laugardagur, mars 04, 2006

Pétur Gautur

Höfundur: Henrik Ibsen. Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Páll Ragnarsson. Hljóðmynd: Sigurður Bjóla og Ester Ásgeirsdóttir. Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Baltasar Kormákur. Leikendur: Björn Hlynur Haraldsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Ólafur Darri Ólafsson. Frumsýnt í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins, 4. mars 2006

Aaahhh …


TIL skýringar skal þess getið að „aaaahhh“ … er alþjóðlegt fræðihugtak og notað um tilfinninguna sem fer um áhorfendur, sérstaklega gagnrýnendur, þegar þeim er komið ánægjulega á óvart.

Síðustu afrek Baltasars í túlkun klassískra verka í Þjóðleikhúsinu gáfu mér satt að segja ekki tilefni til bjartsýni varðandi uppfærslu hans á Pétri Gaut. Það sama má segja um þá sérkennilegu fullyrðingu hans í viðtali í tímariti Þjóðleikhússins, Fjórða veggnum, að sýningin væri „spuni út frá verki Ibsens“. Eins hringdu aðrar yfirlýsingar hans í viðtalinu aðvörunarbjöllum, þar sem hann reynir í löngu máli að fría sig allri gagnrýni sem lýtur að því að sýningin taki ekki nægilegt mið af verki höfundarins.

Það var því áhyggjufullur aðdáandi verksins sem settist niður í nýja kassanum Þjóðleikhússins á laugardagskvöldið og beið óþreyjufullur meðan mannvirkið var vígt. Yrði þetta enn ein sýningin þar sem leikstjóri og verk fara á mis? Þar sem leikstjórinn hefur enga trú á efnivið sínum, en langar að segja eitthvað sem ekki er að finna í verkinu og útkoman er flatneskja þar sem hvorki höfundur né leikstjóri nær nokkru sambandi við áhorfendur?

Ónei. Hér gengur allt upp.

Leikritið er eitthvert það magnaðasta sem skrifað hefur verið, alveg áreiðanlega meistaraverk Ibsens. Hef aldrei skilið hvernig hann nennti að skrifa stofudrömun sín eftir þetta margslungna og risavaxna leikljóð um flóttann frá og leitina að sjálfum sér.

Þýðing Karls Ágústs er frábær. Lipurlega kveðin, snjöll og hnyttin og – frumskilyrði ljóðleikjaþýðinga – nægilega auðskilin til að hugsunina í henni megi grípa í fyrstu atrennu. Það hjálpar að hugsunin í verkinu er ekki snúin, bara djúp.

Grunnhugsun og handritsvinna leikstjórans og samstarfsfólks hans er glæsilegt verk. Leikrit eins og Pétur Gautur kallar á styttingu og umstöflun og þolir hana vel. Útkoman hér er afskaplega skýrt ferðalag í gegnum ævi lygalaupsins og smámennisins, sem hefst á dauðastund hans og sýnir í vel völdum svipmyndum hvers vegna örlög hans eru að „leysast upp í læðing“ í deiglu hnappasteyparans. Eilíft líf er ekki til, því miður, og verkefnið er að sætta sig við deigluna. Að verða sjálfum sér líkur er að deyða sjálfan sig. Pétur Gautur er fyrsta búddíska leikritið á Vesturlöndum.

Innblásin samþjöppunarhugmynd hjá Baltasar að slá saman brúðinni á Heggstað og Sólveigu, og síðar Afstyrminu og Beygnum. Gerir ekkert nema styrkja sýninguna.

Leikmynd Gretars Reynissonar er eitursnjöll og styður fullkomlega við grunnhugsun leikstjórans. Hvíta flísaumhverfið með plasttjöldunum sem opna og loka rýmum til hliðar og aftan til tekur áreynslulaust á sig mynd líkhúss, fiskvinnslu, elliheimilis, gufubaðs og geðsjúkrahúss. Og hljóðið sem heyrist í hvert skipti sem líkbörunum er rennt eftir gólfinu er eins og fjarlægar þrumur. Magnað.

