þeirra sem verst verða úti og þjóðfélagsaðstæður þær sem gera útgönguleiðina sem dópið býður jafn freistandi og raun ber vitni.

Ég verð að játa að hafa hvorki séð myndina frægu, né heldur uppfærslu Flugfélagsins Lofts á sviðsgerðinni á sínum tíma, en reikna með að hér sé að mestu fylgt því handriti sem þar var notað. Og verð að segja að þar orkar margt tvímælis. Þýðing Megasar er einkennilega bragð- og litlaus, mun daufari en við mætti búast úr þeirri áttinni. Þá ganga tilraunir til staðfærslu alls ekki upp – vísanir í breskan stéttamun með samanburði á MR og FB verða aldrei annað en lélegur brandari. Eins virðist mér að leikgerðin sjálf eigi í megnustu vandræðum með að lifa sjálfstæðu lífi óháð kvikmyndinni. Stuttar senur með of löngum skiptingum á milli og nokkuð óhófleg notkun á kvikmyndainnskotum sýndu að ekki hafði tekist að þýða efnið yfir á mál leikhússins. Vídeókaflarnir voru reyndar skrambi vel útfærðir, en virkuðu samt eins og uppgjöf fyrir forminu.

Jón Marínó er ekki reynslumikill leikstjóri þó hann hafi lagt gjörva hönd á margt í leikhúsinu sínu undanfarin ár. Best gengur honum að ná kraftmikilli og einlægri persónutúlkun út úr aðalleikurunum sínum, og það er aðal sýningarinnar. Félagarnir Rúnar Berg Baugsson og Burkni Birgisson voru þarna í sérflokki, enda einu persónurnar sem fá tíma og efni til að sýna þróun, þroska og glötun. Einnig sópaði að Arnari Inga Tryggvasyni sem var demónskur mjög í hlutverki sögumanns og fulltrúa eitursins í sýningunni.

Það sem síðan dregur nokkuð máttinn úr sýningunni er meðferð rýmisins. Jón Marinó kýs að fjarlægja nokkra fremstu áhorfendabekkina og stækka sviðið að sama skapi. Við þetta græðir hann vissulega pláss, en tapar um leið nálægðinni við áhorfendur, sem horfa úr fjarlægð á ofbeldið og óhugnaðinn, horfa niður á það sem fram fer, vel varðir af grindverki fyrir framan áhorfendasvæðið. Líklega hefði verið betra að fara þveröfulga leið, leitast við að þrengja að leikhópnum, koma áhorfendum fyrir sem allra næst því sem fram fer. Það er nefnilega ekki tilviljun að Trainspotting er oft spyrt saman við leikritunarstefnu sem kölluð er In-Yer-Face-Theatre. Nálægðin hefði líka hjálpað textaskilningnum, en of margir leikenda höfðu ekki tækni til að skila setningunum sínum skýrum í gegnum unglingaþvoglið sem er svo viðeigandi að nota.

Það eru greinilega kynslóðaskipti í Leikfélagi Keflavíkur um þessar mundir. Trainspotting er kraftmikil sýning sem augljóslega er sett fram af sannfæringu og ástríðu allra sem að henni koma. Þó svo tæknihnökrar dragi úr áhrifum hennar má gera ráð fyrir að framtíð leikfélagsins sé bjartari en þeirra lánleysingja sem þau sýna okkur að þessu sinni.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Drauganet

Lýðveldisleikhúsið
Tjarnarbíó 24. nóv. 2005

Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Darren Foreman
Sviðshreyfingar: Kolbrún Anna Björnsdóttir
Tónlist: Benóný Ægisson
Lýsing: Einar Þór Einarsson.

Leikendur: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Benóný Ægisson, Brynja Valdís Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Höskuldur Sæmundsson, Ingibjörg Stefánsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Páll Sigþór Pálsson, Valgeir Skagfjörð, Þórunn Clausen og Þröstur Guðbjartsson.

Glatkistubúar rísa upp


BENÓNÝ Ægisson hefur lengi unnið með hugmyndina um samband leikpersóna við höfund sinn, samband sem einatt er spennuþrungið og hreint ekki alltaf á vinsamlegu nótunum. Einþáttungur hans, Tvíleikur fyrir höfund og leikara, þykir mér alltaf eitt af hans betri verkum þó lítill sé að vöxtum. Nú hefur Benóný tekið eintalaröð sína, Glæsibæjareintölin, steypt þeim saman í eina sýningu og kryddað með skírskotunum í það sama vandamál og um ræðir í fyrrnefnda þættinum. Að þessu sinni er sjónum beint að því hvernig persónur þrífast eða þrífast ekki í einskismannslandi eintalsins.

Þetta eru fyrstu kynni undirritaðs af Glæsibæjareintölunum, sem áður hafa verið flutt að ég held oftar en einu sinni. Hér eru á ferðinni nokkuð hefðbundin stutt eintöl, nokkurskonar skyndimyndir af persónunum. Velflest falla þau í sama mótið, eru varnarræður fólks í misalvarlegum lífskrísum sem þau eru ekki nema að litlu leyti meðvituð um. Sjálfsréttlæting þeirra er síðan afhjúpandi, við sjáum í gegnum lygina sem er varnarbúnaður persónanna. Í spennunni milli sjálfsmyndar persónanna og þess sem við skynjum bak við orðin er leikrænn máttur textans fólginn.

Benóný hefur þetta stílbragð vel á valdi sínu. Ég saknaði þess samt aðeins að sjá ekki fjölbreyttari nálganir frá höfundinum. Þrettán eintöl sem öll fylgja svipaðri formúlu draga á endanum máttinn hvert úr öðru.

