miðvikudagur, september 07, 2016

Djöflaeyjan

Eftir Einar Kárason í leikgerð Atla Rafns Sigurðarsonar, Melkorku Teklu Ólafsdóttur og leikhópsins. Leikstjórn: Atli Rafn Sigurðarson. Dramatúrg: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Söngtextar: Bragi Valdimar Skúlason og fleiri. Tónlist: Memfismafían. Tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Sviðshreyfingar: Margrét Bjarnadóttir. Leikmynd: Vytautas Narbutas. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson. Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson og Örn Eldjárn. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Baltasar Breki Samper, Birgitta Birgisdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eggert Þorleifsson, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Gunnar Jónsson, Hallgrímur Ólafsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórir Sæmundsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 3. september 2016.


Niður til heljar hérumbil


Að mörgu leyti er hægt að taka undir með frumhreyfli sýningarinnar, Baltasar Kormáki: Braggabækur Einars Kárasonar eru freistandi hráefni í söngleik. Afmarkaður heimur með afgerandi svip sem tíminn hefur litað rómantískum blæ, krydduðum grimmd, trega og illum örlögum. Stórar og litríkar persónur. Rokk og ról. Auðvitað spillir ekkert fyrir hve vel þekkt sagan er í öllum sínum birtingarmyndum. Sem metsölubók, nútímaklassík mætti segja, sem kennsluefni í skólum, leikrit og kvikmynd. Söngleikir hafa löngum verið byggðir á slíkum grunni, enda þurfa þeir eðli máls samkvæmt að vera ágripskenndir.

Það eru líka vankantar. Sagan er breið og kallar á styrka hönd við handritaskrif til að búa til í hana dramatíska spennu sem rúmast á einni kvöldstund, þar sem ferðalög persónanna og áhrif hver á aðra mynda sannfærandi heild.

Þess sjást merki að handritshöfundar og verkstjórar Djöflaeyjunnar hafi viljað stefna í þessa átt. Ræður þar mestu sú ákvörðun að búa til nokkurskonar ástarþríhyrning þar sem bræðurnir Baddi og Danni sækjast báðir eftir ástum Gerðar, sem jafnframt er gerð að braggabarni og bernskuleikfélaga þeirra, dóttur Hreggviðs kúluvarpara.

Ekki hefur samt verið gengið svo langt að gera þetta drama að þungamiðju sýningarinnar, sem er að mestu byggð upp í kringum afmörkuð, svipmikil atriði úr bókunum. Amerísku jólin í Gamla húsinu (sem hér er reyndar bara braggi meðal bragga), samdráttur Dollýjar og Dóra smiðs, heimkoma og partístand Badda, koma sjónvarpsins, frami og dauði Danna. Þetta er svipuð leið og aðrir handritshöfundar hafa farið, og ef til vill hefði verið gaman að fara sjálfstæðari leið við úrvinnslu bókarinnar, prófa að ýta öðrum hlutum í forgrunninn.

Ekki það að margt sé ekki skemmtilegt. Stórt og mikið partí- og fyllerísatriði var líflegt og kraftmikið, og þar naut sín sérlega vel falleg, snjöll og fjölnýtanleg leikmynd Vytautas Narbutas. Skemmtilegar voru innkomur Gógóar frá Ameríku og gaman að sjá Eddu Björgu Eyjólfsdóttur rifja upp gamanleikkonutaktana eftir sitt dramatíska síðasta leikár. Ekkert kætti þó áhorfendur á frumsýningu til jafns við ástarævintýri Dóra og Dollýjar, enda var þar miskunnarlaust skopast með söngleikhúshefðina og tveir frábærir gamanleikarar, Guðjón Davíð Karlsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir, nutu þess greinilega til hins ýtrasta. Almennt þótti mér sýningin fljúga hærra í skopi en alvöru, sem þó var líka leikið á. Eðlilega. Hér deyja börn, bræður berjast.

En dramað nær því miður ekki nægilega háu flugi. Það skrifast fyrst og fremst á handritið og leikstjórnarúrvinnslu þess. Söngleikjaformið með öllum sínum tæknikröfum og takmörkunum er ekki heppilegur vettvangur fyrir lausatök hópvinnunnar. Leikin atriði þurfa að vera tálguð og þjóna skýrum tilgangi við að framfleyta sögunni, teikna persónur, kortleggja samskipti, greina frá þróun. Hratt og örugglega.

