föstudagur, apríl 30, 2004

Kringlunni rústað

Vesturport
Klink og Bank föstudaginn 30. apríl 2004

Höfundur: Víkingur Kristjánsson
Leikstjóri: Björn Hlynur Haraldsson
Leikmynd: Hlynur Kristjánsson
Leikskrá: Ólafur Egill Egilsson

Leikendur: Árni Pétur Guðjónsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Ólafur Egill Egilsson.

Í losti

VERK sem sýna hvernig kringumstæður og fyrirbæri sem einkum eru þekkt í erlendu samhengi taka sig út við íslenskar aðstæður eru gjarnan kostulegar háðsádeilur. Íslenska mafían í Sódómu Óskars Jónassonar og sérsveitin hjá Svörtu og Sykurlausu í samnefndri mynd koma upp í hugann. Einnig voru íslenskar sakamálasögur þessu marki brenndar lengi vel, hvort sem höfundar þeirra ætluðust til þess eða ekki. Nú býður Vesturport upp á frumraun Víkings Kristjánssonar í leikritun og þar gengur hann út frá því að hryðjuverk séu orðin partur af íslenskum veruleika.

En Víkingi er svo sannarlega ekki hlátur í huga. Eða kannski var honum það þegar hann skrifaði textann, en í meðferð efnisins er lögð höfuðáhersla á hryllinginn sem slík árás skilar aðalpersónunum og lostið sem þær upplifa í kjölfarið. Kannski táknrænt fyrir það lost sem þjóðfélagið allt yrði fyrir ef skelfingar sem hingað til hafa verið í hæfilegri fjarlægð bak við þykkt sjónvarpsglerið gerðu sig heimakomnar í daglegu lífi okkar.

Kringlunni rústað sýnir okkur fimmtíu mínútur í lífi fimm manneskja sem lokast hafa af einhversstaðar í rústum Kringlunnar, sem orðið hefur fyrir einhvers konar hryðjuverkaárás og lögð í rúst. Persónurnar eru allar meira og minna særðar á líkama, og þó á einum stað sé minnst á mögulega björgun er tilfinningin sú að þau telji sig nánast glötuð. Þau reyna að bregðast við aðstæðum sínum á ýmsan hátt. Áhrifaríkt er þegar einhver stingur upp á að þau syngi og ein persónan gerir heiðarlega tilraun til að leiða þau í gegnum þjóðsönginn, en kann hann illa og hinir nánast ekki. Tilraun til að biðja til Guðs rennur einnig út í sandinn, lífsviðhorf og menning nútíma Íslendingsins býr hann ekki undir aðstæður eins og þær sem Víkingur skapar persónum sínum. Það er kannski helsta sögn verksins.

Það er vel skiljanlegt að Víkingur kjósi að forðast ýmsar þær klisjur sem einkenna verk af þessu tagi, þar sem ókunnugt fólk lokast inni á sama stað við öfgakenndar aðstæður. Hér fer lítið fyrir því að teflt sé saman ólíkum lífsviðhorfum eða persónueinkennum. Einnig er áberandi hvað hann forðast að láta persónurnar gera tilraun til að bregðast meðvitað við aðstæðum sínum. Lítið fer fyrir valdatafli eða flokkadráttum. Í staðinn sækir verkið einkum áhrif sín í andstæður hinna hroðalegu og öfgakenndu aðstæðna við flatneskjulegar samræður persónanna um lítilsverða hluti. Þetta er sterkt svo langt sem það nær, en dugar þó ekki til að gera sýninguna áhugaverða út í gegn. Það litla sem við fáum að kynnast viðhorfum og persónugerð þessa fólks dugar ekki til að láta þau lifna við, svo buguð eru þau öll af hinni fjarlægu ógn, sem reyndar ber ekki á góma í verkinu nema í glundroðakenndu upphafinu og þá á algerlega (og greinilega vísvitandi) banalan hátt. Víkingur getur greinilega skrifað leiktexta og gaman verður að sjá hvað gerist þegar hann glímir við efni þar sem forsendurnar bera persónur og atburði ekki jafn algerlega ofurliði og gerist hér.

Hlynur Björn kýs að keyra verkið áfram af miklum krafti í uppfærslu sinni. Leikhópurinn er ataður blóði og allir greinilega illa sárir í upphafi og örvænting og sprengjulost ráða för. Rýmið hjálpar svo sannarlega til við áhrif sýningarinnar, sviðið er hráslagalegt lyftuop og áhorfendur skyggnast inn um lyftudyrnar á leikhópinn kútveltast um í þrengslunum. Hlynur og hópurinn vinnur vel með rýmið, nýta kosti þess og yfirstíga næstum því gallana, en stundum er þó pirrandi að sjá ekki hvað er um að vera.

Leikararnir ná allir þeirri einbeitingu að sýna okkur fólk á ystu nöf, en gengur að sama skapi fremur erfiðlega að gera eftirminnilegar persónur, til þess er svigrúmið of þröngt og efnið fullrýrt. Öll eiga þau þó augnablik þar sem við sjáum hvað býr að baki blóði drifnu yfirborðinu. Árni Pétur þegar hann tekur til við að kveða rímur, Ólafur Egill þar sem hann minnist eitt augnablik á tónlistina sem hann býr til, Nína Dögg þegar hún talar um kærastann sinn, Nanna Kristín undir lokin þegar trúin virðist gefa henni styrk sem hina skortir og Ólafur Darri í blálokin. Þar á milli er krafturinn og gervin í fyrirrúmi á kostnað blæbrigða.

Hér er djarft teflt eins og Vesturports er von og vísa. Hópurinn er svo sannarlega pönkarinn í íslensku leikhúslífi þessa stundina og lifir eftir hinu fræga mottói Purrks Pilnikks: Málið er ekki hvað þú getur heldur hvað þú gerir. Kringlunni rústað er nokkuð gallað verk, en skrifað og framreitt á mettíma, af algerri sannfæringu og á útopnu af öllum sem að málinu koma. Það dugar til að gera það að eftirminnilegu og óvenjulegu innleggi í leikhúslífið.