fimmtudagur, nóvember 03, 2016

Extravaganza

Eftir Sölku Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Ragnheiður Skúladóttir. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist og hljóðmynd: Ólafur Björn Ólafsson. Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 28. október 2016. Rýnt í aðra sýningu laugardaginn 29. október.

Nútíminn er lundi

Salka Guðmundsdóttir heldur ótrauð áfram að skoða leiðir til að láta leikhúsið tala við og skoða okkar nánasta samtíma. Það er gott, önnur réttlæting fyrir tilvist leikhússins er vandfundin.

Að þessu sinni verða tvö áberandi einkenni síðustu ára henni að meginefni: ferðamannasprengjan með öllum sínum skammsýna gullgreftri og svo andlitslaus valdataka fasteignafélaga og ábyrgðarlaus gróðahyggja almennt.

Félagsleg blokk lendir í eignasafni andlitslauss fasteignarisa sem flæmir íbúana á brott og breytir húsakynnunum í verulega frumstætt hótel, Puffin etc., með einum starfsmanni: öryrkjanum Lýdíu. Hún virðist eiga að ganga þar í öll störf undir eftirliti hins ábúðarmikla Júlíusar, fulltrúa gráðuga fasteignabáknsins Porcellusar, launalaust gegn því að fá að halda sinni íbúð. Lýdía er á fullu í sjálfsrækt og markþjálfun að nútímahætti undir leiðsögn orku- og klisjubombunnar Solveigar en villist af þeirri leið þegar hún uppgötvar feluleigjandann G.Núma, uppflosnaðan sagnfræðinema með hinar aðskiljanlegustu raskanir, í geymslunni. Hann hefur í smíðum gríðarlega Reykjavíkurrevíu í anda blómaskeiðsins sem það merka form átti um miðja síðustu öld. En blokkin er að hruni komin, kapítalistagrísirnir í Porcellus svífast einskis og það er óhreint mjöl í pokahorni Solveigar, allavega í orkuteinu sem karríerkonan er að láta Lýdíu pranga inn á fólk til að komast með á pepphátíðina Extravaganza í Düsseldorf.

Þó verkið tali beint inn í lundafylltan samtímann er sterklega reynt að staðsetja okkur í fortíðinni. Það er t.d. gert með fornfálegum húsgögnunum í leikmynd Brynju Björnsdóttur. Hér er notast við snúrusíma og enginn minnist á samfélagsmiðla, ekki einu sinni þegar einmanaleika og vinaleysi ber á góma. Hljóðkerfi blokkarinnar er kassettudrifið, kostulegar næturútvarpssenur Lýdíu eru eitt það skemmtilegasta í sýningunni. Og revían fjallar m.a. um borgarstjórahringekjuna í kringum REI-málið, muni einhver eftir því. En samt er viðfangsefnið nákvæmlega samtíminn. Þetta virðist vera vísvitað hjá höfundi, en ég næ ekki sambandi við hvað þetta á að þýða.

Það eru ýmis leikhúsform og stílbrögð reynd og nýtt í leikritinu og sýningunni. Kringumstæðurnar og ógnin að utan eru beint upp úr handbók absúrdleikhússins og fyrrnefnd tímaóreiða undirstrikar þann andblæ. Það brestur stundum á með sálfræðilegu raunsæi með ljóðrænu yfirbragði í samskiptum Lýdíu og Núma, en svo er þarna líka farsaþráður, þar sem þau skötuhjúin reyna að fela revíuáform sín fyrir útsendara Porcellusar, m.a. með því að ljá Núma þýskt ríkisfang. Leikmyndin er líka farsaættuð, með sínum hurðaríka bakvegg.

Og svo er náttúrulega revíuformið sjálft.

Reyndar fer revían sérkennilega illa út úr þessu sambýli. Henni er ýtt yfir í það hlutverk að vera spaugilegt viðfangsefni frekar en gild aðferð í nútímaleikhúsi. Extravaganza á þá klemmu sameiginlega með Djöflaeyjunni í Þjóðleikhúsinu að það er eins og höfundana langi að vinna með form (revíu hér, söngleik þar) sem þeir hafa ekki fyllilega á valdi sínu og – það sem verra er – hafi ekki nema takmarkaða trú á.

