Ég dey
Höfundur og leikari: Charlotte Bøving. Þýðandi: Erla Elíasdóttir Völudóttir. Með-leikstjóri: Benedikt Erlingsson. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Gísi Galdur. Myndband og grafísk hönnun: Steinar Júlíusson. Lýsing: Garðar Borgþórsson. Sviðshreyfingar: Unnur Elísabet Sturludóttir. Charlotte Bøving / Fyrirtækið slf. frumsýndi á Nýja sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 10. janúar 2019.
Þið munuð öll …
Hvílir bannhelgi á dauðanum sem umræðuefni? Því er gjarnan haldið fram, en ég held að svo sé alls ekki. Ég hallast að því að það sé frekar þannig að tal um þöggun, veigrun og ótta við umræðuna sé hentugur upphafspunktur fyrir umræðu um þennan sjálfsagða hlut, náttúrulögmál sem allir hafa persónulega reynslu af og meðvitund um, og eru fúsir að ræða. Og reynast, þegar umræðan hefst, hafa keimlíkt viðhorf til. Einhverja útgáfu af æðruleysi, sem tekur síðan lit af þeim tilfinningum sem við berum til umhverfis okkar í víðasta skilningi. Til okkar nánustu, til okkar sjálfs og hvernig við höfum varið þeim tíma sem við vitum öll að er takmarkaður. Þegar upp er staðið tölum við ekki um dauðann, heldur í mesta lagi um afstöðu okkar, sem lifandi verur, til þessarar staðreyndar um okkur. Aðallega tölum við samt um lífið.
Það reynist líka eiga við um Ég dey, rannsóknarskýrslu Charlotte Bøving um margvíslegar staðreyndir, menningu okkar og annarra, eigin afstöðu og annarra, þegar kemur að dauðanum. Hún byrjar reyndar á bráðskemmtilegri yfirferð um hvað gerist á fyrstu klukkustundunum eftir andlát, en annars höldum við okkur hérna megin grafar. Ef mig misminnir ekki þeim mun verr þá víkur Charlotte aðeins á einum stað að því hvað sé handan blæjunnar. Það er reyndar í einum af hápunktum sýningarinnar, ákaflega kaldhamraðri vögguvísu þar sem barn fær hlutlægar upplýsingar um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir mömmu, pabba og það sjálft. „Við deyjum öll en enginn kann að spá / Hvenær eða hvað við tekur þá“. Svo mörg voru þau orð. Við vitum ekki hvað gerist etir dauðann. Þannig afgreiðir nútímakonan helsta sölupunkt langflestra trúarbragða heimsins og heldur áfram að skoða dauðann í lífi okkar allra.
Þar reynist fáránleikinn í hversdagsleikanum bitastæðastur. Upptalningin á hverjir mega deyja (kjúklingar, minkar), hverjir ekki (höfrungar, kisur) og í hvaða röð (maður sjálfur á undan börnunum og svo koll af kolli). Útlistun og smásmyglisleg upptalning á öllum tjáknunum sem hún sendi dauðvona vinkonu sinni á samfélagsmiðlum þegar orðin dugðu ekki til. Bónusferð þar sem líkamsleifar dýra og plantna eru skoðaðar og metnar. Þar kom til sögunnar hljóðlykkjuvél sem bjó til skemmtilegan bakgrunn og Charlotte beitti af talsverðu öryggi og ætti jafnvel að þróa áfram í list sinni. Loop-tæknin var eitt af fimm uppátækjum sem leikkkonan var að prófa í fyrsta sinn. Þessar nýjungar eru eitt af byggingarefnum sýningarinnar, en varð kannski ekki eins mikið úr og æskilegt hefði verið. Annað af atriðunum fimm var að prófa að hafa hlé að þessu sinni, ólíkt fyrri einleikssýningum Charlotte. Það er að mínu mati misráðið. Þéttari skipan efnisins án uppbrots hefði verið betri kostur. Ég dey líður dálítið fyrir ómarkvissa byggingu, þar sem hver kafli þarf að standa fyrir sínu burtséð frá því sem kemur á undan eða eftir. Sumir þeirra gera það en ekki allir.
