Hafið
Eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjórn: Sigurður Sigurjónsson. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Myndband: Ingi Bekk. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson. Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og fleiri. Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Baltasar Breki Samper, Birgitta Birgisdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Oddur Júlíusson, Snorri Engilbertsson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins þriðjudaginn 26. desember 2017.
Hið sérkennilega óréttlæti sem íslenska kvótaframsalskerfið leysti úr læðingi liggur mjög vel við höggi fyrir rannsóknaraðferðir raunsæisleikhússins. Helstu dauðasyndir leika lausum hala þegar óverðskuldaðir milljarðar eru innan seilingar, og ekkert virðist standa í vegi fyrir græðginni annað en rómantískar hugmyndir um lífshætti í útrýmingarhættu. Skemmtilega kaldhæðnislegt líka að fulltrúar þessarar rómantíkur í verki Ólafs Hauks eru einmitt kaldhömruðustu harðjaxlarnir. Þegar allt er um garð gengið fær Kata gamla, sem fram að því hefur verið einna minnst glámskyggn í galleríi Ólafs, að bera fram hina fráleitu ósk að Bergur sjóhetja geti „byrjað með tvær hendur tómar“ líkt og Þórður forðum. Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur. Það sem er dautt er dautt, eins og Kata boðar í upphafi verks, og er viðkvæði hennar og leiðarstef verksins.
Þó Ólafur gangi í smiðju Ibsens, Shaws og Tsjékofs varðandi aðferð og form eru hans sérstöku höfundareinkenni áberandi, næstum allsráðandi. Þau eru líka stærsti styrkur verksins. „Skemmtilega kaldhæðnislegt“ er ekki verri lýsing á stílsmáta Ólafs en hver önnur. Langflestar persónanna í Hafinu falla í það mót sem við sjáum dæmi um í langflestum hinna fjölmörgu leikrita og sagna sem frá Ólafi hafa komið á löngum og starfsömum ferli: hrjúfar og harðar hið ytra, ólgandi kvika undir. Einhversstaðar leynist sárið sem kvikan sækir hitann í. Allt er þetta fólk orðheppið og fundvíst á hnyttnar spælingar og hittið eins og Amazon-indjánar með eitraðar örvar sínar. Þannig er í það minnsta fjölskylda Þórðar, sem hefur safnast saman næstsíðasta dag ársins, að beiðni ættföðurins, sem grunar að endalokin nálgist og vill að hans eigin dauði verði ekki líka endalok lífsmátans – og þorpsins. Það er hans rómantík. Þórður hefur rekið bæði fyrirtæki og heimili með harðri hendi. Allt verður þetta frá honum tekið, og kemur vafalaust engum á óvart. Það sem er dautt er dautt.
Einlínur og orðahnippingar fjölskyldunnar vekja enn hlátur í sal þegar þær eru lipurlega fluttar. Ekki síst þar sem myrkari hliðum sjávarþorpslífsins er lýst. Hér glansa Sólveig Arnarsdóttir og Oddur Júlíusson sem hafa mest af skotfærunum frá Ólafi í hlutverkum helstu afætanna, brottfluttu systkinanna Ragnheiðar og Gústa. Að ógleymdri Guðrúnu S. Gísladóttur, sem leikur nú hverja skrítnu kellinguna á fætur annarri með miklum sóma og gerði Kötu ágæt skil.
Það er mikill safi í þessum texta, feitir bitar fyrir flinka leikara. En þrátt fyrir þessa skemmtan og mikilsvert erindi náði Hafið þegar á heildina er litið samt ekki nægilegum tökum á þessum áhorfanda að þessu sinni.
