Ég kem alltaf aftur
Ég missti af hinni rómuðu Íslandsheimsókn pólska meistarans Tadeusz Kantor og leikhópsins Cricot 2 á Listahátíð 1990. Eins og títt er um framúrstefnuleg stórvirki hef ég bæði heyrt vitnisburði frá fólki sem varð fyrir nánast trúarlegri upplifun á „Ég kem aldrei aftur“, og séð nokkra leikhúsgesti skopast með tilburðina. Aðallega að leikstjóranum sjálfum, sem er kannski frægastur fyrir að taka sér einatt stöðu á sviðinu með leikhópnum sínum og gefa fyrirskipanir meðan á sýningum stóð. Ekkert liggur eins vel við höggi gárunganna og þegar listamenn leggja á ókönnuð svæði tjáningarinnar og sækja svo langt í dýptina eftir innblæstri að flestum þykir einfaldara að fylgja þeim ekki eftir heldur horfa á þá úr öruggri fjarlægð háðfuglsins.
Pálína Jónsdóttir hefur verið í fyrri hópnum. Áður en sýning hófst á „Ég kem alltaf aftur“ flutti hún nokkur inngangsorð um vinnu hópsins og minningar sínar um sýningu Cricot 2 sem að hennar sögn breytti sýn hennar á hvað leikhús gæti verið, og þar með lífi hennar. Sjálf steig Pálína samt ekki á svið í Iðnó til að hafa áhrif á gang mála, heldur eftirlét það félögum sínum í Reykjavík Ensamble, þeim Adam Świtała, Ewu Marcinek, Jördisi Richter, Magdalenu Tworek, Mao Alheimsdóttur, Karolinu Bogusławska, Robert Zadorozny og Wiolu Ujazdowska.
Sýningin er kölluð verk í vinnslu, og Pálína talaði um níu daga sem hópurinn hafði til umráða í Iðnó áður en áhorfendum var hleypt inn. Þeir hafa verið vel nýttir. Óreiðan í sýningunni stafar ekki af fumi og fáti heldur einmitt af trú á að línuleg rökvísi og vitsmunalegur agi sé, ef ekki til óþurftar, þá allavega óþarfur til að hreyfa við áhorfendum. Það er alveg rétt. Brotakenndar, næstum kúbískar myndir leikhópsins úr veruleika sínum – pólskum og íslenskum, sögulegum og nútímalegum, persónulegum og pólitískum, trúarlegum og hversdagslegum, harmrænum og fyndnum – opnuðu hugmyndaflug áhorfenda og héldu athygli salarins áreynslulaust í þann klukkutíma sem sýningin stóð. Afslöppuð nærvera og alvörublandin glettni hópsins var hárrétt til að draga okkur inn í heiminn og láta okkur í léttu rúmi liggja að skilja ekki allt.
Auðvitað er allt önnur orka í sýningu sem unnin er á þessum hraða í íslenska atinu en í djúpri og langvinnri samvinnu og djúpköfun á borð við þá sem Kantor og aðrir sjáendur og vitringar leikhússins á tuttugustu öld fóru í áður en áhorfendum var hleypt að borðinu. En þannig virkar innblástur á alvöru listamenn eins og Pálinu og hennar fólk: kallar ekki fram eftiröpun heldur hvetur til dáða í eigin leit að möguleikum og viðfangsefnum. Opnar dyr sem enginn veit hvert liggja fyrir en gengið er um þær, eða alla vega kíkt inn.
Hér er arkað af stað af hugrekki og gleði. Það verður gaman að hitta Reykjavík Ensamble á næsta áfangastað. Þau munu koma aftur.
<< Home