The Worst of Eric Bogosian
Flytjandi: Eric Bogosian, leikstjóri: Jo Bonney. Act Alone, leiklistarhátíð á Ísafirði fimmtudaginn 29. júní 2006.
Einn síns liðs
ÁÐUR en sýningu Erics Bogosians verða gerð skil er óhjákvæmilegt annað en víkja nokkrum orðum að einleikjahátíðinni Act alone, þessu ótrúlega einkaframtaki Elvars Loga. Hann heldur nú þessa alþjóðlegu leiklistarhátíð í þriðja sinn á jafnmörgum árum, með tólf sýningum, tveimur námskeiðum og þremur erlendum gestum. Hátíðin hefur ekki farið sérlega hátt í menningarumræðunni hingað til, en núna er svo sannarlega ástæða til að blása í lúðra og hvetja leiklistaráhugafólk um allt land til að sækja Ísafjörð heim að ári, því ekkert bendir til annars en Act alone sé komin til að vera. Fjölbreytnin er mikil; barnaefni, trúðleikur, söguleg verk. Flytjendur hafa ólíkan bakgrunn, sumir hafa leiklistarmenntun, aðrir ekki, sumir flytja eigin ritsmíðar, sumir túlka verk annarra.
Opnunarsýning og skrautfjöður hátíðarinnar að þessu sinni var The worst of Eric Bogosian. Bogosian þessi er amerískur einleikari með glæstan feril að baki sem sýningin veitir ágætis yfirlit yfir, enda byggð upp af atriðum úr fyrri verkum hans. Af þessum sýnishornum að dæma er hann mikill heimsósómahöfundur, en atriðin voru öll í tóntegund kaldhæðinnar ádeilu á mannlega breyskleika, trúarbrögð, græðgi og heimsku. Reyndar átti sýningin öll meira skylt við uppistand en einleik í skilningi leikhússins, þó svo í sumum atriðum væri það sem kalla má persónusköpun var algengara að Bogosian hellti einfaldlega úr skálum hneykslunar sinnar á ástandi heimsins og innræti mannsins í eigin persónu. Og að sjálfsögðu er ekkert við þá nálgun að athuga þegar jafn flinkur maður er að verki og hér um ræðir.
Eric Bogosian, sem er einstaklega orkuríkur flytjandi og hefur frábært vald á efni sínu, brunaði í gegnum prógrammið á miklum hraða og krafti. Vera má að meiri tilbreyting í styrk og hraða hefði aukið áhrifamátt hvers atriðis fyrir sig og þannig sýningarinnar í heild, sérstaklega síðustu atriðanna þar sem linnulaus flaumurinn af orðum, hugmyndum, bröndurum og ádeilu var óneitanlega farinn að deyfa móttökutæki undirritaðs. Þarna hefði líka hjálpað ef samband leikarans við áhorfendur hefði verið örlítið skýrara og sterkara, nokkuð sem uppistandsformið eiginlega krefst ef vel á að vera.
En þrátt fyrir þessar aðfinnslur þá var megnið af kvöldinu bráðfyndið og beitt. Eftirminnileg er óvægin afgreiðsla Bogosians á kristinni trú, svo og á hugleiðsluiðnaðinum. Frá hreinræktuðu leiklistarsjónarmiði var hápunkturinn sennilega miðaldra dóphausinn sem Bogosian leyfði sér að sýna næsta hlutlaust og eftirlét áhorfendum það verkefni að dæma hann. Það var líka athyglisvert hvað þétt setinn salurinn átti auðvelt með að grípa innihaldið þrátt fyrir snerpuna í flutningnum og þrátt fyrir hvað mikið af innihaldinu var í raun sér-amerískt. Sýnir sennilega hve menningarleg áhrif vina okkar í vestrinu eru gríðarleg, þeirra raunveruleiki er okkur það nálægur að við getum notið þess að heyra honum ögrað á þennan hátt.
The worst of Eric Bogosian var skemmtileg sýning, kraftmikil, fyndin og beitt, og gaf vonandi tóninn fyrir áframhaldið á þriðju einleikjahátíð Elvars Loga Hannessonar.
