þriðjudagur, október 06, 2015

Sókrates

Eftir Berg Þór Ingólfsson og Kristjönu Stefánsdóttur. Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir. Leikstjórn: Rafael Bianciotto og Bergur Þór Ingólfsson. Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Hljóð: Garðar Borgþórsson. Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 1. október 2015.

Sælir eru fávísir

Milli trúðs og heimspekings liggja fleiri þræðir en blasir við fyrirfram. Ludwig Wittgenstein skrifar á einum stað um þá kennd að „undrast að heimurinn skuli vera til“ sem eina af lykilhvötum þess að hugsa heimspekilega, reyndar með þeim formerkjum að þesslags hugsanaháttur leiði menn óhjákvæmilega út í tóma vitleysu. En þessi þanki á nú aldeilis samhljóm í lífssýn trúðsins – og leiðir hann einatt í ógöngur. Sem betur fer.

Enginn heimspekingur er síðan eins trúðslega vaxinn og Sókrates, með þekkingarleysið sem útgangspunkt og barnalegar spurningar sem aðferð. 

En það hangir meira á þessari spýtu. Þekkingarskortur Sókratesar er nefnilega uppgerð og sjálfur er hann – í þeirri mynd sem sem við höfum af honum – sköpunarverk annars mun fágaðri og fjölhyggnari spekings, Platóns. Á hliðstæðan hátt við að trúðarnir eru tilbúningur, afrakstur strangrar vinnu þjálfaðra og hæfileikaríkra listamanna. Og svo er hitt: í sýningu eins og Sókratesi eru þeim lögð orð í munn, falin verkefni og léð hlutverk sem þeir hafa engin tök á að gera skil nema eðli þeirra sé vikið til hliðar. Leikarinn horfi fram hjá rauða nefinu. 

Þetta er vandi sýningarinnar, ef vanda skyldi kalla, og mér þykja leikstjórarnir ekki leysa hann á allskostar fullnægjandi hátt. Það á sinn þátt í gera hana jafn losaralega og raun ber vitni hvað mikið er slegið í og úr með trúðana, hvað þeir birtast og hverfa ört. Helst vildi maður auðvitað hafa þá alráða, en þá sætum við sennilega enn í salnum og ekkert gengi að miðla sögunni af dauða heimspekingsins, næstfrægasta réttarmorði mannkynssögunnar.

Reyndar er athyglin ekki nema að hluta til á Sókratesi sjálfum, hugmyndum hans og örlögum. Höfundum sýningarinnar er mikið í mun að segja þær sögur sem fóru framhjá Platóni, fjalla um fólk sem hann gaf ekki gaum. Þannig eru Xanþippa, kona Sókratesar fyrirferðarmikil, og ekki síður sonur hans ungur. Flautustúlka, sem bregður fyrir í Samdrykkjunni, fær loksins mál og (heldur dapurleg) örlög. Á móti er ekki minnst á Díótímu og hennar lykilhlutverk í þeirri bók, sem er svolítið skrítið meðan Platón liggur undir svona háværu ámæli fyrir að leiða konur rækilega hjá sér.

Plássfrekastir eru síðan sjóarar tveir sem hafa það verkefni að sækja eitur svo hægt sé að þagga niður í heimspekingnum. Þau atriði, sá þráður verksins, er best skrifaður og bitastæðastur. Minnir sterklega á gömul absúrdleikrit, sem er viðeigandi, svo mjög sem sú hefð sótti í trúðleik og fékkst við ráðaleysi „venjulegs“ fólks í heimi sem gerir fráleitar kröfur, og bítur af þér handlegginn þá minnst varir. Svo ekki sé minnst flóttamannavandann, sem mætir þeim sæfarendum auðvitað. Þær Maríanna Clara Lúthersdóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir gerðu þessum kumpánum ákaflega góð skil. Fundur Sókratesar og Patróklosar (Bergur Þór Ingólfsson og Kristín Þóra) undir lok verksins nær síðan næstum að hnýta efnið saman, gefa heimspekinni hlutverk í mannlífinu og opna augu spekingsins fyrir raunveruleikanum. Patróklos er líka sú persóna sem best gekk að samþætta við trúðinn. Einstök hlutverk eru annars flest full-eintóna til að gefa leikurum færi á að glansa, það er frekar þegar trúðarnir gægjast fram sem leikurinn fer á flug. Úlfar er dásamlegri hjá Bergi en Sókrates, og þó Krítón og Platón séu skýrir hjá Kristjönu Stefánsdóttur og Maríönnu eru Bella og Ronja ólíkt skemmtilegri. Vitaskuld. Brúðan sem fer með hlutverk Sófraniskosar Sókratessonar undir stjórn Maríönnu þótti mér síðan ekki vel lukkuð sem slík, en ágætlega stýrt. Og senur föður og sonar – og móður – fallega skrifaðar hjá Bergi. Það fer aldrei á milli mála að áhugi höfundar, leikstjóra og hópsins alls er á fólkinu frekar en hugmyndunum, enda leikhúsið betur til þess fallið að fjalla um það en þær. 

Leikmynd og ljós eru falleg, snjöll og þénug hjá Agli Ingibergssyni, og hæfilega erfið meðferðar til að trúðunum fatist stundum skiptingarnar með tilheyrandi fjöri. Það tók mig smástund að sættast við tónlistina, einkum að undirleikur væri (að mestu) upptekinn og söngur (oftast) magnaður – nokkuð sem stangast á við rómantískar fyrirframhugmyndir mínar um hið fátæka og frumstæða frásagnarleikhús trúðmennskunnar. En hún vann vel á og var oft mjög áhrifamikil í lýtalausum söngflutningi, sem höfundur hennar, Kristjana, leiddi með sínum alþekkta glæsibrag. Stíllinn minnti mig einna helst á ameríska söngleikjaskáldið Stephen Sondheim, sem rímar ágætlega við hið vitsmunalega viðfangsefni, en slæst kannski aðeins við efnistök trúðsins. Ekkert að því. Trúðurinn er bestur þegar hann slæst við ofurefli.

Þó brotkennd sé er sýningin aldrei minna en áhugaverð og langoftast skemmtileg. Henni er meira í mun að þyrla upp efni og hugmyndum en að gera þeim skil, draga ályktanir, setja punkt. Ég held hún hefði grætt á grimmari ritstjórn handrits og meira vægi trúðanna sjálfra í mótun leikstjóranna. Auðvitað er ég samt ekkert viss. Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt.