sunnudagur, júní 10, 2012

Tengdó og Beðið eftir Godot

Tengdó
Common Nonsense og Borgarleikhúsið

Höfundar: Valur Freyr Einarsson, Ilmur Stefánsdóttir, Jón Páll Eyjólfsson og Davíð Þór Jónsson
Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson
Leikendur: Kristín Þóra Haraldsdóttir og Valur Freyr Einarsson

Beðið eftir Godot
Kvenfélagið Garpur og Borgarleikhúsið

Höfundur: Samuel Beckett
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir

Leikendur: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Ísabella Rós Þorsteinsdóttir og Katrín Ynja Hrafnkelsdóttir.

Birtist fyrst í Spássíunni

Dragspil og buxnarullur


„A lot of Italians have played Indians. Well, someday, I’d like to play an Italian.“
Will Sampson, kvikmyndaleikari af Cree-ættbálknum, 1976

Á fimmtudagskvöldi sá ég Tengdó. Á Sunnudagskvöldi Beðið eftir Godot. Í millitíðinni sýndi RÚV Stage Beauty, aldeilis afleita mynd um áhugavert augnablik í sögunni, þegar Karl II. Englandskonungur gaf konum leyfi til að stíga á leiksvið í fyrsta sinn þar í landi. Leiklistarlegt kynuslaþema, þessa dagana, með Val Frey í hlutverki tengdamóður sinnar og móður hennar, og sex leikkonur sem Vladimir, Estragon, Pozzo, Lucky og drengir tveir í Godot, auk Claire Danes sem frú Hughes, fyrsta leikkonan á bresku sviði og Billy Cudrup sem Ned Kynaston sem var stórstjarna í kvenhlutverkum en náði sér á strik „á heimavelli“ eftir að kvenbanninu var aflétt.

Af hverju máttu konur ekki leika? Ég veit það ekki. Enda máttu þær það sumsstaðar, til dæmis í karlrembuveldinu á Spáni á sama tíma og þeim voru meinaðar kvenrullurnar hjá Shakespeare og félögum. Konur léku upphaflega í Kabuki-leikhúsinu japanska sem varð til á svipuðum tíma, en var seinna bannað það út af kynferðislegri lausung og vændisviðskiptum (sagan segir reyndar að það hafi lítið skánað við þá breytingu). Allavega er mikil hefð og serimónía í kringum það að karlar leiki konur. Drag-sýningar (dagspil?) eiga sér langa og merka hefð. Onnagata-leikararnir í Kabuki njóta gríðarlegrar hylli og eru áratugi að ná tökum á kvenrullunum, og halda því fullum fetum fram að þeir nái að tjá kjarna kvenleikans betur en konur gætu. Eiga þar örugglega við hina karllegu sýn á konur sem konur hafa löngum talið sig þurfa að standast samanburð við. Það er vandlifað.

Minni hefð er fyrir konum í karlhlutverkum, nema reyndar í óperum þar sem „buxnarullur“ þekkjast nánast frá upphafi listgreinarinnar. Sara Bernhard lék svo Hamlet á sinni tíð, meira segja eftir að var búið að taka af henni annan fótinn. Það hefði nú verið gaman að sjá. Fyrir nokkrum árum birtist svo hér samnorræni leikhópurinn Subfrau þar sem nokkrir gaurar öðluðust líf í meðförum flinkra ungra leikkvenna og fulltrúi Íslands í hópnum, María Pálsdóttir, hefur að ég held komið öðrum íslenskum leikkonum á bragðið. Gott ef sú vinna er ekki að einhverju leyti kveikjan að Godotsýningunni núna, sem er hugsuð og unnin með tilbúna karl-karaktera í huga. Þessir „gaurar“ mynda einhverskonar merkingarlegt auka-lag í sýningunni, það eru þeir sem leika persónur Becketts. Best að segja það strax að þetta „gimmikk“ breytir auðvitað engu fyrir upplifun áhorfenda, er mögulega nytsamt æfingatól, og klárlega skemmtileg kynnigargræja. En þegar í salinn er komið er það sem fram fer á sviðinu það sem skiptir máli.