Skýringanna er víða að leita. Eitt er nú að samþætting og gagnvirk áhrif samfélagsástands og fjölskylduaðstæðna eru ekki sérstaklega skýr. Fyrir vikið verður „fléttan“ heldur fyrirsjáanleg og framvindan hæg. Úr því þarna eru á annað borð stór leyndarmál þá er ófullnægjandi hversu vannærð þau verða, og snertipunktalaus við gang mála. Þetta bitnar ekki síst á Snæfríði Ingvarsdóttur í hlutverki Maríu. Harmur stjúpdótturinnar, sem einn og sér dygði í mjög hressilegt heils kvölds melódrama, fjarar ófullnægjandi út í verkinu. Það slær mig líka eins og vannýtt tækifæri hvað afstaða allra barnanna til föður síns, fjölskylduauðsins og þess hvað ber að gera er áþekk. Þessi einsleitni verður enn meira áberandi þegar búið er að fækka í systkinahópnum, en þrjár persónur eru horfnar úr verkinu frá fyrri gerð. Tæknilega séð er þessi niðurskurður þó til bóta og vel útfærður, og fyrir þá sem eru vel kunnugir verkinu frá fyrri tíð er forvitnilegt í sjálfu sér að sjá hvernig persónueinkennum hinna útstrikuðu systkina er deilt meðal þeirra sem eftir standa.
Sigurði Sigurjónssyni hefur ekki auðnast að vinna nægilega úr þessum ágöllum. Kannski vegur þar þyngst hvernig afstaða afkvæmanna gagnvart föður sínum er ekki bara einsleit, heldur líka án votts af ótta eða virðingu frá upphafi, og þróast hvorki né breytist að ráði þessa örlagaríku sólarhringa. Þarna hefði þurft að leggjast í mjög nákvæma vinnu með valdastöðu, ekki síst þar sem Þröstur Leó Gunnarsson, jafnmikið afbragð leikara sem hann annars er, er ekki beinlínis á heimavelli við túlkun hrúðurkarla á borð við Þórð. Á samleik Þrastar og allra í kringum hann hvílir spenna sýningarinnar, líkt og ástandið á heimilinu ræðst af stöðu loftvogarinnar. Það hefur ekki tekist nægjanlega vel að teikna upp þetta spennuvirki, svo það skili sér út í sal.
Sérstaklega var furðulegt að sjá eiginmann dótturinnar snerta Þórð kæruleysislega, jafnvel dangla hugsunarlaust í hann með flugeldapoka, án þess að það vekti nein viðbrögð eða hefði eftirmál. Þar fyrir utan kom það í hlut Snorra Engilbertssonar í þessu hlutverki að bjóða upp á áhugaverðustu persónutúlkun kvöldsins. Í meðförum hans verður Guðmundur kostulegur, næstum tsjékovskur, einfeldningur – opið hjarta innan um skeldýrin. Hinn makinn, hin lífsleiða eiginkona Hermanns Þórðarsonar forstjóra, var greinilega auðleyst fyrir Birgittu Birgisdóttur, sem þarf að fara að fá bitastæðari verkefni en lítilsigldu bytturnar og tálkvendin sem hún hefur verið að brillera í undanfarið.
Nostursamleg statusvinna hefði líka auðveldað okkur að skynja betur þrjár ólíkar afstöður til mála. Í fyrsta lagi höfum við „afæturnar að sunnan“, Ragnheiði og Gústa. Þá er það Hermann, skyldurækni heimóttarbróðirinn, sem Baldur Trausti Hreinsson gerir sannfærandi skil en hefði mátt sleppa að gera alveg svona kallalegan. Og svo aflaklóin Bergur. Sjóarinn var kraftmikill hjá Baltasar Breka Samper, hann tók sitt skipstjórapláss í sínum tveimur innkomum, en mig vantaði svolítið slorkeiminn af honum, tilfinningu fyrir að hann væri þrátt fyrir allt ekki á heimavelli í landi, í þessari stofu. Og aftur: skýrari aðgreiningu frá uppeldissystkinum hans. Afstöðu. Það hefði líka þurft að hjálpa Elvu Ósk Ólafsdóttur að vera talsvert minna sjálfbjarga og veraldarvön sem Kristín, svo einhver leið væri að trúa því að Hermann gæti vafið henni um fingur sér með undirskriftir fyrir aftan bak sambýlismannsins. Sem reyndar var erfitt að trúa að ætti nokkurt einasta erindi í þjónustuíbúð fyrir sunnan, hvað þá hún, kona í blóma lífsins.
