Álfahöllin
Eftir Þorleif Örn Arnarsson. Handrit: Þorleifur Örn Arnarsson og Jón Atli Jónasson. Meðhöfundar: Aldís Amah Hamilton, Anna Katrín Einarsdóttir, Arnar Jónsson, Arnbjörg María Daníelsen, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Börkur Jónsson, Elvar Geir Sævarsson, Gaukur Úlfarsson, Hallgrímur Ólafsson, Hermann Karl Björnsson, Jóhann Friðrik Ágústsson, Jón Atli Jónasson, Kristín Hauksdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Sunneva Ása Weisshappel, Uwe Gössel, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þorleifur Örn Arnarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Þórir Sæmundsson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Dramatúrg: Símon Birgisson og Uwe Gössel. Leikmynd: Börkur Jónsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Búningar: Sunneva Ása Weisshappel. Myndbandshönnun: Gaukur Úlfarsson. Tónlist og tónlistarstjórn : Arnbjörg María Daníelsen. Hljóðmynd: Arnbjörg María Daníelsen og Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Aldís Amah Hamilton, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Hallgrímur Ólafsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 8. apríl 2017.
Til hvers er Þjóðleikhús? Í glæsilegri ræðu Vilhjálms Þ. Gíslasonar sem hljómar í upphafi Álfahallarinnar eru skyldur þess og hugsjónir taldar upp með mælskufræðilegum þokka og vel hægt að skrifa undir þær allar enn þann dag í dag. Deila síðan um mikilvægisröðina og hversu vel hefur gengið að standast prófin. Athygli vekur áherslan á skemmtun. Það á að vera gaman, ríkja gleði í þessu musteri, þessari álfahöll. Nokkuð sem hin frægu einkennisorð systurstofnunarinnar í Kaupmannahöfn segja án þess að segja það, sem er viðeigandi á heimavelli undirtextans. „Ej blot til lyst“ stendur þar, Ekki bara til skemmtunar. Sem þýðir auðvitað að skemmtunin eigi þar heima líka.
Þessi togstreita er eldsneytið í Álfahöll Þorleifs Arnar Arnarssonar, Jóns Atla Jónassonar og samstarfsfólks þeirra. Hvaða þýðingu hefur Þjóðleikhúsið – og leikhús almennt – fyrir þá sem þar starfa, sem listamenn og einstaklinga? Hvað hefur það að segja áhorfendum? Hvaða gagn gerir það samfélaginu? Um hvað fjallar það, hvað kemst ekki að og hvers vegna ekki? Hvað getur það gert?
Þetta hljómar auðvitað sjálfhverft, upphafið og leiðinlegt, en það er Álfahöllin svo sannarlega ekki. Örlítið sjálfhverf kannski í gamansögum úr leikhúsinu, en gamansögur réttlæta sjálfar sig ef þær standa undir nafni. Pínulítið óvæntur léttleiki er grunntónninn í efnistökunum og næstum alltaf þegar hún vill vera fyndin er hún það. Stundum svo um munar. Einstöku sinnum mistekst grínið alveg. Það er ekki það eina sem Álfahöllin á sameiginlegt með formgerð áramótaskaupsins, annarrar menningarstofnunar sem vill skemmta og stinga á kýlum, þannig að „menn rísa þó heilir og sáttir að morgni eftir bardaga kvöldsins“, eins og Vilhjálmur Þ. segir í fyrrnefndri ræðu.
Léttleiki já, en ekki léttúð. Það er þungur undirtónn í sýningunni og tvö verkanna sem rifjuð eru upp fá „óbrjálaða“ meðferð – hér er hvorki skopast með Fjalla-Eyvind né Pétur Gaut. Harmleikurinn um allsleysið og hinn um tómið í allsnægtunum eru hornsteinar hallarinnar. Í upphafi er sungið yfir barninu sem fórnað er á flóttanum og í lokin fáum við svo söng Sólveigar sem bíður alla ævi eftir sínum flóttamanni.
Með léttleikanum tekst á snjallan en einfaldan hátt að setja áhorfandann í meðvitaða og gagnrýna stöðu strax í upphafi, þar sem leikararnir segja örstuttar sögur um fyrstu kynni sín af leikhúsinu og listinni. Með því að hafa eina þeirra augljóslega ósanna (eða réttara sagt: líklega sanna en greinilega rangfeðraða) erum við látin koma okkur fyrir á sætisbrúninni og búin undir það sem koma skal, tilbúin að greina, spyrja, efast.
