mánudagur, janúar 30, 2023

Marat/Sade

Eftir Peter Ulrich Weiss. Íslensk þýðing: Árni Björnsson. Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson. Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir og Filippía Elísdóttir. Tónlist: Richard Peaslee. Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Guðni Franzson. Lýsing: Arnar Ingvarsson. Sviðshreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikarar: Arnar Jónsson, Arnfinnur Daníelsson, Ásgeir Ingi Gunnarsson, Árni Pétur Guðjónsson, Eggert Þorleifsson, Guðmundur Ólafsson, Halldóra Harðardóttir, Hanna María Karlsdóttir, Harald G. Haralds, Helga Jónsdóttir, Jón Hjartarson, Jórunn Sigurðardóttir, Júlía Hannam, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir, Reynir Jónasson, Reynir Sigurðsson, Sigurður Skúlason, Sigurður Karlsson, Viðar Eggertsson, Þórhallur Sigurðsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Sviðslistahópurinn Lab Loki frumsýndi í samstarfi við Borgarleikhúsið á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 20. janúar 2023. 

Rannsóknarskýrsla fyrsta lýðveldisins

Orðið „stofnanaleikhús“ fær alveg sérstaka merkingu í verki þýsk-sænska leikskáldsins Peter Weiss, „Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat, sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn de Sade markgreifa.“ Og eins og í hinni algengari notkun þess hefur eðli stofnunarinnar, markmið hennar, mannauður og tengsl við valdhafa, áhrif á það sem þar er sett á svið, og hvernig. 
Langi titillinn dugar ágætlega sem knappt efniságrip. Aðeins ítarlegar: sumarið 1808 styttir markgreifinn frægi sér stundir, þar sem hann dúsir bak við lás og slá, við að skrifa og sviðsetja söguleik um vel heppnað banatilræði Charlotte Corday við einn af leiðtogum frönsku byltingarinnar, Jean-Paul Marat, fimmtán árum áður, meðan hæst lét í fallöxinni. Fólkið sem deilir með honum hælinu fær síðan að leika afraksturinn undir vökulu auga hælisstjórans, sem vill virka framsýnn og frjálslyndur, meðan engin rugga bátnum undir honum.
Í verki Weiss er hælið sem sagt geðsjúkrahús, Vitaskuld í skilningi aldamótanna 1800 en ekki ameríska geðraskanakatalógsins sem mótar sýn okkar í dag. Geymslustaður fyrir fólk sem öðrum þykir ekki við hæfi að gangi laust, með réttu eða röngu. Kannski er svo enn í túlkun Rúnars Guðbrandssonar í Borgarleikhúsinu, en óneitanlega dregur grunnhugmynd uppfærslunnar fram aðrar hugsanir. 
Sú vogaða en bráðsnjalla hugmynd er að skipa í öll hlutverk úr elstu deild íslenskrar leikarastéttar. Er þetta kannski einhverskonar elliheimili? Þó sum hegði sér vissulega annkannalega, eftir því sem verkið og stemmingin krefst, fer áhorfandinn ósjálfrátt að hugsa um þennan fremur nöturlega stað sem hjúkrunarheimilli. Með öllum þeim heilbrigðispólitísku hugrenningatengslum sem þeim stofnunum fylgja hér og nú. Og um vistmennina sem virka þátttakendur, eða í það minnsta vitni, að blóðbaðinu fimmtán árum fyrr. Vel meðvitaða um það allt, þó nú hafi hallað undan fæti í boði Elli kellingar. Gamlingjarnir eru börnin sem byltingin beit en át ekki, tuggði en melti ekki til fulls. Fyrir vikið verður allt uppgjörið sem verk Weiss og/eða Sades enn merkingarríkara, beittara og mótsagnakenndara.
Því Marat/Sade gengur fyrir mótsögnum. Og fjallar um þær: togstreituna milli frelsisins – hugsjónar Sade – og félagslegs réttlætis, sem er baráttumálið sem Marat þykir öllu fórnandi fyrir. Undir handarjaðri yfirlætisfullrar værukærðar sigurvegaranna, sem vilja helst gleyma þessu öllu. „Hin svokallaða bylting“ er best strikuð út. Óneitanlega kunnugleg stemming fyrir okkur, fjórtán árum eftir búsáhöld. 
