laugardagur, október 28, 2006

Herra Kolbert

Leikfélag Akureyrar. Höfundur: David Gieselmann, þýðandi Bjarni Jónsson. Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson, leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir, lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson, tónlist og hljóðmynd: Hallur Ingólfsson, gervi: Ragna Fossberg. Leikendur: Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Samkomuhúsinu á Akureyri 28. október 2006.

Ef þú hefur ekki drepið þá hefurðu ekki lifað 


UNGT par býður öðru ungu pari í mat. Fljótlega kemur í ljós að heimilisfólkið hefur gaman af valdataflsleikjum og sálfræðistríði og láta sem þau hafi myrt samstarfsmann stúlknanna sér til afþreyingar og lífsfyllingar og komið líkamsleifum hans fyrir í kistu í stofunni. Er það satt eða ekki? Af þessu spinnst atburðarás þar sem ofbeldi og ólíkindalegur húmor eru í brennipunkti og væri engum greiði gerður ef hún væri rakin frekar.

Herra Kolbert á sér marga forfeður og sækir til þeirra ýmis einkenni, atburði og afstöðu. Dauður maður í kistu vekur upp hugrenningatengsl við Rope eftir Hitchcock, bernsk siðblindan á sér forföður í absúrdistanum Fernando Arrabal og húmorinn sækir svarta litinn og sitthvað fleira í smiðju meistara Joe Orton. Og ekki má gleyma einu leiðarstefi verksins, upprifjun firrta kærustuparsins á þeirri vanmetnu kvikmynd Falling Down, um rangskreiðan réttlætisriddara sem fær nóg af mótlætinu í umferðarteppunni einn daginn og leggur upp í blóði drifið ferðalag. En þau Ralf og Sara hafa ekki áhuga á innihaldi, lærdómum eða boðskap. Það eina sem pirrar þau við framgöngu Michaels Douglas í myndinni (eða persónunnar réttara sagt) er sá dramatúrgíski tæknifeill að hann var með óútskýrða byssu í bílnum. Í sjálfu sér mætti taka Herra Kolbert sömu tökum og finna því það eitt til foráttu að tiltekið bank frá tilteknum stað sem gegnir lykilhlutverki í fléttunni á sér enga rökræna skýringu. Er galli, nánar tiltekið. En við ætlum ekki að stoppa við það.

Byrjum frekar á að segja að sýningin er frábærlega vel unnin. Leikmyndin og lýsingin eru rosalega flottar á sinn klisjulega Innlit-útlithátt, tónlistin sömuleiðis. Allt ferli og leikaranna í rýminu lipurt og eðlilegt, gervi, slagsmál og aðrar tæknibrellur fullkomlega heppnaðar. Leikararnir hver öðrum öruggari í rullum sínum og þó þær kalli fæstar á einlægni eða djúpa innlifun, nema þá eins og fyrir tilviljun eða sem markvisst og írónískt stílbragð, þá verður að taka ofan af fyrir hópnum fyrir að skila því sem í verkinu býr svona vel og áreynslulaust.

En hvað býr í verkinu? Ekki eins mikið og það heldur, myndi vera stutta svarið frá mér. Til þess er það of stílfært, persónurnar of einhliða og löngunin til að skemmta og ganga fram af áhorfendum of oft í ekilssætinu. Til þess að við höfum eitthvað gagn af því að sjá venjulegt fólk missa stjórn á villidýrinu í sér af einskærum lífsleiða þarf fólkið nefnilega helst að vera – venjulegt fólk. Að öðrum kosti er svo sem ekki meira að sækja þangað um firringu nútímamannsins en í Tomma og Jenna. Sjálfsagðir hlutir. En fyndið er það. Þó það nú væri. Drepfyndið á köflum. Bæði er nú alltaf gaman af taumleysi og óskammfeilni, og svo eru tímasetningar leikaranna afbragð. Reyndar væri verkið enn fyndnara ef það styddist ekki bara við þessi element, heldur hefði líka sterka fléttu sem hryggjarstykki. En því er ekki að heilsa, of oft er eins og það sem kveikir næsta samtal sé ekki ætlan eða vilji persónanna heldur þörf leikskáldsins til að fylla upp í kvöldstundina.

Flottur leikur. Og bitastæðasta hlutverkið kannski það sem á sterkasta enduróminn, en ekki hvað. Gísli Pétur er framúrskarandi sem vitgranni skapofsamaðurinn með siðferðiskenndina. Guðjón Davíð algerlega á heimavelli sem gestgjafinn. Það sama má segja um Eddu Björgu og Unni Ösp, þó það sæki nú reyndar að mér sú hugsun að báðar mættu fara að gæta sín á að festast ekki um of í kækjum og stílbrögðum, Edda sem þunna ljóskan og Unnur sem pósandi tálkvendi. En það hentar hér og allt í góðu. Ólaf Stein hef ég ekki séð gera betur en fínlega unnið hlutverk pizzusendilsins.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að hér hafi Leíkfélag Akureyrar hitt í mark og eignast fyndna og hæfilega ögrandi sýningu sem gaman er að spjalla um í góðra vina hópi að henni lokinni. Bara ekki búast við að hún kveiki nýjar hugsanir, eða segi ferskan sannleika um samfélag okkar. Þó hún þykist gera það. Það er ekki allt sem sýnist á þessu heimili.