þriðjudagur, júní 06, 2006

Dans

Leikfélag Kópavogs Höfundur og leikstjóri: Hrund Ólafsdóttir. Félagsheimili Kópavogs 6. júní 2006

Fyrsti dansinn 


NÝTT uppbyggingarskeið er hafið hjá Leikfélagi Kópavogs. Í gegnum árin hefur starfræksla unglingadeilda skilað félaginu endurnýjuðum mannskap og þeim krafti sem honum einatt fylgir.

Þótt hópurinn sem í vetur hefur starfað undir stjórn Hrundar Ólafsdóttur sé sýnilega á byrjunarreit þá er ekki annars að vænta en að uppskeran verði þegar fram líða stundir jafn drjúg og á árum áður. Það er býsna hátt reitt til höggs í Dansi, sem Hrund skrifar sérstaklega fyrir hópinn og að því mér skilst að einhverju leyti út frá spunavinnu krakkanna.

Dans segir sögu nokkurra vinkvenna frá áttunda bekk og þar til menntaskólinn tekur við, með stúlkuna Hildigunni sem miðpunktinn sem við kynnumst best, þroska hennar, áföllum og sjálfstæðisbaráttu. Verkið er byggt upp á stuttum senum sem kvikna og hverfa, oft án þess að þær séu leiddar skýrt til lykta. Erfitt form fyrir höfund, leikara og ekki síst leikstjóra, en sviðslausnir hefðu að ósekju mátt vera fjölbreyttari í sýningunni.

Mér fannst skorta nokkuð á skerpu í leikrituninni sjálfri. Of margar senur höfðu ekki skýran tilgang, og það sem virðist í upphafssenunni vera einhvers konar krísa Hildigunnar sem við fáum mynd af í endurliti fær of lítið rými ef það hefur átt að vera algert aðalatriði.

Hin leiðin hefði jafnframt verið fær, að gefa fleiri persónum meira pláss og kjöt á bein. Verkið líður svolítið fyrir það að reyna að fara bil beggja. En vissulega margt vel skrifað og eðlilega upp í unglingana. Þó svo efni verksins standi þátttakendunum augljóslega nærri þá afhjúpar hreinræktaður raunsæisstíllinn líka allt óöryggi og tæknilega vankanta sem óhjákvæmilega eru til staðar hjá svo óreyndum leikurum. Þeir leikaranna sem fengu tækifæri til að búa til „týpur“ sem stóðu þeim fjær, bregða upp skopfærðum skyndimyndum af fullorðnu fólki, virtust almennt njóta sín betur, sem er áhugavert umhugsunarefni fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa að leiklist með unglingum.

Engu að síður verður að taka ofan fyrir Sunnu Rut Garðarsdóttur sem yfirvann sýnilegan sviðsskrekkinn í upphafseintalinu og komst talsvert langt með að lýsa Hildigunni. Það var líka áberandi öryggi yfir framgöngu Helenu Hauksdóttur í hlutverki Siggu.

Dans ber þess auðvitað skýr merki að vera vitnisburður um fyrstu skref leikhópsins. Og fyrstu skref eru ávallt sigur í sjálfu sér. Hvað gerist næst ræðst kannski fyrst og fremst af því hverjir krakkanna taka leiklistarbakteríuna, hverjir fyllast eldmóðnum. Hverjir dansa áfram. Það verður spennandi að sjá hverju þessi djarfmannlega tilraun skilar Leikfélagi Kópavogs á næstu árum