Tónlistarnotkun hófstillt og hugmyndarík, lýsing Páls Ragnarssonar áhrifamikil, búningar Helgu I. Stefánsdóttur látlausir, stílhreinir og réttir.

Það sem einkennir sýninguna alla er að hún nær að vera bæði alveg raunsæ en gefa um leið undir fótinn þeim táknrænu vísunum sem búa í verkinu. Það er ótrúlega sjaldgæft að sjá sýningu á klassísku verki með heimspekilegu innihaldi tekna þannig tökum. Enginn hátíðleiki, engin mötun á innihaldinu. Bara saga af fólki sem lendir í lífinu eins og það gerist verst. Ef hópurinn nálgast verkið með opin augu og finnur samhljóm milli þess og hugmynda sinna mun boðskapurinn sjá um sig sjálfur.

Til viðbótar við skýra og sterka grunnhugsun er sýningin síðan algerlega morandi af einstökum snjöllum hugmyndum og lausnum sem freistandi er að telja upp og lýsa til að færa rök fyrir máli sínu. Það ætla ég samt ekki að gera og spilla fyrir upplifun leikhúsgesta. Verð þó að segja að nuddolían í vopnasöluatriðinu kom út á mér gæsahúð, innkoma Sólveigar eftir dofraævintýri Péturs er einhver fallegasta skyndimynd sem ég hef séð í leikhúsi og mikið var gaman að sjá fisk á íslensku leiksviði, þótt það hefði verið ómaksins vert að kenna sumum leikurunum handtökin við flökun.

Og víkur þá sögunni að leikurunum. Sá óhátíðlegi blær sem einkennir sýninguna gefur þeim færi á fínlegri og blæbrigðaríkri nálgun sem þau nýta sér af stakri snilld. Allir blómstra. Engum skilar þessi afslöppun betri forgjöf en Birni Hlyni, sem verður ákaflega trúverðugur ráðvilltur strákur með of liðugan talanda og óþarflega þróaða hæfileika til að stytta sér leið í lífinu. Ég er ekki viss um að Björn hefði notið sín í hástemmdari sýningu, og sennilega á hann eftir að ná betri tökum á ljóðmálinu sem stundum tók af honum völdin eins og illa tamið hreindýr. En í samhengi sýningarinnar skilar túlkun Björns sannfærandi Pétri sem stendur okkur nærri.

Ingvar E. Sigurðsson er magnaður í sínum tveimur hlutverkum, hnappasteyparinn kaldur og fagmannlegur, afkvæmi Gauts og dofradóttur enn eitt dæmi um magnaða líkamstjáningu Ingvars. Dofradóttirin afar eðlileg hjá Guðrúnu S. Gísladóttur og faðir hennar mergjaður eins og við mátti búast af Ólafi Darra. Þrumuraust hans ekki verið nýtt á jafn áhrifaríkan hátt síðan í Rómeó og Júlíu. Ólafur Egill Egilsson brillerar sem sá magri og enginn stendur honum á sporði í meðferð bundins máls. Edda Arnljótsdóttir skilar sínum litlu pörtum óaðfinnanlega.

Brynhildur Guðjónsdóttir er auðvitað yndisleg Sólveig, fínleg og draumkennd en líka raunveruleg. Senan þeirra Björns þegar þau hafa ruglað reytum er ákaflega falleg, en líka algerlega raunsæ. IKEA-draumur.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur ekki hreyft jafn rækilega við mér síðan í Ljósi heimsins. Hin meðvirka móðir Péturs verður algerlega heilsteypt persóna í þessum þremur senum sem hún sést í og lokasenan hennar er svo falleg, skopleg og sönn að kökkur myndast í hörðustu karlmannshálsum.

En að öllum einstaklingsafrekum slepptum er samvinna leikhópsins mikilvægasta einingin í því að gera sýninguna svona áhrifaríka. Um leið og einhver sleppir keflinu er sá næsti búinn að grípa það. Hærra, hraðar, alla leið í mark.

Pétur Gautur Baltasars og Þjóðleikhússins er besta sýning á klassísku verki sem ég hef séð.