Opnar leikmyndir sem nýta kosti hringsviðsins eru mjög í tísku í Þjóðleikhúsinu þessi árin. Við minnumst Djöflaeyjunnar, Horft frá brúnni, Hússins og Óvinar fólksins. Finnur Arnar Arnarson fer skylda leið hér, okkur býðst að horfa inn í útgerðarmannshöllina frá öllum hliðum. Þetta eru ekki íburðarmikil húsakynni ef undan er skilinn flygillinn sem Þórður getur rétt svo spilað á. Samtal Maríu og Gústa á dyratröppunum seint í verkinu, sem og fundur Þórðar og Kristínar við útigrillið græddu heilmikið á að losna út úr stofunni, en það er mín tilfinning að hér hafi leynst fleiri tækifæri til að brjóta upp stífa þáttaskiptingu verksins, ibsenska „stofuleikhúsformið“ og umferð fólksins um rýmið. Ólafur Ágúst Stefánsson lýsir heimilið með prýði og öldugangurinn í myndbandsverkum Inga Bekk eykur á stemminguna. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur styðja persónurnar ágætlega.
Það hefur verið óeðlilegt ástand í húsi útgerðarmannsins þegar börnin voru að alast upp, og þannig er það enn. Vafalaust hefur honum þótt það nauðsynlegt til að hafa aga og skapa sér svigrúm til að lifa í sátt við eðli sitt. Hvað svo sem segja má um nauðsyn og gagnsemi kvótakerfisins til að skapa útveginum svigrúm þá hefur það skapað óeðlilegt ástand í bæjum þar sem lífið er fiskur. Hafið er metnaðarfull og kröftug tilraun til athugunar leikhússins á þessari stöðu og hvert hún leiðir, bæði sálir og samfélag. Til þess er leikhúsið. Að þessu sinni vantar eitthvað upp á að kvikni í tundrinu, þótt hér og hvar leiftri snjallar lýsingar og glampi á beitt tilsvör þetta gamlárskvöld.
Kyrrlátt kvöld við fjörðinn
Það reyna fæstir lengur að taka mannlífið þeim tökum sem Ólafur Haukur Símonarson gerir í Hafinu, sem birtist svo eftirminnilega á Stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir tuttugu og fimm árum og snýr aftur nú, eins og krakkaskammirnar hans Þórðar útgerðarjaxls. Formgerð og aðferð raunsæislegs „stofudrama“ að hætti næstsíðustu aldamóta er ekki lengur útgangspunktur sviðshöfunda, og hætt við að það sérhæfða handverk sé á leiðinni á Árbæjarsöfn vestræns leikhúss. Sem er synd, því þegar best tekst til eru fáar leiðir skilvirkari til að skoða samfélag og sálarlíf, en þó einkum og sér í lagi samspil þessa.Hið sérkennilega óréttlæti sem íslenska kvótaframsalskerfið leysti úr læðingi liggur mjög vel við höggi fyrir rannsóknaraðferðir raunsæisleikhússins. Helstu dauðasyndir leika lausum hala þegar óverðskuldaðir milljarðar eru innan seilingar, og ekkert virðist standa í vegi fyrir græðginni annað en rómantískar hugmyndir um lífshætti í útrýmingarhættu. Skemmtilega kaldhæðnislegt líka að fulltrúar þessarar rómantíkur í verki Ólafs Hauks eru einmitt kaldhömruðustu harðjaxlarnir. Þegar allt er um garð gengið fær Kata gamla, sem fram að því hefur verið einna minnst glámskyggn í galleríi Ólafs, að bera fram hina fráleitu ósk að Bergur sjóhetja geti „byrjað með tvær hendur tómar“ líkt og Þórður forðum. Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur. Það sem er dautt er dautt, eins og Kata boðar í upphafi verks, og er viðkvæði hennar og leiðarstef verksins.
