laugardagur, apríl 01, 2006

Kraftaverk
Jesús Kristur súperstjarna
Höfundar: Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Stjórnandi: Erla Þórólfsdóttir. Menntaskólanum á Akureyri 1. apríl 2006

ÞEIR Webber og Rice nýta sér til fullnustu þá forgjöf að hvert mannsbarn þekkir söguna. Leitun er að jafnkæruleysislega uppbyggðri dramatískri frásögn og Jesú Kristi súperstjörnu, en það gerir næsta lítið til. Öllu verra er að kyngja því sem þeir hafa helst til málanna að leggja: samansemmerkið milli leiðtoga lífsins og frægðardýrkandi stjörnumenningar nútímans er bæði ósmekklegt og einkennilega ófrjótt. Sem betur fer kemur það heldur ekki svo að sök. Svo mikið gengur yfirleitt á í tónlistinni að fínni blæbrigði textans drukkna í tónhafinu.

Eftir standa magnaðir dramatískir viðburðir og einhver glæsilegasta tónlist sem um getur í léttari hluta tónlistarleikhúss síðustu aldar. Eftir á að hyggja er varla skrítið þótt Webber tækist aldrei að toppa þetta.

Mesta hrifningu mína á sýningu framhaldsskólanna á Akureyri vakti hljómsveitin. Mig skortir smásmygli til að hafa nokkuð út á hana að setja. Og það er eiginlega fáránlegt, því hún er eins og önnur skiprúm á þessari skútu skipuð nemendum skólanna eingöngu. Á svona nokkuð að vera hægt? Það eina sem lýtur að tónlistarflutningi sem hægt er að hafa á hornum sér er að jafnvægi milli uppmagnaðrar hljómsveitar og einsöngvara annars vegar og kórsins hins vegar er ekki til staðar. Hinn fjölskipaði kór drukknar alfarið í undirleiknum og virkar því ómaklega máttlaus. Kannski óyfirstíganlegt vandamál, en óneitanlega bagalegt því kraftur og sterk nærvera er annars höfuðeinkenni sýningarinnar.

Það verður að taka ofan fyrir hinum óreynda leikstjóra sýningarinnar fyrir hve lífræn og litrík hópatriðin eru. Og náttúrlega meðlimum hópsins, því fumleysi og áreynslulausa nærveru er ekki hægt að búa til utan frá. Reyndari leikstjóri hefði ekki gert þetta betur, en hefði hins vegar áreiðanlega stundum tekið aðrar ákvarðanir um staðsetningar og stefnu leikenda, sem of oft þurftu að beina orðum sínum uppsviðs, í öruggri vissu um að hljóðkerfið skilaði söng þeirra til áhorfenda. En í leikhúsi dugir það ekki til.

Annað sem lýtir sýninguna nokkuð er hinn háspennti, allt að móðursýkislegi leikstíll sem einkennir framgöngu aðalleikendanna. Það hefði þurft að setjast með nokkrum þunga ofan á Jesús og Júdas, sérstaklega í fyrri hlutanum, svo eitthvað væri nú eftir af örvæntingu til að sýna þegar skelfingar leikslokanna dynja yfir. Og eins hefði örlítið meiri hófstilling í útfærslu písla Krists ekki rýrt áhrifamátt sögunnar. Leið Mel Gibson er ekki eina leiðin.

Söngurinn er í heildina alveg óleyfilega flottur. Hver einasta sólóstrófa pottþétt, og helstu glansnúmer glansa. Enginn skín þó skærar en Eyþór Ingi Gunnlaugsson í hlutverki Frelsarans. Mögnuð þungarokkstilþrif af gamla skólanum þegar á þarf að halda, yfirvegun og fókus þess á milli.

Í lokin verður svo að setja aðeins ofan í við norðanmenn fyrir að geta ekki þýðenda verksins í annars vel gerðri leikskránni. Þetta er þeim mun klaufalegra en ella þar sem ég gat ekki betur heyrt en þetta væri hin ágæta eyfirska þýðing Hannesar Blandon og Emelíu Baldursdóttur. Svona gerir maður ekki.

En þetta er flott sýning þar sem fágun og fagmennska helst í hendur við ungæðislegan kraft. Grettistak. Kraftaverk.

Þorgeir Tryggvason