En Sade lætur ekki þagga niður í sér. Það er nú ein aðal-mótsögnin: hann er höfundur textans, þá væntanlega einnig orða Marats í kappræðum þeirra um hugsjónir sínar. Sjálfur erki-frjálshyggjumaðurinn. Og þar utan við stendur sósíalistinn Weiss og yrkir upp í þá báða. Útkoman er eiginlega skotheld uppskrift að því sem nútímaleikhúsið er alltaf að reyna, en hefur varla tekist merkjanlega betur en hér, svo ég muni: að taka samfélagsleg málefni til skoðunar á beinskeyttan, vitsmunalegan og listrænt fullnægjandi hátt, í frumlegu og frjálslegu formi.
Þetta hljómar kannski ekki eins og mikil skemmtun, en það er nú öðru nær. Það er nettur revíublær á bæði texta Weiss, viðbættum söngvum Richard Peaslee og snjöllum textum Adrian Mitchell. Allt í viðeigandi íslenskum búningi Árna Björnssonar með smá hjálp frá Braga Valdimar Skúlasyni. Gamli góði Gísl Brendans Behan kom upp í hugann. Sami blær svífur yfir vötnum í frjálslegri sviðssetningunni. Þá er ónefndur sá lúmski X-faktor að kalla til gömlu stjörnurnar, og reyndar góðan slatta af öðru leikhúsfólki sem kannski stendur ekki alveg undir stjörnustimplinum, en gaman er að sjá á ný engu að síður.
Þetta kostar alveg smá: Þetta er ekki snarpasta mögulega uppfærsla á Marat/Sade. Vel er hægt að ímynda sér stefnuvirkari aukaleikara, kröftugri glundroða, áhrifaríkari móðursýkisköst hópsins í hápunktum verksins. Ég sat á fjórða bekk og er til efs að allur texti, talaður og sunginn, hafi skilað sér aftur á þann tólfta. Hvíslarinn fékk orðið þrisvar eða fjórum sinnum á frumsýningunni. Hefði vel mátt vera með á sviðinu, sem er hvort sem er vettvangur allskyns framandgervingar frá hendi bæði höfundar og leikstjóra. 
En ávinningurinn er svo sannarlega ekki heldur nostalgían einber, eða tilfinningin fyrir tvö þúsund ára uppsöfnuðum sviðssjarma. Það finnast væntanlega hvergi réttari menn í hlutverk titilpersónanna en Arnar Jónsson og Sigurður Skúlason, sem báðir brillera. Og hver getur staðist áreynslulausa fullkomnun Eggerts Þorleifssonar í hlutverki kynóða kallsins með gullnefið (hitt væntanlega farið í boði sárasóttarinnar) sem Sade lætur túlka vonbiðil hinnar einóðu Corday, af langfrægum skepnuskap? Corday sem Margrét Guðmundsdóttir skilar af fallega innlifaðri nærveru og tilfinningaþunga í textaflutningnum þegar mikið liggur við. Og sjálfsánægða valdslepjuna sem lekur af hælisstjóranum hjá Viðari Eggertssyni hefði enginn framleitt betur, eða í það minnsta nákvæmlega svona. 
Svo nokkur fleiri séu nefnd sópar líka að Árna Pétri Guðjónssyni í hlutverki kostulegs kynnis, Hanna María Karlsdóttir er fremst meðal jafningja í kvartettinum sem ber uppi sönginn, og það var gaman að sjá, og ekki síður heyra í Þórhildi Þorleifsdóttur, sjaldséðri á sviði. Tveir öldungar úr tónlistarlífinu, nafnarnir Reynir Jónasson og Sigurðsson, spila undir og er prýði að þeim báðum.
Umgjörð Ingibjargar Jöru Sigurðardóttur og Filippíu Elísdóttur er hráslagaleg í anda fátæka leikhússins og búningar þeirra sömuleiðis með samtýningsbrag sem hæfir vel. Þetta er ekki bara fátækt heldur umfram allt óheflað leikhús, eins og einn af helstu boðberum og túlkendum verksins, Peter Brook, skrifar um.
Í gamalli skrítlu segir að Kínverjar telji enn of snemmt að meta áhrif frönsku byltingarinnar. Mér hefur skilist að brandarinn sé byggður á misskilningi, en er þetta samt ekki alveg rétt? Við þurfum enn að horfast í augu við þá þverstæðu raunveruleikans að til að mannlífið sé bærilegt þurfa bæði Sade og Marat að hafa rétt fyrir sér. Við þurfum jöfnuð og réttlæti, en líka frelsi. 
Þess vegna er þetta eitursnjalla, stórskrítna verk enn jafn-gagnlegt innlegg í umræðuna. Og það þarf enginn að óttast að þurfa að sitja undir einhverri einhliða predikun eða þurri tíundun staðreynda í sýningu Lab Loka og pönkuðu gamlingjanna í Borgarleikhúsinu.