fimmtudagur, nóvember 03, 2022

Madame Tourette

****

„Sýnilegasti öryrki íslenskra sviðslista“ er Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir kölluð í upphafi uppistandssýningar sinnar, Madame Tourette, sem frumsýnd var í Tjarnarbíói síðastliðið sunnudagskvöld við mikinn fögnuð viðstaddra. 
Sýningin var líka stórskemmtilega römmuð inn með vísun í inngildingarumræðuna sem fór í gang í kjölfar frumsýningar söngleiksins Sem á himni í Þjóðleikhúsinu. Sennilega nýjasta viðbótin við efni uppistandsins, sem Ágústa Skúladóttir hefur sviðsett og Þórunn María Jónsdóttir gefið bakgrunn með þrennskonar stólum og valið litrík og glæsileg föt fyrir stjörnuna. 
Því Elva Dögg ber sig eins og stjarna á sviðinu og áhorfendur myndu éta úr lófa hennar, ef það væri ekki óráðlegt að vera mikið að borða, svo títt, stjórnlaust og stundum óvænt sem hlátursköstin bresta á.
Umfjöllunarefnið er, eins og hjá svo mörgum uppistöndurum, hún sjálf. Uppvöxturinn, ástarlífið, barnauppeldið og almennt séð staða standarans í heiminum. Þar er óhætt að segja að Elva Dögg hafi frá ýmsu að segja, en hún er með Tourette-heilkennið, sem einkennist af hreyfi- og hljóðakækjum, auk þess sem áráttu- og þráhyggjuröskun fylgir oft í kaupunum, og svo er í tilfelli Elvu. 
Þetta er auðvitað jarðvegur fyrir ríkulega uppskeru af efni til að skopast með, fyrir þá sem glíma við ástandið – aðrir eiga vitaskuld að láta það kjurt. En veldur hver á heldur, og Elva fer stórkostlega með sögurnar sínar og reynslu. Hún hlífir sér hvergi, og heldur ekki viðhorfunum sem hún hefur mætt og mætir enn. Stundum sláandi bersögul, stundum ótrúlega kaldhæðin. Ekki alltaf prenthæf. Alltaf morðfyndin.
Efnið er gjöfult, en það er færnin sem vekur hláturinn, og bakþankana sem fylgja áhorfendanum, því það er meining bak við galskapinn. Elva hefur framúrskarandi vald á tímasetningum, samspilið við salinn er frábært, textinn snjall og óvæntar vendingar fjölmargar. 
Á einhvern undraverðan hátt tekst henni allt í senn: að fara í kringum kækina sína, nýta þá til að magna upp það sem hún er að segja, tala um þá þannig að jafnvel átakanleg atvik og erfiðleikar vekja hlátur. Stundum skömmustulegan, jafnvel hálfkæfðan, sérstaklega framan af, en fljótlega eru halda áhorfendum engin bönd. Góður brandari, vel fluttur, er nefnilega ekki síður ósjálfráð og stjórnlaus viðbrögð en hvað það er sem fær Elvu Dögg Gunnarsdóttur til að gretta sig, sparka útundan sér og snúa sér í hringi
Madame Tourette er sýning engu lík, sem öll ættu að sjá.