Einn síns liðs
ÁÐUR en sýningu Erics Bogosians verða gerð skil er óhjákvæmilegt annað en víkja nokkrum orðum að einleikjahátíðinni Act alone, þessu ótrúlega einkaframtaki Elvars Loga. Hann heldur nú þessa alþjóðlegu leiklistarhátíð í þriðja sinn á jafnmörgum árum, með tólf sýningum, tveimur námskeiðum og þremur erlendum gestum. Hátíðin hefur ekki farið sérlega hátt í menningarumræðunni hingað til, en núna er svo sannarlega ástæða til að blása í lúðra og hvetja leiklistaráhugafólk um allt land til að sækja Ísafjörð heim að ári, því ekkert bendir til annars en Act alone sé komin til að vera. Fjölbreytnin er mikil; barnaefni, trúðleikur, söguleg verk. Flytjendur hafa ólíkan bakgrunn, sumir hafa leiklistarmenntun, aðrir ekki, sumir flytja eigin ritsmíðar, sumir túlka verk annarra.
Opnunarsýning og skrautfjöður hátíðarinnar að þessu sinni var The worst of Eric Bogosian. Bogosian þessi er amerískur einleikari með glæstan feril að baki sem sýningin veitir ágætis yfirlit yfir, enda byggð upp af atriðum úr fyrri verkum hans. Af þessum sýnishornum að dæma er hann mikill heimsósómahöfundur, en atriðin voru öll í tóntegund kaldhæðinnar ádeilu á mannlega breyskleika, trúarbrögð, græðgi og heimsku. Reyndar átti sýningin öll meira skylt við uppistand en einleik í skilningi leikhússins, þó svo í sumum atriðum væri það sem kalla má persónusköpun var algengara að Bogosian hellti einfaldlega úr skálum hneykslunar sinnar á ástandi heimsins og innræti mannsins í eigin persónu. Og að sjálfsögðu er ekkert við þá nálgun að athuga þegar jafn flinkur maður er að verki og hér um ræðir.
Eric Bogosian, sem er einstaklega orkuríkur flytjandi og hefur frábært vald á efni sínu, brunaði í gegnum prógrammið á miklum hraða og krafti. Vera má að meiri tilbreyting í styrk og hraða hefði aukið áhrifamátt hvers atriðis fyrir sig og þannig sýningarinnar í heild, sérstaklega síðustu atriðanna þar sem linnulaus flaumurinn af orðum, hugmyndum, bröndurum og ádeilu var óneitanlega farinn að deyfa móttökutæki undirritaðs. Þarna hefði líka hjálpað ef samband leikarans við áhorfendur hefði verið örlítið skýrara og sterkara, nokkuð sem uppistandsformið eiginlega krefst ef vel á að vera.
En þrátt fyrir þessar aðfinnslur þá var megnið af kvöldinu bráðfyndið og beitt. Eftirminnileg er óvægin afgreiðsla Bogosians á kristinni trú, svo og á hugleiðsluiðnaðinum. Frá hreinræktuðu leiklistarsjónarmiði var hápunkturinn sennilega miðaldra dóphausinn sem Bogosian leyfði sér að sýna næsta hlutlaust og eftirlét áhorfendum það verkefni að dæma hann. Það var líka athyglisvert hvað þétt setinn salurinn átti auðvelt með að grípa innihaldið þrátt fyrir snerpuna í flutningnum og þrátt fyrir hvað mikið af innihaldinu var í raun sér-amerískt. Sýnir sennilega hve menningarleg áhrif vina okkar í vestrinu eru gríðarleg, þeirra raunveruleiki er okkur það nálægur að við getum notið þess að heyra honum ögrað á þennan hátt.
The worst of Eric Bogosian var skemmtileg sýning, kraftmikil, fyndin og beitt, og gaf vonandi tóninn fyrir áframhaldið á þriðju einleikjahátíð Elvars Loga Hannessonar.
<< Home