Sýningin fer ekki leynt með hópvinnueðli sitt. Atriðin eru ósamstæð að efni, aðferðir ólíkar, tengingar bláþráðóttar en sumar mjúkar og fallegar, eins og þegar Ólafur Egill Egilsson er borinn til grafar í hlutverki Guðjóns Samúelssonar en umbreytist á leiðinni í Þröst Leó Gunnarsson að hrekkja Baldur Trausta Hreinsson og aðra mótleikara sína í Edit Piaf. Leikararnir sjálfir eru í forgrunni, eða nálægt yfirborðinu þá sjaldan þeir bregða sér í hlutverk í þeim verkum úr sögu leikhússins sem fyrir þeim verða. Texti sem ekki er sóttur beint í leikritin ber með sér að vera ekki orðaður í eitt skipti fyrir öll heldur umorðaður í hvert sinn innan þess ramma – út frá þeim kjarna – sem viðkomandi atriði hefur.
Þrjú atriði hverfast um það sem „hæst ber“ í umræðunni í samfélaginu. Kostuleg er endursköpun á sigri „strákanna okkar“ á Englendingum á EM síðasta sumar undir stjórn Sigurðar Þórs Óskarssonar (er bensínið samt ekki búið á húh-gríninu?), tónsetning Hallgríms Ólafssonar á mest lesnu fréttunum á mbl.is (með aðstoð frá Bubba Morthens) og lestur Þóris Sæmundssonar á svipuðu efni í trúðsgervi sem hann ber stærstan hluta sýningarinnar og verður mikilvægt steypustyrktarjárn í byggingu Álfahallarinnar. Bráðskemmtileg er makalaus meðferð trúðsins og hópsins á atriði úr Stundarfriði Guðmundar Steinssonar. Það sama má segja um æðiskast sem trúðurinn tekur í hlutverki gagnrýnanda yfir stöðu listamannsins eins og hún birtist í Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason. Það er svo aftur til marks um fimi Þorleifs og hans fólks við að henda marga bolta á lofti og láta okkur horfa úr öllum áttum í senn, að viðhorfin í textanum sem þar eru skopgerð ríma að því virðist ágætlega við áhyggjur hans af þessari sömu stöðu. Er listamaðurinn dauður? Eða lifandi lík í skemmtiiðnaðinum?
Skemmtunin og ögrunin eru aftur samferða í lokaatriði fyrri hlutans sem hefst með upprifjun á Inúk en afvegaleiðist vægast sagt illa inn í umræðu um kynþætti með Aldísi Amah Hamilton í miðju stormsins. Brilljant atriði þar sem hláturrokurnar og Klovn-ættuð óþægindi í boði Atla Rafns Sigurðarsonar, Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur og Láru Jóhönnu Jónsdóttur þvælast þrátt fyrir allt ekki fyrir skilningi okkar á alvarleika efnisins sem til umfjöllunar er. Þvert á móti. Leiklist í essinu sínu.
Frjálsi tíminn sem í flestum sýningum er kallaður „hlé“ er síðan sérkapítuli. Einna helst eins og Hieronymus Bosch og Charles Ives hafi ákveðið að semja söngleik. Sigurður Þór í pífupilsinu og dragdrottningin Arnar Jónsson að kyrja lögin úr Gísl munu lifa í minninu.
Brúnin þyngist eftir söngskemmtunina. Eftir snöggt innlit í Sumarhús fær Ólafía Hrönn Jónsdóttir orðið og segir frá því sem hún varð vísari við að ræða við fátækt fólk og þá sem sinna hjálparstarfi. Það er alveg ljóst að þetta atriði er hugsað sem þungamiðja sýningarinnar. Ólafía er greinilega slegin af ástandinu sem hún hefur fengið innsýn í, af þeim sögum sem hún hefur heyrt. Skiljanlega, þær eru sláandi.
Leikhúsið á að reka erindi réttlætis og mannúðar. En hvernig? Einlægni er nauðsynleg. Hún er hér. Það er mikilvægt að rannsaka og greina rétt frá. Það gerir Ólafía. En það er ekki nóg. Hverju bætir leikhúsið við? Hvað getur það gert sem ekki næst betur með blaðagreinum, skýrslum, útvarpsþáttum, mótmælafundum og lobbýisma? Á meðan leikkonan flytur mál sitt fer fram áhrifaríkur gjörningur sem að einhverju leyti svarar þeirri spurningu, en engu að síður skilur atriðið eftir þá tilfinningu að hér hafi leikhúsið staðið upp og viðurkennt vanmátt sinn.
Það er verðmætt. Það er núllpunktur. Á því má byggja. Sú byggingarsaga hófst fyrir þúsundum ára og stendur enn.
Það er falleg og áreynslulaus samheldni í leikhópnum. Öll eiga þau glansaugnablik en aðallega þjóna allir heildinni öllum stundum, eins og eðli sýningarinnar krefst. Viðeigandi sundurgerð einkennir búningana fremur en stílhrein fegurð. Leikmyndin er þénug, gervin snjöll.
