sunnudagur, janúar 18, 2004

Chicago

Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn
Borgarleikhúsið 18. janúar 2004.

Höfundar: John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse.
Þýðing og aðlögun: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Danshöfundur: Jochen Ulrich
Ljós: Lárus Björnsson
Hljóð: Gunnar Árnason
Leikgervi: Sóley Björt Guðmundsdóttir
Kvikmyndagerð: Hákon Már Oddsson
Búningar: Elín Edda Árnadóttir
Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson.

Leikendur: Aðalheiður Halldórsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Birna Hafstein, Eggert Þorleifsson, Ellert A. Ingimundarson, Guðmundur Elías Knudsen, Steve Lorenz, Guðmundur Helgason, Guðmundur Ólafson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hanna María Karlsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Katrín Ingvadóttir, Katrín Johnson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Marta Nordal, Peter Anderson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Sveinn Geirsson, Theódór Júlíusson, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.

Séð og heyrt í Chicago

ÞÓTT ótrúlegt megi virðast þá er söngleikurinn Chicago byggður á sannsögulegum atburðum, morðmáli í samnefndri borg árið 1924 og hvernig morðingjanum tókst að snúa á réttvísina með því að spila á almenningsálitið með aðferðum sem spunameistarar nútímans væru fullsæmdir af.

Í söngleiknum segir frá Rósí Há sem dreymir um frægð en verður það á að myrða elskhuga sinn þegar hann segir henni upp. Eftir misheppnaða tilraun til að koma sök á grunnhygginn eiginmann sinn er hún ákærð, en tekst að fá hinn sjóðheita lögfræðing Billa Bé til að taka málið, en hann veit sem er að mál eins og hennar vinnast ekki í réttarsalnum heldur í fjölmiðlum. Billi hefur fleiri kúnna og kabarettstjarnan Elma Ká er hreint ekki ánægð með það að vera komin í skuggann af nýstirninu Rósí. Í heimi söngleiksins er allt til sölu og frægðin er dýrasta djásnið. En ylurinn af leifturljósum blaðamannanna er skammgóður vermir eins og Rósí kemst að þegar áhugaverðari morðingi birtist á sviðinu. Chicago er frábær söngleikur, frumlegur í forminu sem vekur jafnvel hugrenningatengsl við Brecht og nær bæði að vera mikill skemmtunarleikur og beitt ádeila á yfirborðsmennsku og siðspillingu án þess að predika. Slíkt var heldur ekki fjarri ætlun gleraugnaglámsins frá Augsburg þó hann hafi aldrei náð að verða jafn skemmtilegur og þeir Kander, Ebb og Fosse í Chicago.

Það er líklega ekki fagur vitnisburður fyrir samtíðina að hægt sé að snúa atburðum söngleiksins jafn áreynslulaust upp á Ísland í dag og Gísla Rúnari hefur tekist í frábærri þýðingu og staðfærslu verksins. Hér er Séð og Heyrt-menningin í algleymingi, frægð hvað sem hún kostar er hið dýrasta hnoss og aðgöngumiði að bæði frama og réttlæti. Gísli tekur sér stórt skáldaleyfi og hittir iðulega beint í mark með andstyggilegum skotum sínum. Og þó tónlistin sé vissulega með miklum bannára-, en þó fyrst og fremst samræmdum amerískum söngleikjakeim þá kemur það lítt að sök, sýningin heldur, og staðfærslan skilar sér bæði í beittari ádeilu og að því er virðist óþrjótandi möguleikum á skemmtilegheitum.

Reyndar er eins og allir aðstandendur sýningarinnar hafi notið þess að ausa af skálum hugkvæmni sinnar og sköpunargleði. Það á jafnt við um vinnu leikara, hönnuða búninga, ljósa og leikmyndar sem skapa sögunni viðeigandi umgjörð, sem og tónlistarstjóra, danshöfundar og leikstjóra. Það er alls ekki sjálfgefið að það borgi sig að taka þaulreynda og útpælda söngleiki jafn sjálfstæðum og ferskum tökum og hér er gert, en sú áhætta hefur margborgað sig. Samvinna Leikfélagsins og Íslenska dansflokksins virðist mér mun þéttari hér en í Sól og Mána í fyrra, dansarnir gegna stærra hlutverki í sjálfri sögunni, og skilin milli dansara og leikara eru ánægjulega óljós. Hér á Jochen Ulrich vafalaust mikinn heiður skilinn, og að svo miklu leyti sem ég hef vit á þá er höfundarverk hans bæði frumlegt og viðeigandi innan þess forms sem söngleikurinn er. Þórhildur Þorleifsdóttir er auðvitað margfaldur íslandsmeistari í stórsýningum og hennar hlutur er stór í þessari margbrotnu, frumlegu og snjöllu uppfærslu. Hér hefur hvorki verið misst sjónar á að allt þjóni heildarmyndinni né að einstakar hugmyndir fái að blómsta og listamenn að njóta sín. Notkun myndbanda er dæmi um slíka hugmynd - hér er hún sérlega viðeigandi í öllu fjölmiðlafárinu og útfærsla hennar hefur tekist prýðilega.