Mörg þeirra eru prýðilegar smíðar. Einkum eru minnisstæð hin yfirborðsglaðlynda kona Þórunnar Clausen og harðneskjulegur sjóari Gunnars Eyjólfssonar, og það er sjálfsagt ekki tilviljun að þessi tvö voru líka framúrskarandi í flutningnum. Fleiri áttu góðar innkomur, ekki síst Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Valgeir Skagfjörð.

Umbúnaður og framsetning öll ber þess merki að ekki hafi verið nostrað sérlega mikið við uppsetningu verksins. Trúlega ekki gefist tími til þess. Það er í sjálfu sér skiljanlegt og allt í lagi. Hitt þótti mér heldur verra að sá rammi sem sniðinn er virkar ekki sérlega sannfærandi. Mér þótti vangavelturnar um stöðu persónanna gagnvart höfundi sínum ekki bæta neinu við myndina af þeim, og tilraunir til að flétta eintölin saman gengu annaðhvort of skammt eða of langt. Að forsendunum um tímaskort gefnum hefði meiri einfaldleiki þar sem hverju eintali væri gefið svigrúm, með kynningu og skýrum endi trúlega verið heppilegri. Að öðrum kosti hefði þurft að gera mun meira í að fleyga eintölin, vinna með hverjir hlusta á hvað eða eru vitni að hverju og ganga lengra með hugsunina um ófullnægju eintalspersónanna og afstöðu þeirra til höfundarins sem guðs í þeirra heimi. Tónlistarinnskot þóttu mér mörg áheyrileg en litlu bæta við heildarupplifunina.
Drauganet er áhugaverð tilraun höfundar til að þróa efnivið sinn í samvinnu við áhorfendur. Viðbrögð þessa áhorfanda sem hér skrifar eru löngun til að upplifa efniviðinn án umbúðanna, með meiri rækt við hvert eintal fyrir sig og þroskaðri tök leikaranna sem meiri tími myndi ljá þeim. Því ég efast um að þessi eina sýning muni fullnægja þessum óstírlátu persónum og fá þær til að sættast við eilífa glatkistuvist.

laugardagur, nóvember 05, 2005

Það grær áður en þú giftir þig

Leikfélag Kópavogs
Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs 5. nóvember 2005.

Spunaverk byggt á Kirsuberjagarðinum eftir Anton Tsjekhov. Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir.

Aldrei fór ég suður


VAR Tsjekhov fyrsta stórskáldið til að gera landsbyggðavandann að sínu helsta yrkisefni? Allavega er hann áreiðanlega mikilvægasta leikskáldið sem hefur lífsleiða og örvæntingu útkjálkafólks sem lykilatriði í öllum sínum verkum. Hreinræktaðast er þetta samt í Kirsuberjagarðinum, þar sem allt hverfist um augljósa möguleika á að snúa vörn í sókn í niðurníðslunni – möguleika sem enginn megnar að nýta.

Það er því frábær hugmynd hjá Sigrúnu Sól og Leikfélagi Kópavogs að færa atburði og persónur Kirsuberjagarðsins inn í íslenskan nútíma. Kirsuberjagarðurinn er orðin að skógræktarlundi uppi í hlíð fyrir ofan villu kvótakóngsins sem flúði með lífsbjörg þorpsins. Og þegar hann snýr aftur skuldum vafinn er kominn nýr kappi, sem hefur eflst upp úr engu með tvær trillur, vídeóleigu, essósjoppu og annað smálegt.

Stóra gamanið í sýningunni felst í að velta þessum hliðstæðum fyrir sér, svo og að dást að kraftmiklum og óttalausum leikhópnum sem kastar sér út í iðukast spunaleiksins og heldur langoftast haus. Hitt er verra að sýningin skilur efitr þá tilfinningu að hafa ekki verið fullunnin, að þessari snjöllu hugmynd hafi ekki verið gerð ítrustu skil. Það vantar að slíta sig betur frá frumverkinu og skoða ekki bara hliðstæðurnar heldur líka það sem á milli ber og kasta burt þein efnisþáttum frumverksins sem ekki nýtast við þessar aðstæður. Og það vantar sterkara handrit, spuninn verður of oft of ómarkviss til að halda uppi spennu allan tímann.

En það eru auðvitað kostirnir sem lifa í minningunni. Brynja Ægisdóttir virðist mér til að mynda vera mikið efni, og hún geislaði af sjálfsöryggi og orku í hluverki Dúnu. Sama má segja um Sigstein Sigurbergsson sem eflist við hverja raun þessi misserin. Arnar Ingvarsson var hlægilegur sem skrípið Símon. Þá verður að hrósa hinum mjög svo hljómþýða trúbador Hilmari Garðarssyni fyrir hans framlag, þó tónlistarnotkun þætti mér almennt vera fremur tilviljanakennd og alla jafnan ekki þjóna sýninguni. Ég hefði til að mynda heldur kosið að fá að sjá Elínu Björgu Pétursdóttur og Fannar Víði Haraldsson glíma við að trúlofast ekki heldur en að hlusta á lokalagið sem átti einungis bláþráðótt tengsl við efnið þó fallegt væri sem slíkt.

Útlistun vankanta sýningarinnar mega þó ekki skyggja á að þetta er hin besta skemmtun. Það er mikið leikfjör, mikið grín og kraftur á sviðinu í Hjáleigunni. Leikfélag Kópavogs hefur gengið í gegnum hraða endurnýjun á síðustu missernum en nýgræðingarnir hafa greinilega tekið helstu kosti þess inn með vatninu úr krönunum. Metnaður og áræði einkenna þessa sýningu og listræn alvara í bland við ærslin.