Þarna hefði leikarinn Charlotte þurft betri stuðning frá höfundinum Charlotte, sem og frá með-leikstjóranum Benedikt Erlingssyni, við að búa til skýrara flæði og missa ekki orkuna niður milli efnisatriða. Hún hefur umtalsverðan sviðssjarma og ræður yfir tímasetningatækni uppistandarans og aðferðum trúðsins við að ná sambandi við salinn og vinna hann á sinn band með einlægni og brosi, sérstaklega ef eitthvað fer ekki nákvæmlega eins og ætlað er. Á frumsýningu hnaut Charlotte um beygingu orðs strax í byrjun og með því að draga athyglina að því vorum við öll orðin vinir hennar. Tilbúin að trúa því sem hún segir og leggja allt út á besta veg. Vera með henni í liði.
Viðureign Charlotte við íslenskuna setur vitaskuld sterkan svip á Ég dey. Óhjákvæmilega dregur það úr möguleikum hennar til að láta blæbrigði máls og merkingar vinna með sér að hún hefur ekki fullt vald á málinu. Fyrir utan algerlega hversdagslega hluti eins og skilning áhorfenda á því sem sagt er og hraðatakmarkanirnar sem felast í getustiginu. En það er í eðli leikhúss af þessu tagi að í veikleikum felast styrkleikar. Framandgervingin í glímunni við málið fær okkur til að sperra eyrun og íhuga. Kallar fram óvæntar tengingar og hugsanir. Þegar best lætur beinir hún athyglinu að innihaldinu og nýjum flötum á því.
Umgjörðin er einföld og svipsterk hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Búningarnir voru flottir, sérstaklega anatómíski kjóllinn í upphafi. Notkun á myndböndum og grafík Steinars Júlíussonar var hugvitsamleg og skemmtileg og samleikur Charlotte við þá umhverfisþætti vel útfærður. Á hinn bóginn örlaði á því að leikkonan upplifði sig ekki fyllilega örugga í glæsilegum stiganum sem gnæfir yfir sviðsmyndinni. Leikskráin er sérlega snjöll, þó eftir á að hyggja sé hugmyndin augljós, eins og títt er um góðar hugmyndir.
Ég dey er skemmtileg kvöldstund í góðum félagsskap. Charlotte Bøving hefur góða nærveru og hefur aðferðir einleiksins vel á valdi sínu. Innihaldið varðar okkur öll og þó efnistökin varpi ekki endilega nýju eða djörfu ljósi á það þá er gaman að rifja upp furðurnar í hversdaginum og minna sig á að stærsti leyndardómurinn er öllum kunnur og við eigum hann öll í sameiningu.
Þið munuð öll …
Hvílir bannhelgi á dauðanum sem umræðuefni? Því er gjarnan haldið fram, en ég held að svo sé alls ekki. Ég hallast að því að það sé frekar þannig að tal um þöggun, veigrun og ótta við umræðuna sé hentugur upphafspunktur fyrir umræðu um þennan sjálfsagða hlut, náttúrulögmál sem allir hafa persónulega reynslu af og meðvitund um, og eru fúsir að ræða. Og reynast, þegar umræðan hefst, hafa keimlíkt viðhorf til. Einhverja útgáfu af æðruleysi, sem tekur síðan lit af þeim tilfinningum sem við berum til umhverfis okkar í víðasta skilningi. Til okkar nánustu, til okkar sjálfs og hvernig við höfum varið þeim tíma sem við vitum öll að er takmarkaður. Þegar upp er staðið tölum við ekki um dauðann, heldur í mesta lagi um afstöðu okkar, sem lifandi verur, til þessarar staðreyndar um okkur. Aðallega tölum við samt um lífið.
Það reynist líka eiga við um Ég dey, rannsóknarskýrslu Charlotte Bøving um margvíslegar staðreyndir, menningu okkar og annarra, eigin afstöðu og annarra, þegar kemur að dauðanum. Hún byrjar reyndar á bráðskemmtilegri yfirferð um hvað gerist á fyrstu klukkustundunum eftir andlát, en annars höldum við okkur hérna megin grafar. Ef mig misminnir ekki þeim mun verr þá víkur Charlotte aðeins á einum stað að því hvað sé handan blæjunnar. Það er reyndar í einum af hápunktum sýningarinnar, ákaflega kaldhamraðri vögguvísu þar sem barn fær hlutlægar upplýsingar um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir mömmu, pabba og það sjálft. „Við deyjum öll en enginn kann að spá / Hvenær eða hvað við tekur þá“. Svo mörg voru þau orð. Við vitum ekki hvað gerist etir dauðann. Þannig afgreiðir nútímakonan helsta sölupunkt langflestra trúarbragða heimsins og heldur áfram að skoða dauðann í lífi okkar allra.
