fimmtudagur, september 30, 2021

Ásta


Leikverk byggt á höfundarverki Ástu Sigurðardóttur. Handrit og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Dramatúrg og aðstoðarleikstjóri: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir. Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og Matthildur Hafliðadóttir. Tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Sigurbjörg Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Myndbandshönnun: Steinar Júlíusson. Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson. Sviðshreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir. Hljómsveit: Guðmundur Óskar Guðmundsson, Matthildur Hafliðadóttir, Rögnvaldur Borgþórsson og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir. Leikarar: Birgitta Birgisdóttir, Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Oddur Júlíusson, Hákon Jóhannesson og Steinunn Arinbjarnardóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 17. september 2021.

Kona stígur fram

Á sínu gullna skeiði hefur Ásta Sigurðardóttir borið af öllum. Klárust, orðheppnust, flinkust, frökkust, fallegust. Hreinlega best í öllu. Síðast en ekki síst nútímalegust. 
Hvernig gat það eiginlega gerst? Kotbóndadóttir úr Kolbeinsstaðahreppnum, alin upp á Eddukvæðum og brennisteinsríkari hlutum Biblíunnar með skyrinu og slátrinu. Og hvernig gat svo hitt gerst; að allir þessir mannkostir og möguleikar brynnu upp og koðnuðu síðan niður? Hvorki lífeðlisfræðilegar tilgátur um alkóhólfíkn, inngróið samfélagslegt óréttlæti um miðja síðustu öld né sálfræðikenningar um afleiðingar sífellds umtals og fordæmandi gláps fullægja okkur. Kannski viljum við bara fá að syrgja í friði allar sögurnar sem aldrei voru skrifaðar, óristu dúkana og hversdagslegu lífshamingjuna sem stundum virðist vera innan seilingar og okkur langar svo að hefði getað orðið hlutskipti hennar.
Leikverk og sýning Ólafs Egils Egilssonar ætlar sér ekki að leysa neinar af þessum gátum. Nema kannski með því að leggja spilin á borðið enn einu sinni og leyfa okkur að horfa á mynstrið myndast. Rifja upp fyrir þeim sem þekkja og kynna magnaðan kima fyrir hinum. Verkið byggir á heimildarvinnu og rannsóknum, lestri smásagnanna og annarra texta Ástu, grúski í bréfum og opinberum skjölum og viðtölum við fólk. Vafalaust hafa þau Ólafur og Andrea Elín Vilhjálmsdóttir dramatúrg haft mikinn stuðning af „Minn hlátur er sorg“, ágætri bók Friðriku Benónýsdóttur um Ástu frá 1992 sem nú hefur verið endurútgefin.
Þetta tekst þegar á allt er litið harla vel. Stundum, sérstaklega í fyrri hlutanum, er eins og einhverntíman hafi staðið til að þetta væri einhverskonar stórsjó í anda Þreks og tára, með helmingi fleiri leikurum, hringsviðinu á yfirsnúningi og tíðarandanum í aðalhlutverki. En fljótlega þrengist sjónarhornið um Ástu, samferðafólk hennar í bóhemalífinu og hvernig allt sem hún gerir virðist stuða og ógna kyrrstöðunni og siðgæðinu. Módelstörfin auðvitað, en líka einfaldlega plássið sem hún tekur sér. Og svo stóra bomban, smásagan „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“, sem engum dettur í hug annað en sé sannsöguleg, að þarna hafi höfundurinn „stigið fram“ eins og það er kallað í nútímanum, og eins og nú má ekki á milli sjá hvort er ljótari synd; að afhjúpa ofbeldi tæpitungulaust eða nefna ekki nöfn. 
Úrvinnsla Ólafs Egils og hans fólks á sögunni frægu, sem er fléttuð saman við hina grimmilegu hrollvekju „Dýrasögu“, er áhrifarík og snjöll. Þaðan liggur leið Ástu að mestu niður á við með stuttu sælutímabili og barnaláni í Kópavogi, og áhrifamáttur sýningarinnar og tök hópsins á efninu styrkist að sama skapi. Lokin, þar sem bréfasendingar milli móður og barna er fléttað saman við skýrslutexta um nöturlegar aðstæður hennar og þeirra, eru sérlega sterk, og brilljant lausn hefur fundist á að gefa tilfinningu fyrir börnunum án þess að leikhópnum sé gert að „túlka“ þau sem slík, sem erfitt er að sjá fyrir sér að hefði endað öðruvísi en með vandræðagangi.
