sunnudagur, febrúar 25, 2007

Bar Par

NASA
Nasa 25. febrúar 2007

Höfundur: Jim Cartwright, þýðandi: Guðrún J. Bachmann, leikstjóri: Gunnar Gunnsteinsson, leikmynd: Vignir Jóhannsson, búningar: María Ólafsdóttir.
Leikendur: Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og Steinn Ármann Magnússon.

Kráarsamfélag


VIÐ fyrstu sýn gæti Bar Par virkað sem hið fullkomna viðfangsefni fyrir þessa leikara, og þessar forsendur. Tveir dáðir grínistar, fullt af skrítnum týpum, fyndinn texti, gerist á bar, tækifæri til að „fara á kostum“.

Verkið segir semsagt frá hjónum sem reka bar, eða réttara sagt enskan pöbb, og gestunum sem þangað reka inn nefið. Mikið og skrautlegt gallerí kemur fram, og svo er greinilega eitthvað í fortíð bar-parsins sjálfs sem hefur eitrað samband þeirra árum saman, og hlýtur að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Og allt er þetta leikið af tveimur leikurum.

En ekkert gerist af sjálfu sér, og því miður eru þess of skýr merki í sýningunni að hér hafi bæði verið kastað til höndum og dómgreindarskortur ráðið för.

Fyrir það fyrsta þá liggur styrkur þeirra Steins Ármanns og Guðlaugar sem gamanleikara að mínu mati alls ekki í því að skapa fjölbreyttar persónur á skýran og trúverðugan hátt. Sem er grundvallaratriði. Þau hafa ýmislegt með sér sem gamanleikarar. Tímasetningu, sviðssjarma og tækni. En þetta geta þau ekki. Guðlaug er skondin sem fávís ljóska með fjölþreifinn mann, en gamlar kellingar og kúgaðar konur eru ekki í galleríinu hennar. Og auðvitað er hlægilegt að sjá Stein taka töffaratakta, eða láta sem hann, erkitöffarinn, sé pínulítill kall. En hann getur ekki stillt sig um að reyna líka að vera fyndinn sem ofbeldismaðurinn, og drepur þá mögnuðu senu fyrir vikið.

Bæði eru þau síðan úti að aka í hinum dásamlega tvíleik geðfötluðu fitukeppanna. Fráleit gervin hjálpuðu vitaskuld ekki neitt.

En verst er þó að það er meira í verkinu en tóm fíflalæti, og á því prófi falla þau bæði, en þó einkum leikstjórinn. Hér er áreynslan við að skemmta áhorfendum alltof sýnileg, sem sprengir botninn á verkinu, sem fyrir vikið verður hvorki áhugavert né fyndið. Áreynslan verður of mikil. Þetta kemur verst niður á hinum klisjulega dramatíska hápunkti, helstu synd höfundarins. Afhjúpun fjölskylduleyndarmálsins mikla í lífi parsins sem rekur barinn krefst þess af leikurunum að þau lifi þjáninguna í botn, séu einlæg og heit í túlkun sinni á melódramanu. Allt annað mun virka eins og svik.

Og þannig virkaði uppgjörið á frumsýningunni. Lengst af stóðu leikararnir ekki með persónunum sínum, heldur vildu fyrst og fremst sýna okkur hvað þær væru hlægilegar. Og þegar til átti að taka voru engar persónur til að túlka, heldur bara skopmyndir sem enginn leið var að finna til með.

Hráslagaleg og vanhugsuð umgjörðin hjálpaði ekki, né heldur skortur á snerpu í skiptingum sem vel má vera að náist að laga síðar.

Ég efast samt um að rútínering sýningarinnar nái að eyða þeirri óþægilegu tilfinningu að hér hafi verið kastað til höndunum listrænt séð, í von um að búa til kassavænt skemmtiefni. Sem lýsir aftur ótrúlegri glámskyggni á hina húmanísku ljóðrænu í verkinu sem hér mistekst að miðla áhorfendum.