Kópavogskrónika
Eftir Kamillu Einarsdóttur í leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur. Leikstjórn: Silja Hauksdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Tónlist: Auður. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikarar: Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 25. september 2020.
Bersögli í borginni
Harmsögur af útbrunnu karríerfólki af öllum kynjum, buguðum ofurmæðrum og fólki með slétt og öfundsvert yfirborð en kraumandi kvíðann undir. Við þekkjum þær ófáar. Gott ef við erum ekki orðin smá leið á þeim. Um leið og slíkt fólk er kynnt til sögunnar á prenti, sviði, tjaldi eða skjá vitum við (og bíðum spennt eftir) að sprungurnar komi í ljós og eyðileggjandi óreiðan flæði um allt. Eitt af því sem kætti við lestur Kópavogskrónikunnar var hvernig hún sneri þessu þreytta þema á haus: hér höfðum við síbernska og óábyrga unga konu sem hafði ekki minnsta áhuga á að pakka sinni óreiðu inn í einhverjar áferðarfallegar umbúðir. Og ekki nóg með það: þrátt fyrir allt kaosið og ábyrgðarleysið hafði dóttir hennar komist vellukkuð á legg (það er sennilega réttara svona en að segja að hún hafi „komið barninu á legg“).
Þetta er bráðfyndinn texti, og enn betri fyrir þá tilfinningu að á bak við óáreiðanlegan sögumanninn leynist óáreiðanlegur höfundur, sem jafnvel mögulega er að segja sannar sögur. Það er kitlandi tilhugsun, en jafnvel þó maður ýti henni til hliðar eins og sá vel uppaldi lesandi sem maður er þá er Kópavogskrónika stórskemmtileg, óvenjuleg og ögrandi bók.
Óvenjulegur og ögrandi íslenskur texti á bók kveikir kannski alltaf áhuga einhverra í leikhúsheiminum á að kanna hvort þar sé efniviður fyrir sviðið, hér í þessu leikgerðalandi. Að ekki sé talað um þegar hann er léttur og fyndinn í ofanálag. Það sem þennan tiltekna texta skortir á hinn bóginn er dramatískt form eða framvinda, og spennu milli sjálfsmyndar söguhetjunnar og raunveruleikans og atburðanna. Hvorugt tekst leikgerð Ilmar Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur að leggja til eða magna upp. Of lítið og óskýrt ferðalag eða þróun, hvað þá þroski fyrir persónuna í árekstrum hennar við samfélagið og mismóttækilegt samferðafólk. Það sem er nánast útgangspunktur og erindi bókarinnar verður Akkilesarhæll þegar í leikhúsið er komið og fyrir vikið verður sviðsútgáfa Kópavogskróniku frekar flöt.
Alls ekki leiðinleg samt. Til þess er aðalpersónan of fyndin, of yfirgengileg, of sjarmerandi. Brandararnir streyma frá henni í þéttri bunu, sérstaklega framan af, meðan hún er að teikna bæinn sinn fyrir okkur, frá Hamraborg upp í Smiðjuhverfi, og fara yfir helstu kærasta og/eða draumaprinsa. Ilmur bætir sínum umtalsverða sviðssjarma við lúmskan þokka söguhetjunnar eins og hann birtist í orðum hennar og heldur athyglinni fanginni þó lítið sé beinlínis að frétta. Það er á hennar herðum sem hiti og þungi kvöldsins hvílir. Stundum glitti í kviku og sársauka undir töffaragrímunni og hún skapar sannfærandi persónu sem við höldum með þrátt fyrir allt.
Mótleikararnir standa líka fyrir sínu. Þórey Birgisdóttir sennilega eftirminnilegust sem ábyrga mamman á foreldrafundinum. Hljómar alveg ótrúlega leiðinleg, séð með augum aðalpersónunnar sem við erum búin að tileinka okkur þegar þar kemur sögu, þó flest séum við vafalaust (vonandi) á bandi ábyrgu mömmunnar í okkar eigin lífi og Ilmarpersóna hljómi stundum eins og Óttar Guðmundsson að predika yfir sínum síðmiðaldra kór.
Arnmundur Ernst Backman fær feitari aukabita sem hinir aðskiljanlegustu elskhugar og gerir þeim fín skil. Sérstaklega var tölvutónskáldið sérvitra og sérgóða vel formuð og jafnvel frumleg skopfígúra. Verðbréfamiðlarinn öllu venjulegri skíthæll, en eftirminnileg er fínleg nautnin þegar hann tók sér í munn orðin „lögfræðingur hjá Capacent“ til að kynna til sögunnar ósigrandi keppinaut um ástir sínar.
Einföld umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur þótti mér ekki styðja neitt sérstaklega vel við það sem fram fór. Græna grasþústin sem ríkir yfir rýminu nýttist á köflum ágætlega til sviðsetninga á heimilum og skemmtistöðum, sem leikstjórinn Silja leysir að mestu ágætlega, en dálítið klaufalegt að þurfa líka að sækja leikmuni til að skapa sumar aðstæðurnar, og þá ýmist raunsæislega (sjúkrarúm og hitakassi) eða stílfærða (barstólar fyrir bílsæti). Búningar Sigríðar Sunnu voru sannfærandi í sínum natúralisma og lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar þénug. Danstónlistin í sýningunni er viðeigandi sviplaus, og Auðarlagið sem hljómaði meðan áhorfendur ganga út að sýningu lokið var áheyrilegt þó torvelt væri að tengja það við erindi sýningarinnar og ástæðulaust að staldra við eftir hneygingar og fagnaðarlæti.
Í Kópavogskróniku tekst ekki nægilega vel að flytja óvenjulegan og skemmtilegan texta inn í sviðsljósið svo úr verði grípandi og áhrifarík dramatík. Textinn er engu að síður jafn óvenjulegur og skemmtilegur það langt sem hann nær og skemmtir áhorfendum þessa stuttu kvöldstund í prýðilegum flutningi flinkra listamanna. Kamilla er rétt að byrja og er augljóslega hæfileikaríkt ólíkindatól sem engin leið er að spá fyrir um hvað gerir næst.
<< Home