Fram að því hafa þau Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson, Oddur Júlíusson og Steinunn Arinbjarnardóttir í nógu að snúast við að skapa samfélagið í kringum Ástu. Aðalbjörg er flott sem hin harðneskjulega móðir, sem þrátt fyrir sína heitu trú er stundum líka rödd jarðneskrar skynsemi, sem auðvelt er að leiða hjá sér eða slá út af laginu með vel formuðu guðlasti. Bitastæðasta hlutverk Steinunnar er systirin sem virðist bjargast þó óreglan heilli hana líka. Gunnar Smári fer fínlega með það vandasama verkefni að vera Þorsteinn frá Hamri, sem hvorki sýningarhöfundar né gestir kæra sig líklega um að sé afgreiddur sem lítilsigldur óþokki þó erfitt sé að horfa á hann yfirgefa fjölskylduna. Hákon dregur upp fallegar myndir af föður Ástu og Geir Kristjánssyni. Sterkust tökin á að draga upp skyndimyndir hefur þó Oddur, sem er óborganlegur sem Jónas Svafár, Karl rafvélavirki og skýr Jóhannes Geir, þó það sé ekki skopmynd heldur einfaldlega sannfærandi mannlýsing í fáum dráttum.
Allt hverfist þetta síðan í kringum Birgittu Birgisdóttur í hlutverki Ástu, sem ber sýninguna á herðum sér með umtalsverðum glæsibrag. Það er viss, og pínu óvænt, hófstilling í túlkun og framsetningu persónunnar, sem Birgitta heldur mjög fallega utan um. Vel hefði verið hægt að hugsa sér nærgöngulli, grófari, trylltari lögn. Þess í stað mætti kannski tala um „hetjusögunálgun“ í sýningunni, næstum en ekki alveg dýrlingasmíð. Það vottar ekki fyrir hinni óforskömmuðu glennu sem birtist í kjaftasögunum. Hefði ekki mátt gefa í skyn að það hafi verið einhver fótur fyrir þeim án þess að rugga ímyndarbátnum um um of? 
Þessi hófstilling gerir fyrri hlutann dálítið bragðminni og einfeldningslegri en hann hefði orðið með margræðari túlkun aðalpersónunnar. Á hinn bóginn verður síðari hlutinn, niðurleiðin hroðalega, bæði bærilegri og áhugaverðari en hún hefði orðin með vægðarlausri nálgun. Sem vafalaust hefði hrist meira við tilfinningunum, en verið í stórhættu með að sökkva í fen melódramans. Og staðreyndir málsins um seinni ár Ástu Sigurðardóttur duga alveg til að hreyfa við manni. 
Umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er skemmtilega hráslagaleg, en það er dálítið þröngt um sýninguna í rýminu, innan um þessar tvær hreyfanlegu tröppur og annað sem hún kallar á. Búningar smartir, sérstaklega auðvitað dívuleg og litsterk klæði söguhetjunnar, en þar á Sigurbjörg Stefánsdóttir hlut að máli ásamt Sigríði Sunnu. Tónlistin á ekki minnstan hlut í að skapa tíðarandann, og á það bæði við um gömlu lögin og þau sem Guðmundur Óskar Guðmundsson og Matthildur Hafliðadóttir sömdu við ljóð Ástu í tilefni sýningarinnar, og eru sérlega glæsileg og fallega flutt af vel spilandi bandi og Matthildi sem syngur þau fagurlega. Vonandi lifa þau áfram.
Þótt höfundaverk Ástu Sigurðardóttur sé ekki mikið að vöxtum er engin hætta á að hún falli í gleymsku. Þekktustu smásögurnar verða lesnar, spilin hennar kröftugu lögð á borðið og við munum halda áfram að stara í forundran á ljósmyndir Kaldals þegar við viljum fá augnablikstilfinningu fyrir elegans miðrar tuttugustu aldarinnar. Og við munum halda áfram að undrast og harma þessi dapurlegu örlög sem svo margt í fari hennar sjálfrar, tíðarandanum og grimmri menningunni skapaði henni i sameiningu. Sýning Þjóðleikússins er fagmannleg, vel hugsuð og þörf upprifjun á þessu öllu.