How do you like Iceland?
Stóra íslensk-ameríska leikhússamsteypan
Kaffi Sólon 20. júlí 2005
Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Darren Foreman
Leikendur: Darren Foreman og Kolbrún Anna Björnsdóttir
ÉG veit ekki hvort það er eitthvað meira áberandi í fari Íslendinga en annarra þjóða að vilja sífellt spegla sig í augum útlendinga, en allavega er þörfin sterk hjá okkur. Kannski hefur það eitthvað að gera með smæðina. Þessi árátta er einn rauði þráðurinn í sýningunni How do you like Iceland, kynning á sögu okkar og menningu, en þó fyrst og fremst á sjálfsmynd okkar. Gamlar klisjur eru viðraðar, hæðst að þeim en sannleikskorninu í þeim samt aldrei hafnað.
Ramminn er einfaldur. Maður nokkur ávarpar salinn eins og hálfdrukkinn maður á bar, afgreiðslustúlka reynir að stoppa hann, en dregst síðan inn í það verkefni að útskýra þessa skrýtnu þjóð fyrir gestunum. Afstöðumunur þeirra til efnisins skapar spennuna sem í verkinu er; hann stoltur af sinni stöðluðu mynd af landi, sögu og þjóð, hún dregur í efa, hefur aðra sögu að segja. Í lokinn býður leikskáldið svo upp á snjallan endahnút þar sem við fáum algerlega nýja mynd af persónunum tveimur. Niðurlagið er síðan óþarflega snubbótt og bratt, haganleg hoppin milli efnisatriða, fortíðar og nútíðar sýna að Benóný á að geta búið betur um.
Þó efnistök og megnið af innihaldinu sé kunnuglegt fyrir innfædda er margt í texta Benónýs fyndið, hann hittir oft í mark. Það er vitaskuld erfitt að fullyrða um það út frá eigin reynslu, en ég hef grun um að fyndnin í verkinu virki ekki síður á Íslendinga og þá gesti okkar sem þegar hafa kynnst landi og þjóð nokkuð. Ég held að megnið af frumsýningargestum hafi verið innfæddir og við hlógum að sömu hlutunum, og hlógum oft. Gæti trúað að margt af fyndninni útheimti einhverja þekkingu á því sem verið er að skopast að. Gaman væri að sjá sýninguna aftur með fullum sal að útlendingum, því vel má vera að þeir hlægju einfaldlega á öðrum stöðum, fyrir utan ánægjuna af öllum þeim skrautlega fróðleik sem leynist innan um gamanið á okkar kostnað.
Darren Foreman nýtur sín sérlega vel í hlutverki hins stolta Íslendings með klisjusafnið í kollinum, er þægilega afslappaður og eðlilegur í samskiptum sínum við áhorfendur og mótleikara sinn. Kolbrún Anna Björnsdóttir hefur á sér öllu meiri “leikarabrag” sem þjónustustúlkan en bætir það upp með snyrtilegum mannlýsingum í innskotsatriðum þar sem hún bregður fyrir sig írskum, þýskum og íslenskum hreim af mikilli íþrótt. Sérstaklega fannst mér hún skemmtileg sem íslands”vinurinn” Blefken, og að gefa honum orðið var auk þess eitt það nýstárlegasta í sýningunni sem annars rær á fremur kunnugleg mið í efnisvali.
How do you like Iceland er snyrtileg og skemmtileg lítil sýning og góður kostur fyrir áhugafólk um Ísland. Allra skemmtilegust held ég að hún sé fyrir Íslendinga sjálfa að bjóða erlendum gestum sínum á. Klukkutíma kabarett, búinn klukkan sex og þá er tilvalið að setjast niður yfir góðum mat og bera saman upplifun og reynslu og nota sýninguna sem stökkpall inn í samræður um okkur í spegli gestsaugans.
Kaffi Sólon 20. júlí 2005
Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Darren Foreman
Leikendur: Darren Foreman og Kolbrún Anna Björnsdóttir
Í spegli gestsaugans
ÉG veit ekki hvort það er eitthvað meira áberandi í fari Íslendinga en annarra þjóða að vilja sífellt spegla sig í augum útlendinga, en allavega er þörfin sterk hjá okkur. Kannski hefur það eitthvað að gera með smæðina. Þessi árátta er einn rauði þráðurinn í sýningunni How do you like Iceland, kynning á sögu okkar og menningu, en þó fyrst og fremst á sjálfsmynd okkar. Gamlar klisjur eru viðraðar, hæðst að þeim en sannleikskorninu í þeim samt aldrei hafnað.
Ramminn er einfaldur. Maður nokkur ávarpar salinn eins og hálfdrukkinn maður á bar, afgreiðslustúlka reynir að stoppa hann, en dregst síðan inn í það verkefni að útskýra þessa skrýtnu þjóð fyrir gestunum. Afstöðumunur þeirra til efnisins skapar spennuna sem í verkinu er; hann stoltur af sinni stöðluðu mynd af landi, sögu og þjóð, hún dregur í efa, hefur aðra sögu að segja. Í lokinn býður leikskáldið svo upp á snjallan endahnút þar sem við fáum algerlega nýja mynd af persónunum tveimur. Niðurlagið er síðan óþarflega snubbótt og bratt, haganleg hoppin milli efnisatriða, fortíðar og nútíðar sýna að Benóný á að geta búið betur um.
Þó efnistök og megnið af innihaldinu sé kunnuglegt fyrir innfædda er margt í texta Benónýs fyndið, hann hittir oft í mark. Það er vitaskuld erfitt að fullyrða um það út frá eigin reynslu, en ég hef grun um að fyndnin í verkinu virki ekki síður á Íslendinga og þá gesti okkar sem þegar hafa kynnst landi og þjóð nokkuð. Ég held að megnið af frumsýningargestum hafi verið innfæddir og við hlógum að sömu hlutunum, og hlógum oft. Gæti trúað að margt af fyndninni útheimti einhverja þekkingu á því sem verið er að skopast að. Gaman væri að sjá sýninguna aftur með fullum sal að útlendingum, því vel má vera að þeir hlægju einfaldlega á öðrum stöðum, fyrir utan ánægjuna af öllum þeim skrautlega fróðleik sem leynist innan um gamanið á okkar kostnað.
Darren Foreman nýtur sín sérlega vel í hlutverki hins stolta Íslendings með klisjusafnið í kollinum, er þægilega afslappaður og eðlilegur í samskiptum sínum við áhorfendur og mótleikara sinn. Kolbrún Anna Björnsdóttir hefur á sér öllu meiri “leikarabrag” sem þjónustustúlkan en bætir það upp með snyrtilegum mannlýsingum í innskotsatriðum þar sem hún bregður fyrir sig írskum, þýskum og íslenskum hreim af mikilli íþrótt. Sérstaklega fannst mér hún skemmtileg sem íslands”vinurinn” Blefken, og að gefa honum orðið var auk þess eitt það nýstárlegasta í sýningunni sem annars rær á fremur kunnugleg mið í efnisvali.
How do you like Iceland er snyrtileg og skemmtileg lítil sýning og góður kostur fyrir áhugafólk um Ísland. Allra skemmtilegust held ég að hún sé fyrir Íslendinga sjálfa að bjóða erlendum gestum sínum á. Klukkutíma kabarett, búinn klukkan sex og þá er tilvalið að setjast niður yfir góðum mat og bera saman upplifun og reynslu og nota sýninguna sem stökkpall inn í samræður um okkur í spegli gestsaugans.
<< Home