Húh!
Eftir leikhópinn RaTaTam. Leikstjórn: Charlotte Bøving. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hljóðmynd og tónlist: Helgi Svavar Helgason og RaTaTam. Myndbönd: Aron Martin Ásgerðarson. Aðstoðarleikstjóri og dramatúrg: Stefán Ingvar Vigfússon. Leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnúsdóttir. RaTaTam frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 27. september 2019.
x
Sjáðu særða naflann minn
Við erum öll að glíma við sömu grundvallarvesenin, er það ekki? Leitum að hamingju og samastað í tilverunni. Ást og trausti. Að komast til fulls þroska. Að verða „besta útgáfan af sjálfum okkur“ eins og það heitir á alþjóðamáli sjálfshjálpariðnaðarins, en sú hroðalega klisja glymur nokkrum sinnum í sýningu leikhópsins RaTaTam í Borgarleikhúsinu sem þau kalla Húh! Sennilega frekar til að halda áfram með nafnalínuna sniðugu en að efnið beinlínis kalli á þetta heiti. Fyrri sýningar hópsins hétu Suss! og Ahhh… Þetta er góð lína og vel hægt að sjá fyrir sér að þau haldi sig á henni.
Listin að lukkast er til umfjöllunar hjá þeim Albert Halldórssyni, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Guðrúnu Bjarnadóttur, Halldóru Rut Baldursdóttur og Hildi Magnúsdóttur, og leiðtoga hópsins, Charlotte Bøving. Þetta er sameiginlegt keppikefli okkar og því rökrétt að þau sæki einfaldlega í eigin reynslubrunn eftir hráefni til að rannsaka boðhlaupið sem við erum í með keflið. Hvernig við erum samt fyrst og fremst að berjast við okkur sjálf, en náum engu að síður að hrasa, villast og þjófstarta stöðugt, jafnvel þótt enginn sé endilega að bregða fyrir okkur fæti eða afvegaleiða. Stundum samt.
Það eru sem sagt þeirra eigin sögur sem þau miðla og vinna með í þessari sýningu. Það hefur kosti og galla eins og annað. Einn gallinn er auðvitað ekki þeim að kenna: það eru svolítið margir að gera þetta. Frumsköpunarverkefni frjálsra leikhópa eru fleiri og fleiri unnin úr heimafengnum efnivið, hvort sem það er hópvinna eða einstaklingsframtak. Hitt er síðan næstum óhjákvæmilegt: það er ekki sjálfgefið að efniviðurinn sem stendur til boða sé til þess fallinn að bera uppi leiksýningu eða kveikja dramatískan neista. Þessa sjást nokkur merki í Húh! Það er ljótt að segja það, en lífsraunir fimmmenninganna, kulnun og krísur, eru ekki allar „í frásögur færandi“ á þessum vettvangi. Ekki spennandi í sjálfu sér þó að þær geti nýst sem frjór upphafspunktur sköpunar og standi að mörgu leyti fyrir algeng vandræði nútímamannsins; frammistöðukvíða, tengslaleysi, ráðvillu í baráttu við hraða og kröfur nútímalífsins. Og þá komum við að síðustu vandkvæðunum: sýningum sem unnar eru á þennan hátt, og Húh! þar meðtalin, hættir til að stranda í ferlinu. Bræðast ekki fyllilega saman á fullnægjandi listrænan hátt. Eða, sem er næstum algild regla, að það sem á borð er borið virkar eins og sýnishorn af sköpunarvinnunni frekar en tilbúin „afurð“. Eins og innlit í æfingarýmið.
Á móti kemur svo ferskleikinn og fjörið sem einmitt þessi nálgun gefur. Þannig eru sum allra eftirminnilegustu atriðum Húh! þau „æfingalegustu“. Morðfyndin örvæntingararía Alberts yfir hvernig ferillinn hefur þróast. Æðiskast Guðmundar út í sveitina sem ól hann og hann er búinn að lofsyngja alla sýninguna. Hildur að gera upp málin við ástina og traustið með hjálp trompetsins. Halldóra að rifja upp skelfilegar bernskuminningar gegnum hækkandi svamphaug. Guðrún í górillubúningnum og særður ásökunarsvipurinn á henni þegar hún líkir sér við Neanderdalsmann og minnir okkur á að við útrýmdum þessum frændum hennar. Og okkar. Næstum.
En sem heild nær sýningin ekki alveg vopnum sínum. Hlutirnir mynda ekki jafn sterka og sláandi heild og áhorfandanum finnst að standi til að bjóða honum. Að hluta til liggur þetta í eðli formsins; sundurleysi og sundurgerð er dagskipunin. En kannski er skýringanna líka að leita í óstöðugri blöndu gamans og alvöru. Sýningin er á köflum alveg bráðfyndin, og það er ljóst að fjör og fyndni er í aðalhlutverki í efnistökunum. Hér er þungur efniviður skoðaður á grínaktugan hátt en gert um leið ráð fyrir tilfinningalegri og vitsmunalegri svörun áhorfenda. Þetta heppnast oft og gerir það á mörgum köflum í Húh! En ef sýningin er skoðuð í heild verður samruni gleði og harms ekki alveg sannfærandi.
Eitt sem samsköpun úr eigin reynslu gefur flytjendunum er færi á að blómstra á eðlilegan hátt á sviðinu. Þau eru jú mætt til leiks eins og þau eru klædd. Það heppnast fullkomlega hér. Öll með sinn ríkulega skammt af sviðssjarma og áreynsluleysi sem vafalaust hefur þurft að vinna fyrir, svo nákomið sem efnið er þeim. Nokkuð sem Charlotte er örugglega kjörin til að gera. Við erum til í þetta með þeim. Umgjörð, og þó sérstaklega búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur, styðja vel við þau. Samtíningsbragurinn á fatnaðinum virkar ekki eins og ódýr lausn fátæka leikhússins, sem hann vafalaust er öðrum þræði, heldur rökrétt leið. Aðrir umgjarðarþættir; lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar, myndband Arons Martins Ásgerðarsonar og hljóðmynd Helga Svavars Helgasonar sömuleiðis. Tónlistarflutningur leikhópsins bætir stórri vídd í sýninguna. Lokalagið var flott.
Sumt af efninu í Húh! er bitastæðara en annað. Óvenjulegustu sögurnar og vinklarnir hefðu næstum getað borið uppi heila sýningu, eða allavega dugað sem fræ að fullbúinni og mun heildstæðari kvöldstund. Ég get nefnt samband manns og sveitar sem dæmi. En að sumu leyti eru það hversdagslegustu raunirnar, minnst leikvænu efnisþættirnir, sem eru kjarni erindisins. Hvernig lífið er að leika okkur öll. En á móti kemur að þær eru ekki bitastæðar eins og þær óvenjulegu. Það er vandratað í þessum kima leiklistarinnar og sýningin ber þess merki, þó vel megi njóta samvistanna við þau Albert, Guðmund, Guðrúnu, Halldóru og Hildi, og þekkjast boðið um að hlæja að óförum þeirra.
<< Home