fimmtudagur, júní 10, 2004

Dansleikhússamkeppni

Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn
Borgarleikhúsinu 10. júní 2004

Höfundar: Arna Guðný Valsdóttir, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Birna Hafstein, Halla Ólafsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jón Atli Jónasson, Kolbrún Halldórsdóttir, Ólöf Sigríður Valsdóttir, Peter Anderson, Rebekka Austmann Ingimundardóttir, Stefán Jónsson, Steinunn Knútsdóttir og Sveinbjörg Þórhallsdóttir.

Meira salsa!

DANSLEIKHÚSKEPPNI Leikfélags Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins er nú haldin í annað sinn. Hér er um sérlega lofsvert framtak að ræða, gott tækifæri til að rannsaka mörk og möguleika þessara listgreina sem búa saman í Borgarleikhúsinu. Reyndar sýnist mér sem þetta sambýli sé einkar farsælt þar á bæ og þessi keppni er fráleitt eina dæmið um vel lukkað samstarf á milli dansflokksins og leikfélagsins.

Það var ánægjulega afslappað andrúmsloft í stóra salnum á fimmtudagskvöldið, kynnarnir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir, gáfu tóninn með það. Það var mikið fagnað og talsvert hlegið, enda dagskráin eins og við var að búast fjölbreytt mjög.

Það er best að taka það strax fram að undirritaður nálgast dansleikhúsið úr leikhússáttinni og er því almennt séð hrifnari af þeim sýningum þar sem einkenni þeirrar listar eru í forgrunni. Það kom líka á daginn að þær sýningar sem byggðust á einfaldri grunnhugmynd sem tókst að koma til skila höfðu mest áhrif á þennan gagnrýnanda. Aðrar, sem voru kannski frumlegar og frjóar en náðu ekki að skila innihaldi - merkingu - til mín, fundust mér sem því nemur lakari.

Það þarf samt ekki endilega "leiklist" til að skila þessari merkingu eins og sú sýning sannaði sem mér þótti mögnuðust: Komið og dansið: A found object, eftir Jón Atla Jónasson og Stefán Jónsson. Þeir fylltu sviðið af "venjulegu" fólki sem dansaði síðan samkvæmisdansa og annað slíkt meðan texta um gildi þess að dansa var varpað á vegg. Þessi sýning sameinaði það að vera bráðskemmtileg, fullkomlega frábrugðin öllum hinum og varpa ljósi á eðlismun dans og leiklistar. Leiklist er nefnilega algerlega háð því að á hana sé horft, hún snýst alltaf um samband leikara og áhorfanda. Dansarinn getur hins vegar verið sjálfum sér nógur, dans snýst ekki í sjálfu sér um tjáskipti nema milli þeirra sem dansa. Sýning þeirra félaganna var í vissum skilningi alls ekki sýning, ekki ætluð áhorfendum. Og með því varð hún merkingarríkasta sýning keppninnar. Hún hreppti annað sætið.

Nokkrar sýninganna náðu hreint ekki að vera skýrar á því hvað þær vildu segja, og hafa líklega ekki ætlað sér það. Þannig var um óræða og brotakennda sýningu Steinunnar Knútsdóttur og þeirra Valsdætra, Ólafar, Arnbjargar og Örnu, Sjá augu mín einsog þín, systir. Hún byrjaði vel með skemmtilegu samspili myndbands og leikara/dansara, en skipti of oft um stefnu til að hún héldi út. Þá voru Flugur Aðalheiðar Halldórsdóttur og X í öðru veldi eftir Rebekku Austmann Ingimundardóttur lítt að tala við þennan áhorfanda, þótt síðarnefnda sýningin væri greinilega gerð af miklu hugviti og nákvæmni. Hún hafnaði í þriðja sæti.

Og þó Dagur í frystihúsinu, verk þeirra Höllu Ólafsdóttur og Ilmar Kristjánsdóttur, væri sniðugt, vel sviðsett og textinn og týpurnar fyndnar, var óræðnistuðullinn nokkuð of hár fyrir minn smekk þegar upp var staðið.

Þrjár sýninganna sóttu viðfangsefni í dægurmálin, en á skemmtilega ólíkan hátt.

Detatched, hugleiðing Peter Anderson um skelfingarástand heimsins og skeytingarleysi okkar þar um, notaði það gamalkunna bragð að láta eina persónu þylja heimsósómaræðu yfir okkur meðan önnur talaði um fáfengilega neysluhluti. Sýningunni tókst ekki að yfirvinna þessa klisju eða taka á henni á frumlegan hátt, en Gunnar Hansson bjargaði því sem bjargað varð með snaggaralegum sölumennskutöktum.

Augnablik Kolbrúnar Halldórsdóttur sótti sinn áhrifamátt í afar skýra og sterka hugmynd, að framlengja augnablikið þegar fyrsta sprengjan var sprengd við Kárahnjúka, og sýna okkur bergið - túlkað af dönsurum - vakna til lífsins og leysast upp um leið. Flott hugmynd sem skilaði sér til okkar, en dansinn sjálfur var kannski dálítið "leiklistarnámskeiðsspunalegur" og söngurinn kom mér spánskt, eða kannski afrískt, fyrir sjónir og hjálpaði ekki hugmyndinni eða áhrifunum.

Birna Hafstein og Sveinbjörg Þórhallsdóttir fengu þá brjáluðu, og satt best að segja smekklausu, hugmynd að flytja síðustu daga og dauða Vaidasar Jusiviciusar úr heimi smákrimma og eiturlyfja yfir í gerviveröld samkvæmisdansanna. Sniðugt, mjög vel flutt, en ekki nógu fyndið eða beinskeytt til að það réttlætti svona léttúðuga meðferð á þessum (afsakið orðbragðið) mannlega harmleik.

Sigurvegari kvöldsins var svo Bergur Þór Ingólfsson, en sýning hans, Hamlet - Superstore, fékk bæði fyrstu verðlaun frá dómnefnd og áhorfendum. Sýningin er vel að þessu komin. Áberandi skemmtilegasta kóreógrafían fyrir leikmann eins og mig, merkingarbær án þess að vera látbraðgsleikur, kröftug og skýr. Hugmyndin var kannski ekki frumleg, grunnsagan í Hamlet flutt með merkingarlausum texta, í þessu tilfelli texta úr munni viðskiptavina matvöruverslunar, algeng æfing á leiklistarnámskeiðum. Útfærslan var hins vegar afbragð, skemmtigildið ótvírætt og alltaf ljóst hvað verið var að gera.

Þetta var ánægjuleg kvöldstund. Fjölbreytnin mikil, gæðastuðullinn hár og meira að segja lökustu verkin voru aldrei leiðinleg, alla vega ekki lengi í einu. Þessi hátíð er án efa orðin fastur liður í starfsemi Borgarleikhússins, og fullur salur af fólki ætti ekki að letja forráðamenn hússins til að halda áfram á þessari braut.