Álfahöllin er margbrotið og heillandi listaverk. Því er ekkert heilagt, það skammast sín hvorki fyrir lágkúru né fimmaurabrandara. Það ískrar í því reiðin og vill gjarnan smita okkur öll, en því finnst þessi reiði sín líka svolítið kjánaleg. Aðallega veit það að það er til einskis að hafa dýpt ef ekki tekst að lokka gestina til að kafa.
Leikvangur tómstunda – vígvöllur gagnrýni
Til hvers er Þjóðleikhús? Í glæsilegri ræðu Vilhjálms Þ. Gíslasonar sem hljómar í upphafi Álfahallarinnar eru skyldur þess og hugsjónir taldar upp með mælskufræðilegum þokka og vel hægt að skrifa undir þær allar enn þann dag í dag. Deila síðan um mikilvægisröðina og hversu vel hefur gengið að standast prófin. Athygli vekur áherslan á skemmtun. Það á að vera gaman, ríkja gleði í þessu musteri, þessari álfahöll. Nokkuð sem hin frægu einkennisorð systurstofnunarinnar í Kaupmannahöfn segja án þess að segja það, sem er viðeigandi á heimavelli undirtextans. „Ej blot til lyst“ stendur þar, Ekki bara til skemmtunar. Sem þýðir auðvitað að skemmtunin eigi þar heima líka.
Þessi togstreita er eldsneytið í Álfahöll Þorleifs Arnar Arnarssonar, Jóns Atla Jónassonar og samstarfsfólks þeirra. Hvaða þýðingu hefur Þjóðleikhúsið – og leikhús almennt – fyrir þá sem þar starfa, sem listamenn og einstaklinga? Hvað hefur það að segja áhorfendum? Hvaða gagn gerir það samfélaginu? Um hvað fjallar það, hvað kemst ekki að og hvers vegna ekki? Hvað getur það gert?
Þetta hljómar auðvitað sjálfhverft, upphafið og leiðinlegt, en það er Álfahöllin svo sannarlega ekki. Örlítið sjálfhverf kannski í gamansögum úr leikhúsinu, en gamansögur réttlæta sjálfar sig ef þær standa undir nafni. Pínulítið óvæntur léttleiki er grunntónninn í efnistökunum og næstum alltaf þegar hún vill vera fyndin er hún það. Stundum svo um munar. Einstöku sinnum mistekst grínið alveg. Það er ekki það eina sem Álfahöllin á sameiginlegt með formgerð áramótaskaupsins, annarrar menningarstofnunar sem vill skemmta og stinga á kýlum, þannig að „menn rísa þó heilir og sáttir að morgni eftir bardaga kvöldsins“, eins og Vilhjálmur Þ. segir í fyrrnefndri ræðu.
Léttleiki já, en ekki léttúð. Það er þungur undirtónn í sýningunni og tvö verkanna sem rifjuð eru upp fá „óbrjálaða“ meðferð – hér er hvorki skopast með Fjalla-Eyvind né Pétur Gaut. Harmleikurinn um allsleysið og hinn um tómið í allsnægtunum eru hornsteinar hallarinnar. Í upphafi er sungið yfir barninu sem fórnað er á flóttanum og í lokin fáum við svo söng Sólveigar sem bíður alla ævi eftir sínum flóttamanni.
Með léttleikanum tekst á snjallan en einfaldan hátt að setja áhorfandann í meðvitaða og gagnrýna stöðu strax í upphafi, þar sem leikararnir segja örstuttar sögur um fyrstu kynni sín af leikhúsinu og listinni. Með því að hafa eina þeirra augljóslega ósanna (eða réttara sagt: líklega sanna en greinilega rangfeðraða) erum við látin koma okkur fyrir á sætisbrúninni og búin undir það sem koma skal, tilbúin að greina, spyrja, efast.
Sýningin fer ekki leynt með hópvinnueðli sitt. Atriðin eru ósamstæð að efni, aðferðir ólíkar, tengingar bláþráðóttar en sumar mjúkar og fallegar, eins og þegar Ólafur Egill Egilsson er borinn til grafar í hlutverki Guðjóns Samúelssonar en umbreytist á leiðinni í Þröst Leó Gunnarsson að hrekkja Baldur Trausta Hreinsson og aðra mótleikara sína í Edit Piaf. Leikararnir sjálfir eru í forgrunni, eða nálægt yfirborðinu þá sjaldan þeir bregða sér í hlutverk í þeim verkum úr sögu leikhússins sem fyrir þeim verða. Texti sem ekki er sóttur beint í leikritin ber með sér að vera ekki orðaður í eitt skipti fyrir öll heldur umorðaður í hvert sinn innan þess ramma – út frá þeim kjarna – sem viðkomandi atriði hefur.