Þó Ólafur gangi í smiðju Ibsens, Shaws og Tsjékofs varðandi aðferð og form eru hans sérstöku höfundareinkenni áberandi, næstum allsráðandi. Þau eru líka stærsti styrkur verksins. „Skemmtilega kaldhæðnislegt“ er ekki verri lýsing á stílsmáta Ólafs en hver önnur. Langflestar persónanna í Hafinu falla í það mót sem við sjáum dæmi um í langflestum hinna fjölmörgu leikrita og sagna sem frá Ólafi hafa komið á löngum og starfsömum ferli: hrjúfar og harðar hið ytra, ólgandi kvika undir. Einhversstaðar leynist sárið sem kvikan sækir hitann í. Allt er þetta fólk orðheppið og fundvíst á hnyttnar spælingar og hittið eins og Amazon-indjánar með eitraðar örvar sínar. Þannig er í það minnsta fjölskylda Þórðar, sem hefur safnast saman næstsíðasta dag ársins, að beiðni ættföðurins, sem grunar að endalokin nálgist og vill að hans eigin dauði verði ekki líka endalok lífsmátans – og þorpsins. Það er hans rómantík. Þórður hefur rekið bæði fyrirtæki og heimili með harðri hendi. Allt verður þetta frá honum tekið, og kemur vafalaust engum á óvart. Það sem er dautt er dautt.
Einlínur og orðahnippingar fjölskyldunnar vekja enn hlátur í sal þegar þær eru lipurlega fluttar. Ekki síst þar sem myrkari hliðum sjávarþorpslífsins er lýst. Hér glansa Sólveig Arnarsdóttir og Oddur Júlíusson sem hafa mest af skotfærunum frá Ólafi í hlutverkum helstu afætanna, brottfluttu systkinanna Ragnheiðar og Gústa. Að ógleymdri Guðrúnu S. Gísladóttur, sem leikur nú hverja skrítnu kellinguna á fætur annarri með miklum sóma og gerði Kötu ágæt skil.
Það er mikill safi í þessum texta, feitir bitar fyrir flinka leikara. En þrátt fyrir þessa skemmtan og mikilsvert erindi náði Hafið þegar á heildina er litið samt ekki nægilegum tökum á þessum áhorfanda að þessu sinni.
Skýringanna er víða að leita. Eitt er nú að samþætting og gagnvirk áhrif samfélagsástands og fjölskylduaðstæðna eru ekki sérstaklega skýr. Fyrir vikið verður „fléttan“ heldur fyrirsjáanleg og framvindan hæg. Úr því þarna eru á annað borð stór leyndarmál þá er ófullnægjandi hversu vannærð þau verða, og snertipunktalaus við gang mála. Þetta bitnar ekki síst á Snæfríði Ingvarsdóttur í hlutverki Maríu. Harmur stjúpdótturinnar, sem einn og sér dygði í mjög hressilegt heils kvölds melódrama, fjarar ófullnægjandi út í verkinu. Það slær mig líka eins og vannýtt tækifæri hvað afstaða allra barnanna til föður síns, fjölskylduauðsins og þess hvað ber að gera er áþekk. Þessi einsleitni verður enn meira áberandi þegar búið er að fækka í systkinahópnum, en þrjár persónur eru horfnar úr verkinu frá fyrri gerð. Tæknilega séð er þessi niðurskurður þó til bóta og vel útfærður, og fyrir þá sem eru vel kunnugir verkinu frá fyrri tíð er forvitnilegt í sjálfu sér að sjá hvernig persónueinkennum hinna útstrikuðu systkina er deilt meðal þeirra sem eftir standa.
Sigurði Sigurjónssyni hefur ekki auðnast að vinna nægilega úr þessum ágöllum. Kannski vegur þar þyngst hvernig afstaða afkvæmanna gagnvart föður sínum er ekki bara einsleit, heldur líka án votts af ótta eða virðingu frá upphafi, og þróast hvorki né breytist að ráði þessa örlagaríku sólarhringa. Þarna hefði þurft að leggjast í mjög nákvæma vinnu með valdastöðu, ekki síst þar sem Þröstur Leó Gunnarsson, jafnmikið afbragð leikara sem hann annars er, er ekki beinlínis á heimavelli við túlkun hrúðurkarla á borð við Þórð. Á samleik Þrastar og allra í kringum hann hvílir spenna sýningarinnar, líkt og ástandið á heimilinu ræðst af stöðu loftvogarinnar. Það hefur ekki tekist nægjanlega vel að teikna upp þetta spennuvirki, svo það skili sér út í sal.
