laugardagur, janúar 17, 2004

Rauðu skórnir

Leikhópurinn Rauðu skórnir
Borgarleikhúsið, litla svið 17. janúar 2004.

Leikgerð Helgu Arnalds, Hallveigar Thorlacius og fleiri á sögu H.C. Andersen.
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Brúður og leikmynd: Petr Matásek
Tónlist: Ragnhildur Gísladóttir
Lýsing: Elfar Bjarnason
Búningar: Helga Arnalds.
Leikendur: Hallveig Thorlacius, Helga Arnalds og Jón Páll Eyjólfsson.

Dansi dansi dúkkan mín

EKKERT leikhúsform er eins háð ímyndunarafli áhorfandans og brúðuleikhúsið. Fyrir vikið er fátt eins gefandi og vel heppnuð brúðuleikhússýning, því áhorfandinn veit hversu stór hans hluti er í að láta sýninguna lifna við það - það er beinlínis á hans ábyrgð að blása lífi í leikarann. Vitaskuld með dyggri hjálp brúðustjórnendanna, en hlutur áhorfenda er aldrei meiri en í brúðuleikhúsi.

Rauðu skórnir hans H. C. Andersen eru kjörið viðfangsefni fyrir brúðuleikhús að mörgu leyti. Saga sem gengur út á hreyfingu og hluti með sjálfstæðan vilja býður upp á snjallar lausnir fyrir leikhúsform sem blæs lífi í dauða hluti. Innihaldslega hefur hún kjarna sem á erindi á öllum tímum, kannski samt aldrei eins og nú; hvernig eftirsókn eftir hégóma getur leitt okkur inn í aðstæður sem við höfum enga stjórn á. Fíkn af öllu tagi og blinda á hvað skiptir raunverulega máli fær skýra táknræna meðferð í sögunni um stúlkuna sem missti stjórn á lífi sínu á vald skónna sinna sem ekki vildu hætta að dansa.

Leikhópurinn velur þá leið að segja alla söguna með látbragði. Það útheimtir talsverða einföldun, og án þekkingar á hvað gerist í sögunni er hætt við að fyrri hluti sýningarinnar valdi ruglingi - svo var allavega með mig, sem hélt að verið væri að segja sömu söguna tvisvar, sem alls ekki er raunin. Það sem einna helst verður útundan úr sögunni er hin trúarlega vídd hennar, sem hverfur nánast alveg, en er mjög miðlæg í textanum. Eftir stendur persónuleg þroskasaga sem spannar allt frá fyrstu meðvitund brúðunnar um sjálfa sig og líkama sinn þar til hún hefur þurft að fórna hluta þessa líkama til að öðlast frelsi undan afleiðingum eigin ástríðna.

Brúðan sem fer með aðalhlutverkið í Rauðu skónum er frábær smíð hjá Petr Matásek og öðlast á köflum nokkuð sannfærandi líf í höndum þeirra Helgu Arnalds og Jóns Páls Eyjólfssonar. Ekki náðist þó nægilega ótrufluð innlifun hjá áhorfendum á frumsýningunni sem stafaði að mínu viti af tilfinningu fyrir óöryggi og fumi í vinnu leikaranna. Einu sinni þurfti reyndar að stöðva sýninguna og hefja leik að nýju vegna mistaka, nokkuð sem undirritaður hefur aldrei áður séð í leikhúsi. Slík afmörkuð atvik skipta þó minna máli en tilfinningin fyrir því að leikararnir hvíli ekki í verkefni sínu sem aftur stendur í vegi fyrir því að ímyndunarafl áhorfandans geti unnið sína vinnu. Þetta sama fum einkenndi líka sviðsetninguna sjálfa og hreyfingar leikaranna í rýminu og hin glæsilega brúða, gamla konan, virtist þvælast nokkuð fyrir Hallveigu Thorlacius. Vinna með skuggaleikhús og tjald var ekki nægjanlega örugg til að ná fullum áhrifum og of oft var klaufalega staðið að því að fela hluti sem ekki máttu sjást.

Mikið af þessum aðfinnsluatriðum eiga vafalaust eftir að pússast af sýningunni. Og vitaskuld eru einstök atriði ágætlega leyst, til dæmis upphafsatriðið þar sem brúðan verður til og uppgötvar líkama sinn. Þá er öll vinna með hina mjög svo sýnilegu mekanísku umgjörð brúðunnar, og hvernig hún er látin bera hluta merkingar sýningarinnar, skýr og snjöll. Hljóðmynd Ragnhildar Gísladóttur er um margt ágæt en skil milli “laga” voru sum dálítið brött. Úr því tónlistin er undir nánast allan tímann hefði farið betur á að láta mismunandi stemningar renna hverja inn í aðra.

Það er svo sem betur fer í hápunktinum sem sýningin er sterkust. Rauðu skórnir sjálfir eru ansi hreint mögnuð smíð, og sterkasti hluti hljóðmyndarinnar er danstónlistin. Martraðarkennt Techno-afbrigðið er svo hárrétt að eiginlega skilur maður ekki annað en einmitt svona hafi Andersen hugsað sér þetta. Dans dúkkunnar er áhrifaríkt ferðalag frá gleðilegu algleymi yfir í óstöðvandi hrylling, sem nær hámarki í hrottalegri lausninni sem var jafn sláandi þrátt fyrir að auðvelt væri að sjá hana fyrir. Lokamyndin lýsir bæði kyrrð og sorg.

Það sem er lærdómsríkast við að horfa á brúðuleikhús er að uppgötva hversu tjáningarríkar brúður geta verið. Augu brúðunnar í Rauðu skónum breytast aldrei sjálf, andlitið er skorið í tré. Samt tjáir svipur hennar fyrirhafnarlaust undrun, gleði, ótta, hrylling og sársauka, kyrrð og spennu. Það er samhengið, sagan og tilfinning áhorfenda sem býr til þessa tjáningu. Og jafnvel þó fyrrgreint óöryggi standi í vegi fyrir innlifuninni náði brúðan talsverðum tökum á okkur. Þau tök munu verða sterkari eftir því sem tök þeirra þremenninga styrkjast.