laugardagur, október 30, 2004

Að sjá til þín maður

Leikfélag Hafnarfjarðar
Gamli Lækjarskólinn í Hafnarfirði 30. október 2004

Höfundur: Franz Xaver Kroetz
Þýðendur: Ásthildur Egilsson og Vigdís Finnbogadóttir.
Leikstjóri; Gunnar B. Guðmundsson.

LEIKFÉLAG Hafnarfjarðar heldur áfram með sína metnaðargjörnu, sumir myndu segja fífldjörfu, dagskrá. Og þótt Hamskiptin og Beisk tár Petru von Kant séu þungavigtarverkefni held ég að þetta verk Kroetz, Að sjá til þín maður, sé það erfiðasta til þessa. Útkoman er líka sú að þrátt fyrir að mörgu leyti ágæta frammistöðu og skýra hugsun þá nær hópurinn ekki að rísa undir nánast ómennskum kröfum verksins.
Hér segir frá fjölskyldu verkamanns í bílaverksmiðju í Suður-Þýskalandi seint á áttunda áratugnum. Spennustigið er hátt, enda er einkasonurinn atvinnulaus, stendur ekki undir kröfum foreldranna um að ná lengra í lífsgæðakapphlaupinu en þau. Fjölskyldan splundrast, drengurinn flytur að heiman og móðirin líka. Við fylgjumst með hvernig þau tvö ná að fóta sig meðan heimilisfaðirinn nær ekki að draga neina lærdóma af skipbroti draumsins, rígbundinn af hugmyndum um mikilvægi sitt og karlmennsku sinnar. Eins og önnur verk þessa merka höfundar er leikritið skrifað í smásmyglislegum natúralískum stíl, mikið af fyrirmælum um athafnir, langar þöglar senur inn á milli innihaldslausra samtala og ofsafengins ofbeldis. Frábærlega skrifað, feiknlega áhrifaríkt, glettilega fyndið - en svínslega erfitt.

Það sem stendur leikhópnum einna helst fyrir þrifum er aldurinn. Það er varla hægt að ímynda sér verra verk til að leika upp fyrir sig í, svo mjög stendur það og fellur með algerri samsvörun persóna og leikenda. En hér standa þrír jafnaldrar (eða því sem næst) á sviðinu. Þessi staðreynd neyðir Guðmund L. Þorvaldsson til að "leika" of mikið, búa of mikið til sem gerir föðurinn að hálfgerðri grínfígúru. Firnavel gert sem slíkt enda Guðmundur óðum að verða einn af öflugustu leikurum áhugaleikhússins hér. En nálgunin kostar of mikið, sýningin verður aldrei nægilega trúverðug.

Mótleikarar Guðmundar, þau Sara Blandon og Jón Stefán Sigurðsson, eru mun reynsluminni leikarar, en sýna bæði sinn besta leik sem ég hef séð til þeirra. Sara sérlega góð í síðasta hlutanum þar sem hún berst við sjálfa sig fyrir sjálfstæði sínu og Jón Stefán átti áhrifaríkan leik, sérstaklega í þöglum atriðum.

Þessi góða frammistaða dugir því miður ekki til að skila áhrifum verksins, sem helgast bæði af því hvað verkefnið er erfitt og túlkunarleiðum leikstjórans sem leggur of mikla áherslu á skopfærslu, t.d. með framgöngu fjórða leikarans, Snorra Engilbertssonar og hljóðsveitinni sem bætt er inn í verkið til óþurftar. Þó skipta hér mestu umfangsmiklar styttingar sem gerðar hafa verið og draga mjög úr áhrifamættinum. Nákvæm vinna með langdregin þögul atriði eru eitt helsta höfundareinkenni Kroetz og eitt af hans öflugustu vopnum. Þessum atriðum sleppir Gunnar Björn, en rýrir fyrir vikið það líf sem þarf að kvikna á sviðinu og okkur er ætlað að skoða og dæma. Útkoman verður of flatneskjuleg þó það taki vissulega styttri tíma.

Leikmyndin er hreinn unaður - frábærlega rétt í períódu með unaðslega ósmekklegu og ósamstæðu veggfóðri á hinum ólíku flötum. Þeim mun furðulegra að heyra að verkið er ekki bara staðfært (misráðið að mínu viti) heldur virðist það eiga að gerast í nútímanum. Þetta misræmi truflar svo sem ekki að ráði, en einkennilegt samt í ljósi þeirrar nostursamlegu vinnu við að negla tímann niður í húsgögnum og búnaði.

Að sjá til þín maður er metnaðarfull og vel leikin sýning, unnin af fullri listrænni alvöru eins og búast mátti við af Leikfélagi Hafnarfjarðar. Það reynist þó ofverkið þeirra að skila efninu og áhrifum þess til fullnustu, sem eftir á að hyggja kemur ekki á óvart í ljósi þessa krefjandi verkefnis.