sunnudagur, september 18, 2005

Rita

Leikhópurinn Kláus
Samkomuhúsinu á Húsavík 9. september 2005.

Höfundur: Willy Russell
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikmynd: Jóhannes Dagsson

Leikendur: Margrét Sverrisdóttir og Sigurður Illugason.


Úr hári í hámenningu



LEIKRIT eins og Rita gengur menntaveginn, sem byggjast á raunsæislegri skoðun á menningu og viðhorfum á ritunarstað sínum og –tíma, þurfa að vera skrambi góð til að hafa þýðingu fyrir annað fólk á öðrum tíma. Það þarf að vera einhver kjarni í því sem höfundurinn vill segja sem á erindi við fólk þó það búi við aðstæður gerólíkar þeim sem lýst er. Sem betur fer er þetta verk Willy Russell þesskonar verk. Þroskasaga Ritu sem veit hvað hún vill og Franks sem finnst það sem hún telur sig þurfa ekki þess virði er falleg, sorgleg og fyndin. Góð saga sögð á látlausan hátt af manni sem gerþekkir heiminn sem hann lýsir og tekst því að upphefja sig yfir stað og stund.

Auðvitað þvælist sú grunnforsenda verksins sem stéttarskipting bresks samfélags er dálítið fyrir leikendum og áhorfendum á Íslandi í dag. Og annað hefur gerst síðan það var skrifað sem afhjúpar aldur þess: skilin milli há- og lágmenningar eru mikið til horfin úr viðfangsefnum háskólamana. Í dag þætti frekar sniðugt að varpa ljósi á Howard’s End með tilvísunum í Danielle Steele, eða Ísfólkið ef því væri að skipta. Ef Rita væri að byrja í kvöldskólanum í dag er eins víst að hún yrði látin skrifa ritgerðir um Pulp Fiction og Friends í stað Péturs Gauts og Makbeðs. Kannski er það hið besta mál, en sennilega yrði hún svekkt.

Margrét Sverrisdóttir fer af miklu öryggi með hlutverk Ritu. Hún er ljómandi sannfærandi sem lágstéttarstúlkan sem talar stundum áður en hún hugsar og sýnir sérlega vel þá breytingu sem verður á persónunni eftir því sem sögunni vindur fram. Þetta er bitastæðasta hlutverk sem ég hef séð Margréti glíma við og jafnframt besta frammistaða sem ég hef séð til hennar.

Sigurður Illugason er þaulvanur leikari og gerir Frank að sauðalegum og dálítið sambandslausum prófessor eins og við á. Skemmtilega teiknuð persóna og gott ef ég hafði ekki einn nákvæmlega svona kennara í Háskólanum á sínum tíma þó rétt sé að nefna engin nöfn. Það hefði mátt vinna betur með afstöðu Franks til Ritu og þróun hennar, þessi Frank er dálítið úr tengslum við hana. Það má vera að það sé fær leið til að sýna persónu hans, en gerir samspilið óljósara.

Uppfærsla Odds Bjarna er lipur og látlaus í skemmtilegri sviðsmynd Jóhannesar Dagssonar sem nýtir rýmið á litlu sviði Samkomuhússins á snjallan hátt sem ég hef ekki séð áður þar.

Leikhópurinn Kláus er skemmtileg viðbót við leiklistarlífið norðan heiða og sýning hópsins á Rita gengur Menntaveginn prýðilegt verk, fagmannlega sviðsett og ljómandi vel leikið og mun klárlega skemmta þeim gestum sem leggja leið sína í Samkomuhúsið á Húsavík næstu vikurnar.