laugardagur, desember 18, 2004

Jólin syngja!

C.M.S. Theater og Ljós & List
Iðnó 18. desember 2004

Söngleikur eftir Axel Björnsson og Seth Sharp
Leikstjórn: Seth Sharp

MUNURINN á rauðklædda "kóla-sveininum" sem gleður börn og hinna íslensku nafna hans sem stela þorramat og liggja á gluggum er nokkuð skýr, og það hvernig þeir íslensku runnu saman við eða tileinkuðu sér siði hins ameríska hvítskeggs er ágætis viðfangsefni í léttan jólasöngleik. Á þessi mið róa aðstandendur "Jólin syngja". Hér segir frá Jóa, sem er íslenskur lúði, ekki í húsum hæfur, ósyngjandi og illa til fara þar til hinn ameríski starfsbróðir hans er búinn að snikka hann til, með dyggri hjálp álfameyja sinna, að ógleymdum börnunum sem bræða íshjartað í fjallabúanum og koma honum til manna. Ágætis saga með fallegan boðskap.

Á hinn bóginn hefur ekki tekist nógu vel að koma henni í leikhúsform. Handritið er því miður af algerum vanefnum gert, stefnu- og sundurlaust. Tengingar milli tónlistaratriða og leikins efnis eru bláþráðóttar þegar best lætur og persónusköpun óljós. Kemur það verst niður á hinum rauðklædda jólasveini sem ætti að vera í forgrunni en verður bara skrítinn í nokkuð sérviskulegum meðförum Everts Ingólfssonar. Reyni Hólm Þrastarsyni gengur betur með hinn íslenska starfsbróður hans, en nær samt ekki að hefja sig yfir annmarka handritsins, sem varla er von. Álfana þrjá túlka Ruth Reginalds, Mirra Rós Þrastardóttir og Inga Sæland og bera þær hitann og þungann af því að halda uppi fjörinu, en þó ærsl þeirra séu ágæt sem slík gera þau ekki annað en leiða athyglina að því hversu röng sú áhersla er miðað við hverju er verið að reyna að miðla með sögunni. Börnin þrjú eru eins prýðileg og ætlast má til, þó nærvera þeirra í þessu jólasveinalandi sé illskiljanleg og allsendis óútskýrð af handritshöfundum.

Leikstjórn er í höndum Seth Sharp. Ekki hef ég séð fyrri verk hans hér á landi, Ain't Misbehavin' og Harlem Sophisticate, en hér tekst honum illa upp. Sviðsetning er afar klaufaleg, samleikur ónákvæmur og hann hefur ekki náð að móta afstöðu leikhópsins til áhorfenda þannig að þar sköpuðust nauðsynleg tengsl. Tilviljanakennd og óþörf notkun á hljóðnema í samtalsatriðum stóð leikurum líka greinilega fyrir þrifum.

Leikurinn er þó fyrst og fremst gerður til að tengja saman nokkur þekkt jólalög, og í raun hefði sýningin heppnast mun betur ef tónlistin hefði fengið meiri alúð og pláss í stað leiksins. Þó of lítið sé lagt í tónlistaratriðin eru það samt hin bestu þeirra sem eru ánægjulegasti hluti sýningarinnar. Þar fer hæst fallegur flutningur Ruthar á Hvít jól, en þar naut píanóleikur Rósu Guðmundsdóttur sín líka best. Reynir átti líka góða takta í Yfir fannhvíta jörð, svo og Helen, dóttir Ruthar, sem söng sín tvö lög af stakri prýði.

Jólin syngja er einkennileg sýning sem nær því miður ekki tilgangi sínum, og skrifast það einna helst á reikning handritshöfunda og leikstjóra sem ná ekki að móta skemmtilega grunnhugmynd í heildstæða skemmtun. Eftir standa nokkur tónlistaratriði sem gleðja eyru áhorfandans.