miðvikudagur, nóvember 01, 2017

Natan

Eftir Sölku Guðmundsdóttur og leikhópinn Aldrei óstelandi. Leikstjórn: Marta Nordal. Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Kippi Kaninus (Guðmundur Vignir Karlsson). Aðstoð við hreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Lýsing: Jón Þorgeir Kristjánsson. Myndbandshönnun: Kjartan Darri Kristjánsson. Leikarar: Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Birna Rún Eiríksdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Rödd á myndbandi: Hjörtur Jóhann Jónsson. Leikhópurinn Aldrei óstelandi frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins 26. október 2017.

Natan Satan

Það er okkur sem þjóð til mikils sóma hvað síðasta aftaka á Íslandi situr í okkur. Hversu mikið verra fólk værum við ef örlög þeirra Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar skiptu okkur engu? Eða ef við teldum að þau hefðu augljóslega fengið það sem þau áttu skilið. Enginn vafi virðist leika á sekt þeirra. Aðild Sigríðar Guðmundsdóttur er líka næsta óumdeild. Svo má lengi deila um nákvæmlega hver verðskuldaði hvað. Nema við erum auðvitað löngu orðin sammála um að enginn verðskuldi dauðarefsingu. Og málsbætur eiga þau vitaskuld. Um það hefur tæpast ríkt nein þöggun. Myrkur og mótsagnakenndur persónuleiki Natans Ketilssonar hefur alla tíð verið viðfangsefni sagnaritara, sem eðlilega laðast að svona mönnum eins og flugur að ljósi, eða taðhrúgum. Aldarfarið sem Illugastaðamorðin eru einhverskonar endapunktur á er kjarninn í viðtekinni söguskoðun nútímans.

Hvað ætlar hinn metnaðarfulli og ígrundandi leikhópur Aldrei óstelandi að leggja til þessara mála, hvaða blæbrigði ætlar Marta Nordal og hennar fólk að draga fram?

Einfaldleiki, tærleiki og yfirvegun einkennir nálgunina eins og svo oft áður hjá þessum listfenga leikhópi. Þar hjálpast allt í umgjörðinni að. Stílhrein leikmynd Axels Hallkels Jóhannssonar sem er í senn nútímaleg og tímalaus, hljóðmynd Kippa Kaninus, lýsing Jóns Þorgeirs Kristjánssonar og sérdeilis gullfallegir búningar Helgu I. Stefánsdóttur og milt litróf þeirra draga athygli okkar að kjarna málsins.

En er kjarni málsins kjarni málsins? Eða réttara sagt: Hvað er hægt að hreinsa burt mikið af „óþarfa“ áður en sagan hættir að virka, áður en athafnir og tilfinningar persónanna verða of abstrakt til að skiljast og hreyfa við okkur? Marta, Salka Guðmundsdóttir og leikhópurinn dansar á þessari línu í Natan.

Verkið er skipulega byggt upp í kringum fjórar „tilgátur“ um orsakir og drifkrafta atburðanna: Ofbeldi, ágirnd, ástríðu og misnotkun, sem síðan eru fleygaðar með texta úr dómsorði og öðrum gögnum um skipulag aftökunnar, sem fluttir eru í hljóðnema en áhersla á listræna umgengni við hið talaða orð er eitt af aðalsmerkjum hópsins.

Auðvitað eru tilgáturnar allar „réttar“, samskipti fólksins á Illugastöðum bera öll þessi einkenni. Enda er sterkur samhljómur milli þátta. Þrúgandi andrúmsloft er grunntónninn. Það er alveg skýrt og vel útfært í hreyfimynstri og stuttum atriðunum, eða myndunum sem texti Sölku og leikhópsins dregur upp. Því styttri því beittari, fyrir utan síðan eintölin þar sem skáldið breiðir meira úr sér og fyllir út í sálarlífsmyndirnar.

Ekki nægjanlega samt. Því helsti galli verksins, það sem stendur áhrifum þess helst fyrir þrifum, er óskýr persónusköpun. Þar held ég að hin listræna stefna hreinsunar og eimingar vinni gegn markmiðunum. Við náum ekki nægu sambandi við þetta fólk, skiljum ekki aðstæður þess og flækt samskiptamynstur. Það er ekkert pláss í þessu verki, þessari nálgun, til að draga upp mynd af því samfélagi sem gerir atburðina mögulega.

Fyrir vikið verður Natan einhverskonar samræmdur heimilisharðstjóri, en ekki sá sérkennilega samsetti maður sem hann var, hvað þá barn síns mótandi tíma. Það þjóðskipulag og hugmyndafræði sem myndar farveg harmleiksins fær ekkert pláss. Meira að segja yfirþyrmandi sviðsnærvera Stefáns Halls Stefánssonar nýtist ekki hér til að skapa nauðsynlega spennu. Persónueinkenni stúlknanna tveggja eru dregnar eru of lauslegum, almennum dráttum. Það er greinilega sterk og virðingarverð ætlun höfunda sýningarinnar að rétta hlut þeirra Agnesar og Sigríðar, en það á virðist mér þátt í að gera þær of sviplausar. Agnes er vissulega keik og sterk í túlkun Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, en hún er eiginlega ekkert annað. Og það er ekki nóg. Eins hefur Birna Rún Eiríksdóttir alltof lítil tæki til að sýna okkur hvað stýrir gjörðum Sigríðar, hvernig manneskja hún er, og það sama á við um Friðrik Kjartans Darra Kristjánssonar.

Almennt má segja að sýningin sé fáguð um of. Hún er sennilega óskiljanleg þeim sem ekki þekkja sögu Illugastaðamorðanna og vita ekkert um samfélagsgerð fyrri alda á Íslandi. Hvers vegna drápu þau Natan? Það var ekki að ástæðulausu. Það var heldur ekki réttlætanlegt. Það verður bara skiljanlegt ef smáatriðunum er til skila haldið. Persónugerð allra sem við sögu koma. Atvikum aðdragandans. Sálarástandinu sem skapast í deiglu tiðarandans.

Án þessa erum við engu nær. Sýning Aldrei óstelandi hjálpar ekki til skilnings, en er fágað listaverk í sjálfu sér. Við krefjumst annars og meira af einum af okkar fremstu sjálfstæðu leikhópum.