Þar reynist fáránleikinn í hversdagsleikanum bitastæðastur. Upptalningin á hverjir mega deyja (kjúklingar, minkar), hverjir ekki (höfrungar, kisur) og í hvaða röð (maður sjálfur á undan börnunum og svo koll af kolli). Útlistun og smásmyglisleg upptalning á öllum tjáknunum sem hún sendi dauðvona vinkonu sinni á samfélagsmiðlum þegar orðin dugðu ekki til. Bónusferð þar sem líkamsleifar dýra og plantna eru skoðaðar og metnar. Þar kom til sögunnar hljóðlykkjuvél sem bjó til skemmtilegan bakgrunn og Charlotte beitti af talsverðu öryggi og ætti jafnvel að þróa áfram í list sinni. Loop-tæknin var eitt af fimm uppátækjum sem leikkkonan var að prófa í fyrsta sinn. Þessar nýjungar eru eitt af byggingarefnum sýningarinnar, en varð kannski ekki eins mikið úr og æskilegt hefði verið. Annað af atriðunum fimm var að prófa að hafa hlé að þessu sinni, ólíkt fyrri einleikssýningum Charlotte. Það er að mínu mati misráðið. Þéttari skipan efnisins án uppbrots hefði verið betri kostur. Ég dey líður dálítið fyrir ómarkvissa byggingu, þar sem hver kafli þarf að standa fyrir sínu burtséð frá því sem kemur á undan eða eftir. Sumir þeirra gera það en ekki allir.
Þarna hefði leikarinn Charlotte þurft betri stuðning frá höfundinum Charlotte, sem og frá með-leikstjóranum Benedikt Erlingssyni, við að búa til skýrara flæði og missa ekki orkuna niður milli efnisatriða. Hún hefur umtalsverðan sviðssjarma og ræður yfir tímasetningatækni uppistandarans og aðferðum trúðsins við að ná sambandi við salinn og vinna hann á sinn band með einlægni og brosi, sérstaklega ef eitthvað fer ekki nákvæmlega eins og ætlað er. Á frumsýningu hnaut Charlotte um beygingu orðs strax í byrjun og með því að draga athyglina að því vorum við öll orðin vinir hennar. Tilbúin að trúa því sem hún segir og leggja allt út á besta veg. Vera með henni í liði.
Viðureign Charlotte við íslenskuna setur vitaskuld sterkan svip á Ég dey. Óhjákvæmilega dregur það úr möguleikum hennar til að láta blæbrigði máls og merkingar vinna með sér að hún hefur ekki fullt vald á málinu. Fyrir utan algerlega hversdagslega hluti eins og skilning áhorfenda á því sem sagt er og hraðatakmarkanirnar sem felast í getustiginu. En það er í eðli leikhúss af þessu tagi að í veikleikum felast styrkleikar. Framandgervingin í glímunni við málið fær okkur til að sperra eyrun og íhuga. Kallar fram óvæntar tengingar og hugsanir. Þegar best lætur beinir hún athyglinu að innihaldinu og nýjum flötum á því.
Umgjörðin er einföld og svipsterk hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Búningarnir voru flottir, sérstaklega anatómíski kjóllinn í upphafi. Notkun á myndböndum og grafík Steinars Júlíussonar var hugvitsamleg og skemmtileg og samleikur Charlotte við þá umhverfisþætti vel útfærður. Á hinn bóginn örlaði á því að leikkonan upplifði sig ekki fyllilega örugga í glæsilegum stiganum sem gnæfir yfir sviðsmyndinni. Leikskráin er sérlega snjöll, þó eftir á að hyggja sé hugmyndin augljós, eins og títt er um góðar hugmyndir.
Ég dey er skemmtileg kvöldstund í góðum félagsskap. Charlotte Bøving hefur góða nærveru og hefur aðferðir einleiksins vel á valdi sínu. Innihaldið varðar okkur öll og þó efnistökin varpi ekki endilega nýju eða djörfu ljósi á það þá er gaman að rifja upp furðurnar í hversdaginum og minna sig á að stærsti leyndardómurinn er öllum kunnur og við eigum hann öll í sameiningu.
<< Home