föstudagur, febrúar 20, 2004

Brim

Vesturport
Vélarsalnum í Vestmannaeyjum föstudaginn 20. febrúar 2004

Höfundur: Jón Atli Jónasson
Leikstjóri: Hafliði Arngrímsson
Leikmynd: Börkur Jónsson og Hlynur Kristjánsson
Lýsing: Björn Kristjánsson
Hljóðmynd: Björn Kristjánsson og Sigurjón Brink.

Leikendur: Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Víkingur Kristjánsson.

Herbergi í skipi

EKKERT viðfangsefni dregur eins fram natúralistana í íslensku leikhúsfólki og sjómannslífið. Í verkum Kristjáns Kristjánssonar með Skagaleikflokknum höfum við séð lúkar með rennandi vatni og virkri eldavél til viðbótar við hin lögboðnu þrengsli, og svo dugði sama hópi ekkert minna en árabátur á hvolfi í ískaldri sundlaug til að túlka örvæntingu manna í sjávarháska. Í Brimi er stigið enn eitt skrefið þar sem veltingurinn bætist við þrengslin og ómannlegan hráslagann sem lykilatriði í framvindunni. Frábærlega hugvitssamleg leikmynd Barkar Jónssonar og Hlyns Kristjánssonar setur svo sannarlega svip sinn á ferð leikaranna gegnum verkið þar sem hinn óhrjálegi lúkar hangir í vírum innan í stálbúri og bregst af miskunnarleysi náttúruaflanna við minnstu hreyfingum áhafnarinnar á ömurlegu línuskipinu sem er vettvangur verksins.

Í landi eru flestir skipverja undirmálsmenn. Sumir eru beinlínis á mörkum greindarskerðingar en aðrir ramba á brún annarra viðurkenndra viðmiða um hvað telst í lagi: berja konuna sína, geta ekki hamið kynhvötina, eða glíma við sálrænan fortíðarvanda. Um borð tekst alla jafnan að viðhalda einhvers konar ógnarjafnvægi, og hversu ömurlega mynd sem Jón Atli dregur upp af lífinu um borð er ævinlega skýrt að þessir menn eru enn ráðvilltari í landi.

Verkið er næsta framvindulaust. Sterkustu þættir þess eru smásmyglisleg samtöl skipverjanna um ekki neitt og nokkur eintalanna sem brjóta upp myndina af lífinu um borð. Þau eru þó vissulega misjöfn að gæðum og talsverður munur á hversu miklu lífi leikurunum tekst að gæða persónurnar. Formið, hin framvindulitla lýsing aðstæðna, rýrir líka nokkuð möguleika Jóns Atla til að koma áhorfendum á óvart og halda þeim við efnið. Það litla sem finnst af atburðarás og þróun í verkinu er lítilfjörlegt og illa byggt. Það er í lýsingu aðstæðna og persóna sem styrk höfundarins er að finna. Jón Atli hefur þrátt fyrir allt eitthvað að segja og hæfileikarnir til að skila því í texta eru ótvíræðir, þótt ef til vill hafi hann ekki náð tökum á öllum tækjunum í brúnni á þeim flókna listræna frystitogara sem leikhúsið er.

Mest blómstra þeir leikaranna sem fá að skapa gróteskustu persónurnar. Stjarna sýningarinnar er tvímælalaust Ólafur Egill Egilsson sem hinn félagslega fatlaði Kiddi. Frábær mannlýsing bæði frá hendi höfundar og leikara, sem nær þeim skýrleika í túlkun að vera samtímis fullkomlega raunsæisleg og glæsilega stílfærð. Gísli Örn Garðarsson er bæði aumkunarverður og bráðhlægilegur sem hinn treggáfaði Benni kokkur. Af þeim hinum jarðbundnari persónum á Ingvar E. Sigurðsson einna bestan dag, og nýtur þar myndugleika síns á sviði sem vélstjórinn. Björn Hlynur Haraldsson og Víkingur Kristjánsson eru á sömu raunsæismiðunum og Ingvar en ná hvorki að ljá persónum sínum nægilegan kraft né nægilega skýr einkenni til að blómstra við hlið Gísla og Ólafs. Hlutverk Nínu Daggar Filippusdóttur er eiginlega frekar vandræðalegt í verkinu og þótt hún fari lýtalaust með það tekst henni ekki að breiða yfir hve óþarft það er.

Hafliði Arngrímsson sest í nýjan stól að þessu sinni, og leikstýrir sinni fyrstu sýningu í íslensku atvinnuleikhúsi. Hann fer að mínu viti hárrétta leið að verkefninu, leggur áherslu á sterkan og dálítið gróteskan stíl, vinnur vel með klisjuleg sjómannalög sem varpa skemmtilegu ljósi á nöturlegan raunveruleikann, og stýrir umferðinni um erfitt rýmið af næmri tilfinningu fyrir myndmáli og orkuflæði. Hafliði er vonandi kominn á bragðið því það er ljóst að þar fer maður með sterkar skoðanir og afgerandi leikhússmekk sem á betur heima á leiksviði en sem álit á verkum annarra.

Sú ákvörðun Vesturports að frumsýna Brim utan höfuðborgarsvæðisins og stefna síðan á leikferð um landið er aðdáunarverð nýbreytni í vinnulagi frjálsra leikhópa, ekki sú fyrsta sem þetta magnaða leikhús stendur fyrir. Viðbrögð frumsýningargesta í Vestmannaeyjum ættu að staðfesta að það er hungur eftir slíkum viðburðum og ekki síður eftir því að lífi íslensks almennings séu gerð skil á leiksviðum þjóðarinnar. Hér er þörf sem öll leikhús - og leikskáld - landsins verða að uppfylla. Annars er eins gott að pakka bara saman og fara á sjóinn.