föstudagur, nóvember 01, 2019

Mamma klikk!

Eftir Gunnar Helgason í leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur. Leikstjórn: Björk Jakobsdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson. Búningar: Björk Jakobsdóttir. Lýsing: Freyr Vilhjálmsson. Sviðshreyfingar: Björk Jakobsdóttir. Frumsamin tónlist og tónlistarhönnun: Hallur Ingólfsson. Lagatextar: Hallur Ingólfsson, Þorsteinn Valdimarsson og Hjörleifur Hjartarson. Hljóðblöndun: Kristinn Gauti Einarsson. Leikgervi: Björk Jakobsdóttir. Klipping og hönnun á vídeóefni: Björk Jakobsdóttir og Vignir Daði Valtýsson. Leikarar: Gríma Valsdóttir, Valgerður Guðnadóttir, Auðunn Sölvi Hugason, Ásgrímur Gunnarsson, Gunnar Helgason, Þórunn Lárusdóttir, Felix Bergsson, Matthías Davíð Matthíasson, Agla Bríet Einarsdóttir, Vera Stefánsdóttir og Thea Snæfríður Kristjánsdóttir. Frumsýning í Gaflaraleikhúsinu laugardaginn 19. október 2019, sá þriðju sýningu sunnudaginn 27. október 2019.

En samt spes


Árið 1984 gaf Guðrún Helgadóttir okkur orðið „unglingaveiki“. Rúmum þrjátíu árum síðar ákvað annar hafnfirskur höfundur að skoða málið frá hlið unglingsins. Bæði Jón Oddur og Jón Bjarni og Mamma klikk! teljast til ástsælustu barnabóka okkar, sem bendir til að það séu að minnsta kosti tvær hliðar á málunum.

Í bókinni leikur Gunnar Helgason sér með tvær frásagnarbrellur sem forvitnilegt er að skoða hvernig reiðir af í sviðssetningu. Annarri þeirra er reyndar nánast vonlaust að koma til skila: að draga lesandann á því hvað „amar að“ Stellu. Þó að lesandann sem hér skrifar hafi snemma rennt í grun hvernig í pottinn var búið er því ekki slegið föstu fyrr en undir lokin. Það er mjög smekklega unnið með þetta atriði í sýningunni, þó að auðvitað sé engin leið fær önnur en að sýna okkur Stellu í sínum eðlilegu aðstæðum frá fyrstu stund. Það er líka umhugsunarvert að átta sig á því hvað það kemur lítið að sök. Brellan í bókinni var bara það: brella. Það eru persónurnar og sagan sem skiptir máli.

Hin brellan er svolítið annað mál, að sumu leyti kjarni bókarinnar og helsta viðfangsefni: upplifun Stellu, sem er að byrja að hætta að vera barn, af hinni klikkuðu, ofvirku skalasyngjandi óperumömmu. Hvernig það er hin þrettán ára Stella sem hefur breyst, og er að breytast, en ekki mamman. Á sviði, allavega í túlkun þessarar uppfærslu, er alveg morgunljóst að Stella er síst að mikla fyrir sér „ágalla“ mömmu sinnar. En hitt fer heldur ekki á milli mála að hún hefur alltaf verið svona og má alls ekki öðruvísi vera. Og aftur: þetta kemur síður en svo að sök. Leikgerðin er ágætlega unnin, mögulega samt full-upptekin af að halda sem mestu til haga úr bókinni. Eitt sem ekki er vel leyst er hvernig spennan í vinkvennasambandinu vegna svika vinanna við Stellu snemma í verkinu er byggð upp. Það er pínu óreiða á því hvenær allt er fallið í ljúfa löð. Hinu skilar leikgerðin, og sviðsetningin svikalaust: hvað þetta er ógurlega skemmtilegt lið. Og eins og Stella óskar sér í fallega laginu sínu: afskaplega venjulegt – en samt spes.

Kannski aðeins meira spes en venjulegt. Hús-stíll Gaflaraleikhússins einkennist af krafti, gleði, litum og uppstyttulausu fjöri og ættarsvipur Mömmu klikk! er alveg skýr hvað það varðar. Þetta birtist bæði í því hvernig sýningin brunar frá einni stemmingunni í aðra, nostursamlegri vinnu við litla brandara sem síðan er miðlað af algerri sannfæringu af öllum í leikhópnum. Einnig í útlitinu, þar sem litagleði í búningum Bjarkar Jakobsdóttur og hárkollur á mörkum smekkvísinnar gefa tóninn og leikmynd Stígs Steinþórssonar sem býr til feikilegt athafnarými en lumar líka á vel útfærðum leyndarmálum, gott ef ekki heilu tréhúsi. Enginn kvartmílubíll samt. Lýsing Freys Vilhjálmssonar skilar sínu stóra hlutverki með sóma og þó að titillag Halls Ingólfssonar sé ekki ýkja áheyrilegt er hitt frumsamda lagið flott og útfærslan á tónlistinni úr Carmen stórskemmtileg.

Björk hefur úr leikstjórastólnum tekist einstaklega vel að stilla saman leikhópinn, sem er eðli máls samkvæmt á ólíkum aldurs- og listþroskaskeiðum. Hér eru allir að spila í sama liði, frá reynsluboltanum Gunnari Helgasyni sem nýtur sín í hlutverki pabbans og ýmsum smárullum, niður í sjarmatröllið og senuþjófinn Auðun Sölva Hugason sem þreytir með glæsibrag frumraun sína í atvinnuleikhúsi sem Siggi sítróna, hinn tunguhefti bróðir Stellu.

Gríma Valsdóttir skilar aðalhlutverkinu ákaflega vel. Fyrir utan líkamlegar áskoranir hlutverksins er það vandasamt fyrir það hvað Stella þarf að dvelja lengi og oft í hneykslunar- og sjálfsvorkunnarstemmingunni sem öll sagan gengur út á, en Grímu tókst engu að síður að gera Stellu okkur nákomna. Það er síðan engu líkara en titilhlutverkið hafi verið skrifað með Valgerði Guðnadóttur í huga, sem er eins og syngjandi stormsveipur með bros, kraft og trúðsglampa í auga. Ásgrímur Gunnarsson var sannfærandi og fyndinn, bæði í sínu aðalhlutverki sem Palli bróðir, og öðrum. Það sama má segja um bæði Þórunni Lárusdóttur sem ömmu snobb og Felix Bergsson í hlutverki Hanna granna, en bæði taka þau á sig ýmis gervi.

Eitt af því sem leikgerðin nær ekki að skila fyllilega er persónur vinahópsins hennar Stellu. Mögulega vegna þess að í bókinni kynnumst við þeim aðallega í lýsingu hennar á þeim, frekar en þær eigi sér fyllilega sjálfstætt líf í sögunni og það hefur einfaldlega ekki gefist pláss til að dýpka myndina. Engu að síður er ekkert við frammistöðu þeirra Öglu Bríetar Einarsdóttur, Veru Stefánsdóttur, Theu Snæfríðar Kristjánsdóttur og Matthíasar Davíðs Matthíassonar að athuga og sá síðastnefndi náði að fara á kostum í smáhlutverki fermingardrengs í heiftarlegum mútum. Mamma klikk! flytur mikilvægan boðskap um umburðarlyndi og samheldni, um virðingu og vináttu.

Mamma klikk! flytur mikilvægan boðskap um umburðarlyndi og samheldni, um virðingu og vináttu. Það slær heitt hjarta í bókinni og það slær hratt og taktfast í þessari stórskemmtilegu og brosmildu sýningu.