Sérstaklega var furðulegt að sjá eiginmann dótturinnar snerta Þórð kæruleysislega, jafnvel dangla hugsunarlaust í hann með flugeldapoka, án þess að það vekti nein viðbrögð eða hefði eftirmál. Þar fyrir utan kom það í hlut Snorra Engilbertssonar í þessu hlutverki að bjóða upp á áhugaverðustu persónutúlkun kvöldsins. Í meðförum hans verður Guðmundur kostulegur, næstum tsjékovskur, einfeldningur – opið hjarta innan um skeldýrin. Hinn makinn, hin lífsleiða eiginkona Hermanns Þórðarsonar forstjóra, var greinilega auðleyst fyrir Birgittu Birgisdóttur, sem þarf að fara að fá bitastæðari verkefni en lítilsigldu bytturnar og tálkvendin sem hún hefur verið að brillera í undanfarið.
Nostursamleg statusvinna hefði líka auðveldað okkur að skynja betur þrjár ólíkar afstöður til mála. Í fyrsta lagi höfum við „afæturnar að sunnan“, Ragnheiði og Gústa. Þá er það Hermann, skyldurækni heimóttarbróðirinn, sem Baldur Trausti Hreinsson gerir sannfærandi skil en hefði mátt sleppa að gera alveg svona kallalegan. Og svo aflaklóin Bergur. Sjóarinn var kraftmikill hjá Baltasar Breka Samper, hann tók sitt skipstjórapláss í sínum tveimur innkomum, en mig vantaði svolítið slorkeiminn af honum, tilfinningu fyrir að hann væri þrátt fyrir allt ekki á heimavelli í landi, í þessari stofu. Og aftur: skýrari aðgreiningu frá uppeldissystkinum hans. Afstöðu. Það hefði líka þurft að hjálpa Elvu Ósk Ólafsdóttur að vera talsvert minna sjálfbjarga og veraldarvön sem Kristín, svo einhver leið væri að trúa því að Hermann gæti vafið henni um fingur sér með undirskriftir fyrir aftan bak sambýlismannsins. Sem reyndar var erfitt að trúa að ætti nokkurt einasta erindi í þjónustuíbúð fyrir sunnan, hvað þá hún, kona í blóma lífsins.
Opnar leikmyndir sem nýta kosti hringsviðsins eru mjög í tísku í Þjóðleikhúsinu þessi árin. Við minnumst Djöflaeyjunnar, Horft frá brúnni, Hússins og Óvinar fólksins. Finnur Arnar Arnarson fer skylda leið hér, okkur býðst að horfa inn í útgerðarmannshöllina frá öllum hliðum. Þetta eru ekki íburðarmikil húsakynni ef undan er skilinn flygillinn sem Þórður getur rétt svo spilað á. Samtal Maríu og Gústa á dyratröppunum seint í verkinu, sem og fundur Þórðar og Kristínar við útigrillið græddu heilmikið á að losna út úr stofunni, en það er mín tilfinning að hér hafi leynst fleiri tækifæri til að brjóta upp stífa þáttaskiptingu verksins, ibsenska „stofuleikhúsformið“ og umferð fólksins um rýmið. Ólafur Ágúst Stefánsson lýsir heimilið með prýði og öldugangurinn í myndbandsverkum Inga Bekk eykur á stemminguna. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur styðja persónurnar ágætlega.
Það hefur verið óeðlilegt ástand í húsi útgerðarmannsins þegar börnin voru að alast upp, og þannig er það enn. Vafalaust hefur honum þótt það nauðsynlegt til að hafa aga og skapa sér svigrúm til að lifa í sátt við eðli sitt. Hvað svo sem segja má um nauðsyn og gagnsemi kvótakerfisins til að skapa útveginum svigrúm þá hefur það skapað óeðlilegt ástand í bæjum þar sem lífið er fiskur. Hafið er metnaðarfull og kröftug tilraun til athugunar leikhússins á þessari stöðu og hvert hún leiðir, bæði sálir og samfélag. Til þess er leikhúsið. Að þessu sinni vantar eitthvað upp á að kvikni í tundrinu, þótt hér og hvar leiftri snjallar lýsingar og glampi á beitt tilsvör þetta gamlárskvöld.
<< Home