Blóðuga kanínan
eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Leikstjórn: Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Leikmynd, búningar og gervi: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Borgar Ao. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson. Sviðshreyfingar: Vala Ómarsdóttir. Listrænn ráðunautur: Matthías Tryggvi Haraldsson. Hljóðhönnun: Þórður Gunnar Þorvaldsson. Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Borgar Magnason, Davíð Freyr Þórunnarson, Íris Tanja Flygenring, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Ævar Þór Benediktsson. Fimbulvetur í samstarfi við Murmur frumsýndi í Tjarnarbíói föstudaginn 11. febrúar 2022.
Stríð og blíða
Það gerist ekki á hverjum degi í leikhúsinu að ákveðið er að setja höfundinn á plakötin og forsíðu leikskránna. Því gleðilegra að mæta dálítið ráðvilltri og áhyggjufullri Elísabetu Jökulsdóttur í hreint stórkostlegu gervi í kynningarefni Blóðugu kanínunnar . Heyra svo rödd hennar leggja línurnar um meðferð snjalltækja fyrir sýningu og reka fólk úr salnum í hléi.
Allt er þetta hluti af sérlega sterkum heildarsvip og þeirri alúð sem hefur verið lögð við ásýnd sýningarinnar. Leikmynd, búningar og gervi Þórunnar Maríu Jónsdóttur er feikigott verk, sem tekst að draga saman í heildstæða mynd helstu atriðin í burðarvirki verksins: sirkus, kaffihús og stríð. Eru þetta sessur eða sandpokar, þessir marglitu púðar sem mynda vegg – eða skotgröf – í upphafi sýningar? Svarið er já, þetta eru sessur eða sandpokar. Allt er myndbreytingum háð í ljóðrænni textaveröld Elísabetar Jökulsdóttur.
Blóðuga kanínan sver sig í fornar hefðir táknsæis með viðkomu í öllu yngri nálgun absúrdleikhússins. Heimurinn sem vígvöllur, mannlífið sem sirkus, og manneskjan sem persónugerðir eiginleikar sínir. Í Blóðugu kanínunni taka þættir í persónuleika Dísu á sig sjálfstætt form sem varnarviðbragð við áfalli. Fáráðlingurinn, Skrímslið, Barnið, Píslarvotturinn, Hetjan og Trúðurinn reyna öll að komast af í stríðinu, leita skjóls á kaffihúsinu, reyna að finna sér stað í sirkusnum. Reyna að muna, reyna að gleyma. Berjast innbyrðis, glíma við Dísu „sjálfa“.
Útkoman er spennuþrungin kvöldstund, full af sláandi textamyndum sem úrvinnsla Guðmundar Inga Þorvaldssonar magnar upp og mótar. Að sönnu ekki „dramatísk“ í hefðbundnum skilningi, það er varla hægt að tala um framvindu, alveg örugglega ekki um fléttu og þau átök milli persóna sem þó eiga sér stað eiga sér enga úrlausn. Áhorfandanum er boðið inn í óreiðukenndan en sjálfum sér samkvæman heim ljóðmynda sem birta mynd af sálarlífi á barmi upplausnar. Það reynist fullkomlega nóg. Meira en nóg, mætti jafnvel segja – það má velta því fyrir sér hvort upplifunin væri ekki sterkari ef verkið væri stytt þannig að hlé væri óþarft. Það er sérkennilegt að stíga út úr jafn sterkum og fast mótuðum heimi og svo inn í hann aftur.
Guðmundur Ingi hefur unnið hreint frábært verk við að móta og forma framsetningu efnisins. Sviðsetningin er verulega áhrifarík, staðsetningar og nýting rýmisins alltaf áhrifarík, sviðshreyfingar Völu Ómarsdóttur sterkar og flæðið sérlega gott. Andrúmsloftið sem útlitshönnun Þórunnar Maríu er forsendan fyrir er síðan rækilega stutt af stemmingsríkri lýsingu Friðþjófs Þorsteinssonar og þó öllu fremur hreint frábærri og viðeigandi hljóðmynd Borgars Ao, sem er mikið til flutt af honum á sviðinu, leikin á píanó og gítara.
Vinnan með leikurunum hefur einnig verið fyrsta flokks. Þau Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Borgar Ao, Davíð Freyr Þórunnarson, Íris Tanja Flygenring, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Ævar Þór Benediktsson vinna saman sem einn maður. Sem er nákvæmlega það sem sýningin krefst af þeim.
Öll eiga þau glansnúmer. Borgar betri í kommentum sínum af hliðarlínunni en samtalinu við Dísu, Davíð Freyr kröftugur í samleik skrímslisins í einu af lykilatriðum sýningarinnar. Íris Tanja hæfilega kómískur píslarvottur, en ekki er ég viss um að mikilvæg sena barnsins undir lokin hafi borist aftur á aftasta bekk þó innileg væri fyrir okkur í fremri hluta salarins.
Aðalbjörg og Ævar túlka fyrirferðarmestu þættina í sálarlífi Dísu. Fáráðlingur Aðalbjargar er sterk persónumynd og Ævar er yndislegur sem dálítið dapur trúður, heldur uppi orkustigi sýningarinnar á köflum, en dettur aldrei inn í fíflalæti. Almennt er sýningunni haldið í mjög góðu jafnvægi milli þess að taka innihald sitt og erindi alvarlega, með tilfinningalegu sambandi við áhorfendur, og að glotta varlega út í annað. Það birtist í kommentum sirkusstjórans, í bernsku atriði eftir hlé þar sem blóm og fiðrildi eiga óvænta innkomu og lofsyngja skapara sinn, og í innkomu Ólafíu Hrannar í hlutverki társins, sem persónurnar þrá og tilbiðja. Þar er jafnvægi háðs og dýpstu alvöru í hárfínu jafnvægi, nokkuð sem Ólafía Hrönn er meistari í og bregst ekki hér. Frumsýningarsalurinn var reyndar nokkuð á báðum áttum hvorum megin lokasöngur hennar félli.
Þóra Karítas fær það verkefni að vera miðjan í þessum tilfinningastormi og ferst það ágætlega úr hendi, vopnuð sterkri nærveru og fallegri útgeislun, þó hún fái óneitanlega minni tækifæri til að sýna tilþrif en höfuðskepnurnar sem búa innra með henni og aðrir leikendur túlka.
Blóðuga kanínan er sterk leikhúsupplifun. Brotakennd mynd af brotinni sál í leit að heilun og lausn. Að stríðinu linni og sviðsljós sirkussins dofni og tárið vinni sitt töfrastarf. Ljóð- og myndheimur Elísabetar Jökulsdóttur er fjölbreyttur og margræður en býr yfir innri rökvísi sem endurspeglast hér í hreint frábærri úrvinnslu leikstjóra, hönnuða og hæfileikaríks, kröftugs og örláts leikhóps.
<< Home