Hér verður það beinlínis ein af þungamiðjum sýningarinnar að skopstæla viðvaningslega tilburði persónanna til að tjá sig í gamanvísum. Sem er í sjálfu sér ekkert alveg óskemmtilegt. Verra er að það er eiginlega ómögulegt að sjá hvers vegna við ættum að vilja beina sjónum okkar og aðhlátri í þessa átt. Að flissa að máttvana tilraunum fúskara til að setja fram góðlátlega ádeilu á níræðu og smáðu leikhúsformi. Er það brýnt erindi í verki sem að öðru leyti er með hin ýmsu samfélagsmein undir? Það þarf þá að vera verulega fyndið, sem það er ekki hér. Svolítið spaugilegt en ekki nægjanlega.

Þessi samþætting gengur sem sagt ekki nógu vel upp. Sundurgerð í formi og stíl er alls ekki sjálfkrafa uppskrift að vandræðum en hér tekst ekki að láta hin ólíku efnistök njóta sín í sambýlinu og skila okkur áhugaverðri sýn. Fyndnin er ekki nógu fyndin, bitið ekki nógu beitt.

Leikhópurinn nær ekki að bæta spennandi vídd við efniviðinn. Skila ágætu verki, en ögn fyrirsjáanlegu. María Heba Þorkelsdóttir hefur áður sýnt að henni lætur vel að sýna okkur velmeinandi en pínu ráðvilltar konur með lága valdastöðu. Lýdía er sú persóna sem kemst næst því að vera í þrívídd og er hér í öruggum höndum. Eins er um Júlíus hjá Hannes Óla Ágústssyni. Hrokagikkir með hæpna innistæðu fyrir valdi sínu eru hans heimavöllur. Auðvitað finnur Sveinn Ólafur Gunnarsson leiðir til að gera taugabúnt eins og G.Núma sannfærandi, brjóstumkennanlegan og hlægilegan. Og Aðalbjörg Árnadóttir finnur flesta kæki sem „prýða“ hressa leiðtoga í markaðsdrifnum sjálfshjálpariðnaðinum og nýtir þá vel.

En þó týpurnar standi fyrir sínu virkaði samleikurinn stirður og óöruggur á annarri sýningu. Meiri nákvæmni og nostur við smáatriði hefði hjálpað. Sviðsetningin virkar frumstæð. Hið breiða en grunna leikrými takmarkaði möguleika og skapaði einsleitni í staðsetningum og samleik. Fjölmargar hurðir á bakvegg skapa möguleika á óvæntum uppbrotum og voru dálítið nýttar þannig, en nokkuð skorti á öryggi í þeim atriðum og kannski fleiri og fjölbreyttari útfærslur. Hér hefði bæði þurft fastari tök og fleiri hugmyndir frá leikstjóranum Ragnheiði Skúladóttur. Ég gæti líka trúað að úrvinnsla sem hefði nýtt samband sviðs og salar betur, í revíuandanum, hefði hjálpað verkinu, þó það sé vissulega að miklu leyti skrifað með traustan fjórða vegg í huga.

Tónlistarflutningur er oftast vísvitandi klaufalegur, en það óöryggi smitaðist líka yfir upphafs- og lokaatriði sem ættu að standa utan revíuskopstælingarinnar.

Það er mörgum boltum kastað á loft í Extravaganza bæði hvað varðar form og innihald, handrit og úrvinnslu á sviðinu. Meiri tími, yfirvegun og yfirlega hefði trúlega skilað áhrifameira verki, þó margt sé sniðugt og sýni hvert stefnt var. Hugsanlega hefði hluti þeirrar vinnu falist í að velja og hafna bæði viðfangsefnum og meðulum. Líklega hefði Borgarleikhúsð átt að standa af meiri ábyrgð og fagmennsku að baki opinbers leikskálds síns.

En við verðum að bíða enn um stund eftir skotheldum gamanleik um glóruleysi gróðapunganna á ferðamannaakrinum og kvikindislegri afhjúpun siðleysingja í fasteignabraski.

Ætli revíuformið myndi kannski henta?