Þetta lánast ekki nógu vel hér og kemur verst niður á risi og falli Badda. Þórir Sæmundsson lýsir honum í sjálfu sér vel í samhengi sýningarinnar. Gaman hvað hann var hljóðlátur og heimóttarlegur í upphafi, sannfærandi róni í blálokin og hin eindregna skopfærsla eftir heimkomuna var gleðivaki sem slík. En fyrir vikið var erfitt að trúa á að þessi ýkti rokkari hefði það náðarvald sem honum er ætlað. Verra þó hvað mótleikarar hans gerðu lítið til að styðja þá mynd. Enginn virtist óttast hann, enginn bera virðingu fyrir honum. Enginn elska hann nema amman. Sama má segja um hina ágætlega skýru en kannski ögn fyrirsjáanlegu túlkun Guðrúnar Snæfríðar Gísladóttur á Karólínu: hún fær engan þann mótleik frá öðrum sem gerir stöðu hennar sem göldróttur heimilisharðstjóri, og skjól fyrir Badda til að rækta lesti sína, trúverðuga. Hér hefði Atli Rafn Sigurðarson þurft að leggja skýrari línur úr leikstjórastólnum.

Eggert Þorleifsson skilar Tomma líka nokkurnveginn nákvæmlega eins og reikna mátti með, og það virkar ágætlega. Arnmundur Ernst Backman er prýðilega hófstilltur í hlutverki Danna, kannski samt daufur um of, og ég er ekki viss um að breytingin yfir í sjálfsöruggan flugkappa eigi að vera svona ýkt og meðvituð. Þriðja hjólið í ástardramanu, Gerður Hreggviðsdóttir, fær alltof lítið efni fyrir Snæfríði Ingvarsdóttur til að vinna úr annað en að vera þögul og fögur, og syngja. Sem hún gerir fallega, eins og reyndar allir sem fá slík númer.

Almennt þykir mér tónlistin og möguleikar söngleiksins ekki nýtast nægilega vel til að reka erindi sýningarinnar. Lög Badda eru í stíl tíðarandans, önnur ekki, sem er sérkennileg ákvörðun. Textarnir eru að mestu mjög almenn lífsspeki, nánast aldrei með beina eða skýra vísun í líf eða aðstæður þess sem syngur, hvað þá til að fleyta sögunni áfram. Söngvarnir gætu auðveldlega staðið sjálfstæðir og verið settir saman af einhverju allt öðru tilefni. Best heppnað þótti mér „Ameríka“, sem Katrín Halldóra fór frábærlega með. Ballsöngur Gerðar er líka fallegt lag og textinn flottur, en er þessi lífs- og drykkjuþreyta nokkuð tímabær á þessum stað í lífi persónanna? Eitt dæmi um hvað áhrifamáttur söngleikjaformsins er vannýttur, mér liggur við að segja vantreyst. Lögin og textarnir eru ágætlega heppnuð sem slík, skemmta og gleðja áhorfendur, en vinna ekki vinnuna sína í þágu verksins.

Fyrir utan ástarbrall þeirra bræðra er alkóhólið hið dramatíska eldsneyti. Þórgunnur, Dóri smiður og Hreggviður mynda einskonar rónakór sem sveimar í kringum fjölskylduna, sem aftur býr til skjól fyrir Badda til að ganga þessa sömu leið til heljar. Það er skiljanlegt að gefa þessu grundvallaratriði ekki algeran forgang í framvindunni, þetta á jú að vera skemmtilegt. En þó þau Birgitta Birgisdóttir og Gunnar Jónsson vinni vel úr sínu verða þau hálf-utanveltu í gangverki sýningarinnar. Kannski sérstaklega Birgitta, þar sem harmsaga Þórgunnar virðist eiga að vera einhverskonar þungamiðja ef marka má hvernig dauða Didda sonar hennar eru gerð skil í upphafi. Annað dæmi um hvað agaðri handritsvinna hefði getað bætt. Svo heyri ég reyndar alveg fyrir mér rónasönginn sem þau hefðu getað kyrjað, lofsungið sitt frjálsa líf en afhjúpað um leið helsi sitt. Hann er ekki hér.

Djöflaeyjan í Þjóðleikhúsinu kveður ekki upp einhlítan úrskurð um ágæti hugmyndar Baltasars. Til þess er úrvinnslan of ómarkviss. Það má vel vera að í stóra sagnapollinum í Thulekampi Einars Kárasonar leynist enn efni í söngleik þar sem máttur þess merkilega forms nýttist til fullnustu til að gleðja og hrífa okkur enn á ný. Þetta er ekki hann, þó hér sé á köflum stuð.