 Það er ekkert erfitt að skilja hvatann að því fyrir metnaðargjarnar leikkonur að vilja hasla sér völl í karlrullum. Þær eru alloft snöggtum bitastæðari, ekki síst í klassískum verkum, jafnvel nútímaklassískum á borð við Godot. Sjálfur man ég eftir að hafa skrifað eitthvað á þá leið að leikkona sem væri eins fim í stakhendu Shakespeares og Halldóra Geirharðsdóttir yrði bara að fá tækifæri til að leika helstu rullur hans, karl og kven. Þetta frábæra textanæmi nýtist henni vel hér, og reyndar er frammistaða hennar og samleikur með hinni álíka frábæru Ólafíu Hrönn algerlega stórbrotinn. Harmrænt hlutskipti Vladimirs og Estragons í sinni eilífu bið, tímadrápi og vangaveltum um rök sinnar röklausu tilveru verður trúverðugt, átakanlegt og fyndið í þessum meistaratökum. Verkefni Sólveigar Guðmundsdóttur og Alexíu Bjargar Jóhannesdóttur í hlutverkum Pozzo og Lucky eru flóknari og lukkast ekki eins fullkomlega. Bæði var nú eins og hreyfingavinnan og útfærsla á leikmunum væri ekki eins nákvæm og þörf er á og svo var svolítið eins og staða þeirra í heimi verksins væri ekki nægilega skýrt útfærð til að það skilaði sér til okkar hvað þeir væru að vilja þarna. Að öðru leyti virtist mér leikstjórnarvinna og útlitshönnun eins og best verður á kosið – Kristín Jóhannesdóttir mjög sannfærandi á þeim heimavelli sem absúrdleikhúsið klárlega er henni.

Gerði sú staðreynd að hér léku konur þessa fjóra kalla eitthvað til? Síður en svo. Bætti hún einhverju við? Eiginlega ekki heldur. Frammistaða flytjendanna sem listamanna yfirskyggði allt svoleiðis. Það sama má segja um Tengdó.

List er alltaf einhverskonar val – hvað á að sýna okkur? Og hvað mikið? Að því leyti standa Tengdó og Godot sitt á hvorum enda eimingarferlisins. Godot er stílíseringin uppmáluð (þó sagt sé að innblásturinn hafi komið úr endurminningum Becketts og konu hans frá því þau fóru huldu höfði í sveitum Frakklands á stríðsárunum, bæði í andspyrnuhreyfingunni).Tengdó að því er virðist næstum ósíuð frásögn efniviðarins, sem er lífssaga tengdamóður höfundar og aðalleikara, Vals Freys Einarssonar. Þetta er býsna mögnuð saga, með eldheitri ást í meinum á stríðsárunum, skömm, kynþáttafordómum og áratugalangri leit að týndum föður. Og (heldur snubbóttum) eftirmála um hvað gerist þegar sú leit ber loksins árangur. Við eigum ekki mörg dæmi í íslensku leikhúsi um svona „documentary“ leiksýningar – sem hafa verið nokkuð í tísku annarsstaðar síðustu ár. Því betra hvað þetta tekst heilt á litið vel, er lipurlega skrifað, fallega sviðsett og frábærlega leikið.

Og aftur hvarf kynjaspursmálið í skuggann. Valur Freyr er, líkt og Halldóra, afreksmaður í textameðferð, og þangað sækir hann trúverðugleika sinn í hlutverkum sínum (sem tengdamóðir sín og móðir hennar), ekki í nein sérstök tilþrif í umbreytingu. Hann fékk fínan mótleik frá Kristínu Þóru Haraldsdóttur sem ef marka má þessa sýningu og Fólkið í Kjallaranum í sjónvarpinu um páskana er orðin mikill sérfræðingur í að leika börn. Fín notkun á fallhlíf og myndvarpa skapaði skemmtilega umgjörð, ég var meira efins um Volkswagenbjölluna sem var þungamiðja leikmyndarinnar, út á eina atriðið í leikritinu sem var óþarfur útúrdúr. Og skildi heldur ekki tilganginn með flyglinum sem tók bæði pláss og athygli án þess að vera notaður svo neinu nemi.

Semsagt: Tengdó og Godot. Tvær stórgóðar leiksýningar af gjörólíkum toga, tengdar saman af næsta ómerkilegu tækniatriði sem á endanum skipti ekki nokkru máli. Ég hlakka svo til að sjá Halldóru og Ólafíu sem Jagó og Óþelló, og Val Frey sem Desdemónu.