fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Drauganet

Lýðveldisleikhúsið
Tjarnarbíó 24. nóv. 2005

Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Darren Foreman
Sviðshreyfingar: Kolbrún Anna Björnsdóttir
Tónlist: Benóný Ægisson
Lýsing: Einar Þór Einarsson.

Leikendur: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Benóný Ægisson, Brynja Valdís Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Höskuldur Sæmundsson, Ingibjörg Stefánsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Páll Sigþór Pálsson, Valgeir Skagfjörð, Þórunn Clausen og Þröstur Guðbjartsson.

Glatkistubúar rísa upp


BENÓNÝ Ægisson hefur lengi unnið með hugmyndina um samband leikpersóna við höfund sinn, samband sem einatt er spennuþrungið og hreint ekki alltaf á vinsamlegu nótunum. Einþáttungur hans, Tvíleikur fyrir höfund og leikara, þykir mér alltaf eitt af hans betri verkum þó lítill sé að vöxtum. Nú hefur Benóný tekið eintalaröð sína, Glæsibæjareintölin, steypt þeim saman í eina sýningu og kryddað með skírskotunum í það sama vandamál og um ræðir í fyrrnefnda þættinum. Að þessu sinni er sjónum beint að því hvernig persónur þrífast eða þrífast ekki í einskismannslandi eintalsins.

Þetta eru fyrstu kynni undirritaðs af Glæsibæjareintölunum, sem áður hafa verið flutt að ég held oftar en einu sinni. Hér eru á ferðinni nokkuð hefðbundin stutt eintöl, nokkurskonar skyndimyndir af persónunum. Velflest falla þau í sama mótið, eru varnarræður fólks í misalvarlegum lífskrísum sem þau eru ekki nema að litlu leyti meðvituð um. Sjálfsréttlæting þeirra er síðan afhjúpandi, við sjáum í gegnum lygina sem er varnarbúnaður persónanna. Í spennunni milli sjálfsmyndar persónanna og þess sem við skynjum bak við orðin er leikrænn máttur textans fólginn.

Benóný hefur þetta stílbragð vel á valdi sínu. Ég saknaði þess samt aðeins að sjá ekki fjölbreyttari nálganir frá höfundinum. Þrettán eintöl sem öll fylgja svipaðri formúlu draga á endanum máttinn hvert úr öðru.

Mörg þeirra eru prýðilegar smíðar. Einkum eru minnisstæð hin yfirborðsglaðlynda kona Þórunnar Clausen og harðneskjulegur sjóari Gunnars Eyjólfssonar, og það er sjálfsagt ekki tilviljun að þessi tvö voru líka framúrskarandi í flutningnum. Fleiri áttu góðar innkomur, ekki síst Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Valgeir Skagfjörð.

Umbúnaður og framsetning öll ber þess merki að ekki hafi verið nostrað sérlega mikið við uppsetningu verksins. Trúlega ekki gefist tími til þess. Það er í sjálfu sér skiljanlegt og allt í lagi. Hitt þótti mér heldur verra að sá rammi sem sniðinn er virkar ekki sérlega sannfærandi. Mér þótti vangavelturnar um stöðu persónanna gagnvart höfundi sínum ekki bæta neinu við myndina af þeim, og tilraunir til að flétta eintölin saman gengu annaðhvort of skammt eða of langt. Að forsendunum um tímaskort gefnum hefði meiri einfaldleiki þar sem hverju eintali væri gefið svigrúm, með kynningu og skýrum endi trúlega verið heppilegri. Að öðrum kosti hefði þurft að gera mun meira í að fleyga eintölin, vinna með hverjir hlusta á hvað eða eru vitni að hverju og ganga lengra með hugsunina um ófullnægju eintalspersónanna og afstöðu þeirra til höfundarins sem guðs í þeirra heimi. Tónlistarinnskot þóttu mér mörg áheyrileg en litlu bæta við heildarupplifunina.
Drauganet er áhugaverð tilraun höfundar til að þróa efnivið sinn í samvinnu við áhorfendur. Viðbrögð þessa áhorfanda sem hér skrifar eru löngun til að upplifa efniviðinn án umbúðanna, með meiri rækt við hvert eintal fyrir sig og þroskaðri tök leikaranna sem meiri tími myndi ljá þeim. Því ég efast um að þessi eina sýning muni fullnægja þessum óstírlátu persónum og fá þær til að sættast við eilífa glatkistuvist.