Það sem síðan kórónar skemmtunina er svo hin smitandi leikgleði og listræna örlæti sem einkennir leikhópinn í heild sinni. Chicago er verk sem útheimtir samhentan leikhóp, allir verða að leggjast á eitt við að segja söguna og þó nokkur hlutverkin séu viðamikil eru tækifæri fyrir marga til að blómstra. Og hér blómstra allir. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ómótstæðileg sem Rósí, illþolandi grunnhyggin þokkadís með ofþroskaða sjálfsbjargarviðleitni. Leikur, söngur, dans - allt er eins og best verður á kosið í meðförum Steinunnar. Það sama má segja um hina sjóuðu Elmu Ká hjá Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur. Kannski hefði hún þó mátt gera sér meiri mat úr sveiflunum í veraldargengi persónunnar - leyfa okkur að sjá betur hvernig hún verður að beygja sig þegar sól Rósíar rís. En persónusköpunin er heilsteypt og söng- og dansnúmerin frábær. Sveinn Geirsson er í miklum vexti sem leikari og Billi B er að því ég best veit hans viðamesta verkefni til þessa. Fyrirfram átti ég varla von á því að Sveinn hefði þá útgeislun og persónutöfra sem þarf til að sætta mann við þetta lögfræðilega afstyrmi og fylla út í svona stjörnurullu, en hann fór létt með að snúa þeirri skoðun minni. Eitthvað fannst mér ég finna fyrir áreynslu í glímu hans við tónlistina, aldrei til stórra vansa þó.

Eggert Þorleifsson fór áreynslulaust með hlutverk Adams Há, hins smáða eiginmanns Rósíar. Áreynslulaust í þeim skilningi að allt sem hann gerði var satt og grátlega hlægilegt eins og vera ber. Margrét Helga Jóhannsdóttir gerði hlutverk fangelsis- og skemmtanastjórans Mömmu Morthens (hvaðan koma honum Gísla þessar nafnahugmyndir?) algerlega að sínu og ljáði söngatriðum hennar gamaldags revíublæ sem kom skemmtilega út. Bergur Þór Ingólfsson var síðan ekkert minna en yndislegur sem sjónvarpskonan og tilfinningaklámdrottningin Marta Smart, glæsilegt dragspil og svo syngur hann eins og sóprandíva sem komin er fram yfir síðasta söludag.

Tónlistarflutningur er vel af hendi leystur og ekki að heyra að minni hljómsveit en ætlast er til komi að sök nema síður sé. Einstaka tónlistarnúmer sem vert er að minnast á eru til að mynda hinn frábæri fangelsistangó þar sem hópur morðkvenda segir sögur sínar með miklum tilþrifum, söngur Rósíar um sína björtu framtíð undir sviðsnafninu Roxý og glæsilegur tvísöngur Elmu og Mömmu Morthens um nútímalegan skort á mannasiðum. Sýningin er reyndar nokkuð löng og lækkar óneitanlega flugið í síðari hlutanum, en er samt alltaf skemmtileg og lumar stöðugt á nýjum trompum í erminni.

Chicago er stórsigur fyrir aðstandendur sína, Þórhildi, hr. Ulrich, Íslenska dansflokkinn og Leikfélag Reykjavíkur. Þegar fullur salur af góðborgurum á frumsýningu ýlfrar eins og unglingsgelgjur á Verslósjói í leikslok er verið að gera eitthvað rétt. Illa er ég svikin ef slík fagnaðarlæti verða ekki fastur liður í Borgarleikhúsinu á næstunni.