fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Maríubjallan

Leikfélag Akureyrar Höfundur: Vassily Sigarev, þýðing: Árni Bergmann, leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson, aðstoðarleikstjóri: Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir, lýsing: Björn Bergsveinn Guðmundsson, tónlist: Hallur Ingólfsson. Leikendur: Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Esther Thalía Casey, Guðjón Davíð Karlsson, Guðjón Þorsteinn Pálmason, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þráinn Karlsson. Akureyri 16. febrúar 2006.

Rússland í dag


AF ÞVÍ sönnunargagni sem Maríubjallan er að dæma er ég ekki viss um að Vassily Sigarev sé sérlega gott leikskáld á „faglegum“ mælikvarða. Í samanburði við ensku „InYer-Face“ leikskáldin sem hann tekur sér klárlega til fyrirmyndar þá skortir hann skáldlega sýn Söruh Kane eða Philip Ridley, þjóðfélagsgreiningu Marks Ravenhill og byggingartækni Lee Hall eða Martin McDonagh. Maríubjallan er dálítið klunnalegt leikrit, uppbyggingin bæði gamaldags og heldur ónákvæm, meðferð tákna frumstæð og að mínu mati ekki sérlega áhrifarík.

En það sem Vassily Sigarev hefur nokkuð sem þau hafa ekki: hann horfir á efnivið sinn út um herbergisgluggann sinn í Yekaterinburg. Eymdina og ofbeldið sem áfallastreituröskun umbyltingarinnar í Rússlandi hefur getið af sér. Þar sem hroðalegir viðburðirnir í verkum Bretanna hafa alltaf á sér einhvern fjarlægan „skáldlegan“ blæ iðar leikrit Sigarevs af þeim lífgjafa sem snerting við raunveruleikann gefur. Hann hefur drukkið með þessu fólki og sloppið út til að segja frá.

Nálægð höfundarins við viðfangsefni sín eyðir líka algerlega óþægilegri tilfinningu sem sumir fyrrnefndra höfundar vekja stundum, að þeir séu að velta sér upp úr óhugnaði áhrifanna vegna. Við getum verið alveg viss um að það er þörf til að lýsa veruleikanum sem knýr penna Vassilys Sigarevs.

Maríubjallan lýsir einu kvöldi í hreysi feðganna Dímu og Posa. Það á að halda partí því Díma er að fara í herinn, enda að engu að hverfa í bænum og eina fjáröflunarleiðin, að selja minnismerkin úr kirkjugarðinum í brotajárn, að verða uppurin. Gestirnir eru smámellan Lera, háskólastúdentinn Júlka frænka hennar, sem stendur ofar í þjóðfélagsstiganum, smákrimminn Arkasha og Slavik, dópisti sem býr hjá feðgunum.

Öll framvinda hverfist síðan um tilraunir persónanna til að fullnægja frumstæðum neysludraumum sínum. Hvað ertu tilbúinn að ganga langt til að koma höndum yfir það sem þig langar í? Og hvort þykir þér vænlegra að níðast á sjálfum þér eða öðrum til að ná því markmiði? Kunnuglegt efni sem oft hefur verið betur skrifað um en verður hér kveikja að ansi hreint sterkri og áhrifaríkri sýningu.

Umgjörðin er hreint afbragð. Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur er glæsilega nöturleg og hún nýtir hið nýja leikrými Leikfélags Akureyrar afar vel. Það er mikil stemning í lýsingu Björns Bergsveins Guðmundssonar og tónlist Halls Ingólfssonar, þó ég hefði reyndar kosið að fá upphafsræðu Þráins Karlssonar án undirleiks.

En það eru leikararnir og liðsforingi þeirra sem vinna stærsta sigurinn. Hér hefur greinilega verið unnið nostursamlega að sköpun allra persónanna og það skilar sér í áhrifaríkri samveru með þeim. Guðjón Davíð Karlsson skilar hinni dálítið óræðu kjarnapersónu Dímu afar fallega. Eins og oft vill verða eru minni hlutverkin í sterkari litum en Guðjón birtir okkur afar heildstæða mynd af ráðvilltum, viðkvæmum strák með vænt uppistöðulón af innibyrgðri reiði. Guðjón Þorsteinn Pálmason gerir sér sömuleiðis góðan mat úr Slavik, en tekst samt ekki alfarið að yfirstíga þá líkamlegu vankanta að vera of vel á sig kominn til að vannærður eiturfíkill á síðasta snúningi birtist okkur á sviðinu. Jóhannes Haukur Jóhannesson smellpassar hins vegar í hlutverk hins glaðbeitta en ógnvekjandi Arkasha. Það sama má segja um Þráin Karlsson sem Posa. Afar sannfærandi túlkun á afgangnum af gömlum menntamanni.

Álfrún Helga Örnólfsdóttir er svo auðvitað hárrétta leikkonan til að stinga í stúf við allt þetta undirmálslið – björt og barnsleg sem stúdinan Júlka. Þeim mun óhugnanlegra verður það þegar hún sýnir okkur á bak við yfirborðið og við munum að hörmungarnar sem hafa verið leiddar yfir Rússland undanfarinn áratug eru manngerðar – einhverjir hafa verið nógu ófyrirleitnir til að gera sér neyð hinna að gróðalind. Álfrún skilar skuggahliðinni ekki síður en sakleysinu og er þetta þar með orðið það eftirtektarverðasta sem ég hef séð til hennar.

Fremst í flokki gengur svo Esther Thalía Casey sem er frábærlega sönn í hlutverki Leru, sem á að vera veraldarvanari en svo að láta blekkjast af bjánalegu happdrættissvindli en lifir of ömurlegu lífi til að hafa efni á því að sjá í gegnum drauminn. Sömuleiðis hennar besta frammistaða í mínu leikhúsminni.

Allur samleikur og sviðsferð er síðan eins og best verður á kosið, nærvera leikhópsins alger frá fyrsta andartaki þar til ljósin dofna. Jón Páll Eyjólfsson hefur stýrt sínu misreynda liði styrkri hendi og útkoman er sýning sem Akureyringar eiga ekki bara að vera stoltir af heldur ættu umfram allt að drífa sig að sjá.