miðvikudagur, september 09, 2015

Móðurharðindin

Höfundur og leikstjóri: Björn Hlynur Haraldsson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Leikmynd: Axel Hallkell. Búningar: Axel Hallkell og Leila Arge. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikgervi, hár og grímur: Valdís Karen Smáradóttir. Leikarar: Árni Pétur Guðjónsson, Hallgrímur Ólafsson, Kjartan Guðjónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 5. september 2015.

Með tvær grímur


Þó að ekki liggi þykkur handritastafli eftir Björn Hlyn Haraldsson á þessum tímapunkti á ferli hans er óhætt að segja að hann hafi talsverðan áhuga á mörkum og mögulegri samvinnu gamans og drama. Hvort hægt sé að virkja grímurnar báðar, þá hlæjandi og þá grátandi, til að auka slagkraft beggja. Í Dubbeldusch tókst það næstum en í Móðurharðindunum skilar samstarfið því miður ekki viðlíka árangri. Alvöruþrungnar niðurstöður lokakaflans um hlutskipti kvenna á fyrri hluta aldarinnar og afleiðingarnar fyrir þroska þeirra og barnanna sem ólust upp í skjóli þeirra ná engri fótfestu í þeirri svörtu ýkjukómík sem hefur lengst af átt sviðið.

Í gleðisnauðu og rykföllnu borgarahúsi Móðurharðindanna ríkir frú Friðrika nú ein. Eiginmaðurinn á líkbörunum og enginn til að ráðskast með nema hlaupatíkin Snæbjörn. En það stendur til bóta, því að börnin tvö eru á leið heim í jarðarförina. Bæði forðast alla jafna samneyti við móður sína og það verður fljótlega ljóst hvers vegna. Móðir þeirra er nefnilega all-yfirgengileg í samskiptum. Fundvís á veiku punktana, gráðug á athygli og samúð og snjöll í að endursmíða raunveruleikann tilsvar fyrir tilsvar í þeirri mynd sem hentar henni. Fyrir nú utan ættardrambið og fordómana gagnvart helstu jaðar- og minnihlutahópum sem kynslóð hennar fékk að rækta í friði og hún hefur náð afburðaárangri með.

Þessari bitastæðu mannlýsingu kýs höfundur að deila með okkur í ákaflega hefðbundnu formi, svo ekki sé meira sagt. Segja má að hér sé hver einasta klisja elt uppi og kölluð til þjónustu við skemmtilegheitin. Það gildir um söguþráð, persónusköpun, leikstíl, útlit, lýsingu og hljóðmynd. Mesta furða að Sigurði Sigurjónssyni var sleppt við að vera með kryppu í hlutverki hins dularfulla Snæbjörns, sem hefði farið vel innan um kóngulóarvefina á myndunum og þrumugnýinn og ljósaflöktið sem ramma inn sýninguna.

Þetta er nú allt skemmtilegt svo langt sem það nær, en það nær auðvitað ekki mjög langt. Til þess hefði þurft bitastæðari fléttu til að halda spennustiginu uppi og skapa eftirvæntingu eftir afhjúpun leyndarmála fortíðarinnar. Þegar þau eru afhjúpuð hér er eins og við höfum alltaf þekkt þau og standi aukinheldur að mestu á sama.

Það verður því heldur lítið eftir til að hafa ofan af fyrir áhorfendum annað en að njóta yfirgengilegra tilsvara ættmóðurinnar og viðbragða samferðamanna hennar. Það er reyndar allnokkuð og setti á köflum af stað myndarlegar hlátursgusur á frumsýningunni.

Þeim gæðum sem leikararnir fá úr að moða er æði misskipt. Þar hefur Kjartan Guðjónsson dregið lengsta og feitasta stráið og gerir sér ágætan mat úr frú Friðriku. Kjartan hefur sérkennandi kómíska takta í textameðferð og tímasetningum sem hafa fylgt honum allan ferilinn og njóta sín vel í þessu nýja samhengi. Ónákvæmni í líkamsbeitingu verður eiginlega hluti af persónunni frekar en frammistöðugalli, undirstrikar hvernig Friðrika neytir allra bragða til að hafa stjórn á kringumstæðum og undiroka þá sem villast inn á áhrifasvið hennar. En það þvælist óneitanlega fyrir Kjartani að þurfa bæði að túlka hálf-farlama eldri konu og halda uppi spennustigi og hraða sýningarinnar.

Börnin hennar eru síðan dregin færri og óskýrari dráttum, einkum María, sem gaf Ólafíu Hrönn Jónsdóttur lítið til að vinna með annað en einstaka frábærlega tímasett tilsvör sem uppskáru eins og sáð var. Og jú, Ólafía náði í uppgjörskafla leikslokanna í skottið á sannri tilfinningu, sem verður að teljast vel af sér vikið. Meira er lagt í persónu einkasonarins Arnmundar og eru samskipti hans og móðurinnar þungamiðja sýningarinnar. Hann er enda kjörið skotmark fyrir Friðriku, viðkvæmur samkynhneigður listamaður, jógaiðkandi alkóhólisti í bata með þeldökkan ástmann. Í viðureignum þeirra er mesta grínpúðrið og þeir bræður Kjartan og Árni Pétur í hlutverki Arnmundar skiluðu því sem þar var að finna með sóma.

Snæbjörn, hinn dularfulli og mögulega dvergvaxni hjálparkokkur, var í öruggum höndum Sigurðar Sigurjónssonar, skoplegastur í þöglum leik þar sem hið óræða samhengi persónunnar í aðstæðunum skipti ekki máli. Hallgrímur Ólafsson var síðan prestur og miðlaði ágætlega taugaspenningi byrjandans sem kominn er langt út fyrir þægindaramma sinn í samskiptum við þetta furðulið. En persónan er afleitlega skrifuð og notuð í verkinu, presturinn sjálfur gerður næstum jafn einkennilegur og þeir sem hann á að þjóna, í stað þess að skapa andstæðu við aðalpersónurnar.

Umgjörð og hönnun sýningarinnar er vel útfærð miðað við þá grunnhugsun að fylgja eftir frekar en vinna gegn klisjum og tilvísunum handritsins.

Efnistök Móðurharðindanna sverja sig í ætt skrumskælingar fáránleikaleikhússins á hefðbundnum „stofukómedíum“. Hér eru hefðarklisjunum safnað saman og þær ýktar upp úr öllu valdi, hefðinni til háðungar. En jafnframt er eins og höfundur vilji nýta formið til að segja eitthvað um persónurnar, örlög þeirra og samskipti. Það tekst ekki. Björn Hlynur á fína spretti í samtalsskrifum. Tveggja manna tal er oft kröftugt og spennandi og uppsker þá í samræmi við það hjá flinkum leikhópnum. En sem heild fer verkið ekki á flug, hvorki sem ærslaleikur né alvöruþrungin áminning um skrælnað líf.