þriðjudagur, maí 15, 2018

Aðfaranótt

Eftir Kristján Þórð Hrafnsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson.
Eftir Kristján Þórð Hrafnsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar: Útskriftarnemendurnir Árni Beinteinn Árnason, Ebba Katrín Finnsdóttir, Elísabet Skagfjörð Guðrúnardóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Hákon Jóhannesson, Hlynur Þorsteinsson, Júlí Heiðar Halldórsson og Þórey Birgisdóttir. Gestaleikari frá Þjóðleikhúsinu: Sigurður Þór Óskarsson. Lokaverkefni leikarabrautar sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Frumsýning í Kassanum föstudaginn 11. maí 2018.

Út í kvöld


Formkröfur leikrita og forsendur nemendaleikhúss fara ekki frábærlega saman. Gangverk hefðbundinna leikverka virkar alla jafnan best þegar örlög einnar, eða í mesta lagi þriggja persóna eru í forgrunni, og aðkoma annarra ræðst af gagnsemi þeirra til að segja þá sögu og gefa henni safa og líf. Á hinn bóginn er það verkefni leikskálds sem skrifar fyrir útskriftarhóp leikarabrautar LHÍ að gefa öllum verðug verkefni, því sem næst jafngild að umfangi og erindi þar sem öll eru leidd til lykta á jafnræðisgrundvelli. Fyrir utan að persónurnar mega gjarnan vera á sama aldri. Það er ekki tilviljun að það verk sem mér virðist einna lífvænlegast af þeim sem ég hef séð frumsamin af slíku tilefni er Maríusögur, sem Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði fyrir ‘95 árganginn, en þau voru einungis fimm. Það munar ansi mikið um þessa þrjá sem bætast við í meðalári.

Það sem þessar takmarkanir gefa á móti færi á er að lýsa einhverskonar ástandi, einhverjum samnefnara, tíðaranda, menningu. Kjartan Ragnarsson leysti það mjög skemmtilega árið 1981 í Peysufatadegi sínum og skapaði eftirminnilega mynd af Íslandi í aðdraganda heimsstyrjaldar. Í Aðfaranótt hellir Kristján Þórður Hrafnsson sér í reykvíska djammið og opnar nokkurskonar sýnisbók áskorana og þrauta sem ungt fólk þarf að glíma við í leit sinni að fótfestu í lífinu og færni í að lifa í samfélagi við aðra, sátt í eigin skinni. Hann gleymir heldur ekki að jafnvel fólk á byrjunarreit á sér fortíð, sem bankar ekki síst upp á þegar hömlurnar leysast upp í alkóhóli og danssvita.

Eins sérkennilega og það hljómar þá gefur hin ágæta sonnettubók Kristjáns, Jóhann vill öllum í húsinu vel, vísbendingar um hvernig hann gæti nálgast svona verkefni, og leyst það smekklega. Mörg ljóðin þar eru byggð upp af hliðskipuðum smámyndum, ein til tvær línur helgaðar persónu og bjástri hennar, sem fær síðan dýpri merkingu í samspili við næstu sjálfstæðu mynd. Byggingarlag Aðfaranætur er ekki óskylt. Ungt fólk á bar, sumt komið til að halda upp á afmæli eins í hópnum, önnur í öðrum erindagjörðum.

Hvert þeirra er mætt með sinn djöful að draga. Frjálshyggjuspaðinn (Júlí Heiðar Halldórsson) sem breiðir hroka yfir óöryggi sitt, sem brýst líka út í afbrýðisemi. Kærastan hans (Ebba Katrín Finnsdóttir) sömuleiðis með harða framhlið af sjálfsánægju og það má líka segja um náungann (Árni Beinteinn Árnason) sem eitt sinn var bekkjarforinginn og finnst hann enn eiga tilkall til gegnheilu grunnskólakærustunnar (Þórey Birgisdóttir), þrátt fyrir að hún sé sæl með sínum hæfileikaríka en viðkvæma kærasta (Hákon Jóhannesson). Útsmogin frænka frjálshyggjuspaðans (Eygló Hilmarsdóttir) nær að draga vinkonu sína (Elísabet Skagfjörð Guðrúnardóttir) út á lífið með fölskum upplýsingum, en Reykjavík er smábær og fyrrverandi sambýlismaður systur hennar (Sigurður Þór Óskarsson í gestaleik hjá útskriftarbekknum) afgreiðir á barnum og á sitthvað vantalað við sína fyrrverandi fjölskyldu. Í kringum gleðskapinn sveimar svo samanbitið eineltisfórnarlamb í hefndarhug (Hlynur Þorsteinsson).

Við vitum frá upphafi að þetta mun enda með skelfingu. Það er síðan áréttað jafnt og þétt í stuttum eintölum – algengt formbragð í „jafnræðisleikritum“ á borð við Aðfaranótt. Nákvæmlega hvernig það gerist kemur á endanum á óvart, ýmsir möguleikar eru lengst af opnir um hver muni liggja í valnum og fyrir hendi hvers. Niðurstaðan er kannski ekki fyllilega fullnægjandi, en einnig það gerir verkið trúverðugra, meira eins og dæmigert djammkvöld sem lýtur ekki lögmálum um dramatíska nauðsyn. Annars eru samtöl lipur og gangverk leikritsins skýrt, þó fátt sé um óvæntar vendingar eða kitlandi spennu. Á stundum mætti Kristján líka ganga örlítið nær persónum sínum, vera grimmari í að afhjúpa þær, eða láta þær koma betur upp um sig í samtölunum. Það leynast held ég í upplegginu ónýttir möguleikar á bæði fyndni og dýpt, auk þess sem spennustigið lækkar upp úr miðbiki verksins. En svo nær það sér á strik og grípur áhorfandann aftur áður en yfir lýkur.

Uppsetningin ber sterk höfundareinkenni Unu Þorleifsdóttur. Skýrleiki er hennar aðalsmerki og sem sviðsetjari fótar hún sig sem leikstjóri best á næstum auðu sviði. Þó verkið sé nánast allt byggt upp af tveggja til þriggja manna samræðum gengur mjög lipurlega upp að nýta aðra í hópnum sem lifandi leikmynd meðan þær samræður fara fram. Auk þess byggir þetta á raunsæisgrunni; er þetta ekki einmitt svona á djamminu – allir saman en þó einir í þvögunni?

Leikmynd Rebekku A. Ingimundardóttur samanstendur af níu málmklappstólum og þremur hreyfanlegum málmbekkjum. Einn fær strax hlutverk bars en hinir verða nokkuð utanveltu. Að öðru leyti sér leikhópurinn um að mynda umgjörðina, með hjálp vídeókameru sem varpar nærmyndum af höndum, hári og öðrum líkamshlutum á bakvegg: nútímaleikhúslausn sem er á góðri leið með að verða klisja eða klassík, eftir því með hvaða gleraugum er horft. Búningar Rebekku eru mikið augnayndi og hugkvæmir mjög, byggðir á endurunnum galla- og jakkafötum og myndu sóma sér á tískufataslám í raunveruleikanum, að svo miklu leyti sem ég er dómbær á slíkt. Samspil búninganna og lýsingar Jóhanns Friðriks Ágústsonar er verulega áhrifaríkt, sérstaklega þegar honum tekst að gera leikhópinn nánast svarthvítan á ögurstundu. Tónlist Gísla Galdurs er fullkomlega viðeigandi og fyrir vikið hæfilega óþolandi fyrir allsgáðan sitjandi (miðaldra) áhorfanda.

Það er alveg hægt að leyfa sér að sakna aðeins sterkari drátta, jafnvel meiri áhættu, meiri ýkja, í karaktersmíðinni, bæði í textanum og túlkuninni. Á móti einkennist sýningin af áhrifaríkum skýrleika og heildarsvip á framgöngu leikhópsins. Aftur höfundareinkenni Unu, auk áhrifanna af áralangri náinni samvinnu leikaranna flestra. Sem viðfangsefni fyrir einmitt þennan hóp í því samhengi sem hann er, er Aðfaranótt ágætlega heppnað og unnið verk. Það er góður siður að fara ekki djúpt í saumana á frammistöðu einstakra leikenda í nemendasýningum. Hér nægir alveg að segja að allir komast vel frá sínu og óska þessum unga og flotta hópi til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

x