Þrjú atriði hverfast um það sem „hæst ber“ í umræðunni í samfélaginu. Kostuleg er endursköpun á sigri „strákanna okkar“ á Englendingum á EM síðasta sumar undir stjórn Sigurðar Þórs Óskarssonar (er bensínið samt ekki búið á húh-gríninu?), tónsetning Hallgríms Ólafssonar á mest lesnu fréttunum á mbl.is (með aðstoð frá Bubba Morthens) og lestur Þóris Sæmundssonar á svipuðu efni í trúðsgervi sem hann ber stærstan hluta sýningarinnar og verður mikilvægt steypustyrktarjárn í byggingu Álfahallarinnar. Bráðskemmtileg er makalaus meðferð trúðsins og hópsins á atriði úr Stundarfriði Guðmundar Steinssonar. Það sama má segja um æðiskast sem trúðurinn tekur í hlutverki gagnrýnanda yfir stöðu listamannsins eins og hún birtist í Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason. Það er svo aftur til marks um fimi Þorleifs og hans fólks við að henda marga bolta á lofti og láta okkur horfa úr öllum áttum í senn, að viðhorfin í textanum sem þar eru skopgerð ríma að því virðist ágætlega við áhyggjur hans af þessari sömu stöðu. Er listamaðurinn dauður? Eða lifandi lík í skemmtiiðnaðinum?
Skemmtunin og ögrunin eru aftur samferða í lokaatriði fyrri hlutans sem hefst með upprifjun á Inúk en afvegaleiðist vægast sagt illa inn í umræðu um kynþætti með Aldísi Amah Hamilton í miðju stormsins. Brilljant atriði þar sem hláturrokurnar og Klovn-ættuð óþægindi í boði Atla Rafns Sigurðarsonar, Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur og Láru Jóhönnu Jónsdóttur þvælast þrátt fyrir allt ekki fyrir skilningi okkar á alvarleika efnisins sem til umfjöllunar er. Þvert á móti. Leiklist í essinu sínu.
Frjálsi tíminn sem í flestum sýningum er kallaður „hlé“ er síðan sérkapítuli. Einna helst eins og Hieronymus Bosch og Charles Ives hafi ákveðið að semja söngleik. Sigurður Þór í pífupilsinu og dragdrottningin Arnar Jónsson að kyrja lögin úr Gísl munu lifa í minninu.
Brúnin þyngist eftir söngskemmtunina. Eftir snöggt innlit í Sumarhús fær Ólafía Hrönn Jónsdóttir orðið og segir frá því sem hún varð vísari við að ræða við fátækt fólk og þá sem sinna hjálparstarfi. Það er alveg ljóst að þetta atriði er hugsað sem þungamiðja sýningarinnar. Ólafía er greinilega slegin af ástandinu sem hún hefur fengið innsýn í, af þeim sögum sem hún hefur heyrt. Skiljanlega, þær eru sláandi.
Leikhúsið á að reka erindi réttlætis og mannúðar. En hvernig? Einlægni er nauðsynleg. Hún er hér. Það er mikilvægt að rannsaka og greina rétt frá. Það gerir Ólafía. En það er ekki nóg. Hverju bætir leikhúsið við? Hvað getur það gert sem ekki næst betur með blaðagreinum, skýrslum, útvarpsþáttum, mótmælafundum og lobbýisma? Á meðan leikkonan flytur mál sitt fer fram áhrifaríkur gjörningur sem að einhverju leyti svarar þeirri spurningu, en engu að síður skilur atriðið eftir þá tilfinningu að hér hafi leikhúsið staðið upp og viðurkennt vanmátt sinn.
Það er verðmætt. Það er núllpunktur. Á því má byggja. Sú byggingarsaga hófst fyrir þúsundum ára og stendur enn.
Það er falleg og áreynslulaus samheldni í leikhópnum. Öll eiga þau glansaugnablik en aðallega þjóna allir heildinni öllum stundum, eins og eðli sýningarinnar krefst. Viðeigandi sundurgerð einkennir búningana fremur en stílhrein fegurð. Leikmyndin er þénug, gervin snjöll.
Álfahöllin er margbrotið og heillandi listaverk. Því er ekkert heilagt, það skammast sín hvorki fyrir lágkúru né fimmaurabrandara. Það ískrar í því reiðin og vill gjarnan smita okkur öll, en því finnst þessi reiði sín líka svolítið kjánaleg. Aðallega veit það að það er til einskis að hafa dýpt ef ekki tekst að lokka gestina til að kafa.
<< Home