miðvikudagur, mars 16, 2005

Fiðlarinn á þakinu

Leikfélagið Grímnir, Stykkishólmi
Hótel Stykkishólmi 16. mars 2005

Höfundar: Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein eftir sögum Sholom Aleichem
Þýðandi: Egill Bjarnason.
Leikstjóri: Ingunn Jensdóttir.

Fyndnasti fiðlarinn

FIÐLARINN á þakinu er fullorðinssöngleikur og á næsta lítið skylt við þau lausbeisluðu stórsjó með samtíningstónlist sem algengust er á sviðum áhugaleikfélaga, einkum í framhaldsskólunum. Viðfangsefnið er reyndar ungt fólk og tilraunir þess til að yfirstíga hindranir siða og samfélags til að öðlast hamingju og ást, en samt sér maður Fiðlarann á þakinu ekki fyrir sér sem raunhæfan keppinaut þegar menntaskólarnir velta fyrir sér verkefnum.

Bæði er nú það að aðalpersónurnar eru þrátt fyrir allt ekki unga fólkið heldur foreldrar þeirra sem vilja hafa vit fyrir þeim en geta það auðvitað ekki, og svo hitt að verkið er næsta gamaldags. Og þá á ég við í merkingunni gott. Fiðlarinn á þakinu er sígilt verk, einhver besti söngleikur sem saminn hefur verið. Þakklátt viðfangsefni þeim sem á annað borð ráða við að skila honum yfir sviðsbrúnina, söng, leik og dansi.

Leikfélagið Grímnir í Stykkishólmi kemst skrambi langt með að gera Fiðlaranum verðskulduð skil. Það liggur í hlutarins eðli að félag af þessari stærðargráðu þarf að kalla til lítt eða óvant fólk til að fylla upp í svona sýningu, og það sést alveg að ekki eru allir þátttakendur hoknir af reynslu í að leika og dansa. Á hinn bóginn geislar ánægjan og stoltið af vel unnu verki af hópnum og í hjarta sýningarinnar eru öflugir kraftar sem bera hana uppi. Útkoman er þrátt fyrir hnökra prýðileg skemmtun og stór rós í hnappagat þessa metnaðarfulla félags.

Það er greinilegt að leikstjóri sýningarinnar vill leggja höfuðáherslu á skemmtigildi verksins, gleðina í söngnum og hlýjan húmorinn. Þetta lukkast ágætlega þó að gamlir fiðlaraaðdáendur eins og ég sakni svolítið alvörunnar sem að baki býr. Ekki tekst að teikna samband og togstreitu gyðinganna og Rússanna að neinu ráði og sálarstríð Tevyes yfir sífelldum hefðarrofum dætranna eru honum meira til ama og óþæginda en eins og heimsendir sé í nánd. En þetta er meðvituð hugsun og túlkun og sem slík gengur hún upp og vinnur með styrkleika aðalleikaranna.

Ég hef séð fimm íslenska leikara leika Tevye mjólkurpóst og Tryggvi Gunnarsson er tvímælalaust sá fyndnasti. Hann hefur frábæra skoptímasetningu og er hann, svo maður beiti fyrir sig tækniorðum úr Idol-Stjörnuleit, sjarmatröll. Það er ekki á neinn hallað þó að sagt sé að hann beri þessa sýningu uppi í öllu sínu veldi. Hann fer alveg út á brúnina með að gera Tevye of vitlausan á stundum, en kemst upp með það - sjá tækniorðið úr ædolinu. Margrét Ásgeirsdóttir er líka firnagóð sem Golda, full af hlýju háði og hefur fallega útgeislun á sviðinu. Helstu hlutverk önnur eru prýðilega skipuð þó svo að ekki gefist færi á að telja fleiri upp enda óvíst hvar ætti þá að hætta.

Tónlistarflutningur var alla jafnan ágætur, sérstaklega í sólósöngvum, hópsöngvar voru sumir dálítið ónákvæmir, sérstaklega þó hinn erfiði draumsöngur. Þetta mun allt saman slípast. Hljómsveit var vel spilandi.

Leikmyndin er falleg en alltof viðamikil og þung í vöfum fyrir verk af þessu tagi með mörgum stöðum og iðulega stuttum atriðum. Langar skiptingar eru ekki bara leiðinlegar heldur allsendis óþarfar í svona verki þar sem ímyndunarafli áhorfenda er hvort sem er gefinn byr undir báða vængi. Þar fyrir utan var rýmisnýting skemmtileg en leikið er bæði á sviði og á dansgólfi salarins í Hótelinu.

Fiðlarinn á þakinu í Stykkishólmi er létt og skemmtileg útfærsla á frábæru verki. Með stjörnuleik í aðalhlutverkinu og alúð við öll smáatriði tekst að búa til sýningu sem allir bæjarbúar ættu að vera stoltir af og drífa sig að sjá. Aðrir mættu vel gera slíkt hið sama.