laugardagur, mars 10, 2007

Ást

Vesturport og Borgarleikhúsið Höfundar: Gísli Örn Garðarsson og Víkingur Kristjánsson, leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson. Tónlistarstjórn: Pálmi Sigurhjartarson, hljóðblöndun: Sigurvald Ívar Helgason. Leikmynd: Börkur Jónsson, búningar: Stefanía Adolfsdóttir, leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir, lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikendur: Charlotte Böving, Elías Árnason, Guðlaug Friðriksdóttir, Guðríður Pálsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Hjördís Sigurðardóttir, Jette Svava Jakobsdóttir, Jóhanna Baldursdóttir, Kolbrún Jónsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Magnús Ólafsson, Ómar Ragnarsson, Pétur Einarsson, Ragnar Gylfi Einarsson, Skapti Ólafsson, Sveinn Kjartansson, Theódór Júlíusson, Úlfhildur Geirsdóttir og Víkingur Kristjánsson, Borgarleikhúsinu 10. mars 2007.

Gott hvað gamlir kveða


AÐFERÐIN við að setja saman verk eins og Ást er vel þekkt og hefur t.d. undanfarin tíu ár eða svo orðið að nokkurskonar heimilisiðnaði í framhaldsskólum landsins. Á köflum var alveg hægt að telja sjálfum sér trú um að maður væri staddur í fjarlægri framtíð á samkomu aldraðra verslóstúdenta að rifja upp gamla takta.

Og sömu fyrirvarar gilda í sjálfu sér um þessa sýningu og margar stórsýningar skólanna. Hér er ekki lagt á djúpið í listinni, heldur sögð einföld ástarsaga með hjálp þekktra dægurlaga. Það er ekki staldrað við þróun persóna, kraftmikil hvörf gegna ekki lykilhlutverki. Frá einhverjum sjónarhóli er þetta frekar lítilsiglt alltsaman.

En svo er það X-faktorinn. Það sem gerir gæfumuninn. Og það er ekki hin ótrúlega samansafnaða reynsla, skólun og fagmennska sem þó er til staðar hjá lykilþátttakendum hér, og skiptir auðvitað líka máli. Gæfumunurinn er í hjartanu í sýningunni. Það er með einlægninni, hlýjunni og áreynsluleysinu sem gegnsýrir stílinn og frásagnarmátann sem Gísli Örn og allt hans lið lyftir sýningunni upp úr „sjómennskunni“ og gerir hana áhrifaríka, nærgöngula og eiginlega alveg ómótstæðilega.

Sagan er einföld og hefur oft verið sögð. Maður og kona sem komin eru af léttasta skeiði fella hugi saman, og koma eiginlega sjálfum sér mest á óvart með því. Og þau þurfa að glíma við mótstöðu þeirra sem ætla öldruðum fyrst og fremst tíðindalaust ævikvöld. Og kannski verður ástin enn magnaðri þegar hún nær að taka fram fyrir hendurnar á svona lífsreyndu fólki, sem auk þess veit að tíminn er ekki endilega langur sem framundan er.

Það eru semsagt þau Nína og Sigurjón sem eru í forgrunninum. Magnús Ólafsson er áreynsluleysið uppmálað sem hinn roskni Rómeó og Kristbjörg Kjeld er framúrskarandi í hlutverki sínu, þó ekki sé nú alveg auðvelt að trúa að þar fari sveitastúlka. Vandi sem liggur ekki síður í handritinu og auk þess sennilega bara staðalmyndakredda í mér. Mögnuðust þykir mér Kristbjörg í söngvum sínum, þar sem textanæmi hennar nýtur sín og jafnvel lágkúrulegasta poppmærð öðlast persónulega merkingu. Það er enda ekki að sökum að spyrja þegar hún fær til flutnings meistaraverk Megasar, „Tvær stjörnur“. Magnað.

Fleiri eiga góðan dag. Theodór Júlíusson er frábær í sinni glansrullu sem maðurinn sem er kominn út úr heiminum og tónlistin dregur til mannheima skamma stund. Hanna María Karlsdóttir sterk í hlutverki konunnar sem hefur bægt ástinni frá sér, en vera má að hlutverkið sé dálítið vanskrifað. Það sama má kannski segja um sögumannshlutverk Péturs Einarssonar.

Það er vandasamur snóker sem Gísli Örn leggur fyrir æðiberið Ómar Ragnarsson, sem situr hljóður og mikið til hreyfingarlaus mestalla sýninguna. Enda var á allri framgöngu Ómars í hlutverkinu að sjá að hann þráði ekkert meira en miðla þeim tilfinningum sem handritið meinaði honum að tjá. Sem rímaði fullkomlega við persónuna, sem er eins og ástarengill sem kveikir rómantík í brjóstum annarra en nýtur hennar ekki sjálfur.

Yngri deildin, þau Charlotta Böving og Víkingur Kristjánsson, skila sínum hlutverkum vel. Sonur Nínu er reyndar ótrúverðugasta persóna verksins, en ábyrgðin á því liggur miklu frekar hjá handritshöfundinum Víkingi en leikaranum, sem beitir sinni þjálfuðu skopleikarahæfni til að berja í brestina og tekst það vel.

Þá er ónefndur Skafti Ólafsson sem fer lýtalaust með sína litlu rullu og á aukinheldur skuldlausan einn hápunkt sýningarinnar, þegar hann syngur þá jöskuðu perlu „Perfect day“, og gerir að sinni. Flutningurinn sjálfur og samhengið sem hann er settur í er eitthvað fallegasta atriði sem ég hef séð á sviði lengi.

Aukahlutverkin gefa svo fimlega og fumlaust til kynna bakgrunn sögunnar.

Tónlistarvalið í sýningunni er eitt helsta einkenni hennar. Gísli Örn talar um að ein af hugmyndakveikjunum hafi verið kór eldri borgara sem flytji nútímalega rokktónlist, og grunar mig að þar vísi hann til hins rómaða ameríska flokks Young@Heart, sem einhver ætti að taka sig til og bjóða hingað sem fyrst. Sem betur fer er áherslan hér frekar á að þjóna sögunni en að ná ódýrum áhrifum af árekstri fullorðins fólks við ungæðislega tónlist. Langoftast gegnir lagavalið hlutverki sínu, stundum á innblásinn hátt, eins og í fyrrnefndum lögum og þegar „Nowhere man“ er notað til að lýsa hlutskipti Alzheimersjúklings. Flutningur er alltaf öruggur og á stundum frábær. Samspil Pálma Sigurhjartarsonar við leikhópinn og undirleik af bandi var eiginlega lygilega öruggt.

Umgjörðin er snjöll hjá Berki Jónssyni, lýsing og búningar gegndu sínu hlutverki vel.

Frægasti leikhúsrýnir nútímans, Kenneth Tynan, endaði frægan dóm sinn um Horfðu reiður um öxl með þeim orðum að hann gæti sennilega ekki elskað neinn sem ekki kærði sig um að sjá verkið. Auðvitað er ólíku saman að jafna, en þó hygg ég að sá sem verður ósnortinn af töfrum þessarar sýningar ætti frekar að leita skýringanna á því í sjálfum sér en í henni.