föstudagur, janúar 09, 2004

Vegurinn brennur

Þjóðleikhúsið
Smíðaverkstæðið 9. janúar 2004.

Höfundur: Bjarni Jónsson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Lýsing: Páll Ragnarsson
Búningar: Margrét Sigurðardóttir og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
Leikmynd Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

Leikendur: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Hjalti Rögnvaldsson, Jóhann Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson.

Samtíminn er sápustykki

Í kynningu á Vegurinn brennur hefur nokkuð verið gert úr því að fléttan sé flókin, að tengsl sögupersónanna séu samansúrruð og erfitt að koma orðum yfir hve margvísleg þau eru. Og vissulega er farsalykt af grunnstöðunni. Bæjarstjóri með allt á hælunum og dóttir hans sem elskar kærustu eiturlyfjafíkilsins bróðursonar síns meðan kona hans og bróðir gefa hvort öðru auga. Fyrir nú utan peningana: hver á þá, hver þarf þá og hver er tilbúinn að gera hvað fyrir þá.

En Vegurinn brennur er ekki farsi og fléttunni er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að stilla upp ólíkum aðstæðum þar sem hægt er að skoða samskipti, tjáskipti og valdatafl persónanna. Flókin tengslin skila síðan þéttriðnu neti af skoðunum, viðbrögðum og fjölbreyttri afstöðu.

Stíll verksins virðist mér vera nokkurskonar upphafinn natúralismi, skerptar myndir af venjulegu fólki, þar sem athyglin beinist einkum að takmarkalítilli einstaklingshyggju, skeytingarleysi um náungann og vangetu til að skynja tilfinningar hans, nema í leit að höggstað. Vitaskuld þrífst engin ást í þessu umhverfi, hvorki rómantísk ást né milli foreldra og barna.

Einn af styrkleikum Vegarins er að þó höfundi sé augljóslega mikið niðri fyrir þá hefur hann það vald á sínum miðli að persónurnar verða aldrei málpípur. Þó þær séu allar haldnar predikunarþörf, mismikilli samt, er alltaf ljóst að þar eru á ferðinni þeirra eigin tilraunir til að höndla veruleikann, koma honum í orð, lýsa honum á þann hátt sem þær halda að komi sér best. En veruleikinn smígur einatt undan orðum þeirra eins og sápustykki úr blautum höndum. Bjarni Jónsson er hins vegar ekki að skrifa lýsingu á veruleikanum, hann er ekki í kenningarsmíði. Bjarni er ekki eiturfíkillinn Sigurður, sem í atriði sem verður að teljast byggingarlegur hápunktur verksins lýsir stóru kvikmyndahugmyndinni sinni sem reynist ekki annað en allsendis innihaldslaus fantasía hans um allsherjarlausn og almannahylli. Bjarni býður eins og vera ber upp á ríkulegt innihald en enga lausn. Hvort það er vænlegt til almannahylli skal ósagt látið.

Heppnast þetta? Að mörgu leyti. Bjarni hefur næmt eyra og mörg samtölin eru miskunarlaus endurgerð á nútíma samskiptaháttum. Persónurnar eru þrívíðar og fá allar sitt pláss í byggingu verksins. Fyrir nú utan að hve nauðsynlegt og tímabært var að skrifa einmitt svona leikrit um þessa athyglisverðu samtíð okkar.

Á hinn bóginn verður að segjast að verkið heldur ekki óskertri athygli allan tímann. Það er akkilesarhæll natúralismans að stundum er veruleikinn ekki nógu viðburðaríkur eða áhugaverður, flatneskjan of flöt. Og þegar Bjarni grípur til sterkari meðala til að hrista upp í áhorfendum sínum; kúks og piss, sifjaspella, nauðgunar og sjálfsmorðstilraunar, er ekki laust við að manni finnist púðrið hafa blotnað. Hroðalegasta senan held ég að sé þegar faðir gerir kæruleysislegt grín að einlægum hugmyndum sonar síns, sem er á batavegi eftir sjálfsvígstilraun, að því er virðist til að ganga í augun á mágkonu sinni sem hann girnist. Þarna er trúverðugum og mér liggur við að segja hversdagslegum aðstæðum snúið upp í ófyrirsjáanlega martröð. En þegar áhorfandinn hefur á tilfinningunni að nú eigi vísvitandi að ganga fram af honum þá slekkur hann á afruglaranum.

Sviðsetning Viðars Eggertssonar er eins og vera ber næsta látlaus, er einkum ætlað að bera þetta nýja leikrit og hugmyndir höfundar á borð. Reyndar krefst verkið kannski sjálfstæðari vinnubragða en mörg handrit, og sviðsetningin ber þess merki. Þannig eru persónurnar iðulega sýnilegar þó þær séu ekki viðstaddar þá framvindu sem textinn segir til um. Sviðsmyndin er einnig af táknræna taginu, kuldaleg og fráhrindandi biðstofa eða sjoppa gegnir hlutverki heimila bræðranna, skrifstofu annars þeirra og annarra leiksvæða. Þegar vel er að gáð má þó sjá helstu grunnatriði heimilis á þessum ópersónulega stað. Þarna er djúskælir sem vísar til eldhúss, og baksviðs glittir í bekk sem leiðir hugann að sturtuklefa, eða baðherbergi. Kanski er þarna komin sú “næringar- og tæmingarstöð mitt á malbikinu”, sem Pétur Gunnrsson kallar nútíma heimili einhversstaðar í Andrabókunum. Lýsing Páls Ragnarssonar er einnig hörð og kuldaleg, en vel hefði ég komist af án melódramatískra ljósabreytinga í tilefni af fyrrnefndum nauðgunum og sjálfsvígstilraunum.

Ólafur Darri Ólafsson er hinn rót- og ógæfusami Sigurður og lætur betur að sýna hinn misheppnaða listamann en siðblindan fíkil. Faðir hans, ráðgjafinn Kristján er leikinn af Hjalta Rögnvaldsyni, sem náði ekki að gera persónunna sérlega áhugaverða, kannski hefði verið vænlegra að ljá Kristjáni meiri myndugleika í framgöngu. Jóhann Sigurðarson er bróðir hans, hinn brottrekni bæjarstjóri Örn, og er firnagóður í þakklátu hlutverki lítilsiglds skíthæls. Sérstaka eftirtekt vekja þögul andartök þar sem hugsanir og ástand Arnar blasir við hverjum áhorfanda í meðförum Jóhanns. Sigrún kona Jóhanns er leikin af öryggi og húmor af Guðrúnu S. Gísladóttur. Samleikur hennar og Nönnu Kristínar Magnúsdóttur sem leikur Hönnu dóttur þeirra var afar sannur og sterkur. Nönnu Kristínu hef ég ekki séð betri en sem Hönnu, hina yfirborðssjálfsöruggu en skemmdu dóttur Arnar og Sigrúnar. Arnbjörg Hlíf Valsdóttir er stundum dálítið sérviskuleg leikkona og Inga, unnusta Sigurðar, verður meira spennandi en skýr í meðferð hennar, kannski líka sú persóna sem óræðust er af höfundarins hendi, auk þess utanveltu í fjölskyldunni og utan af landi. Leikhópnum, og þá í leiðinni leikstjóra, ber þó ekki síst að hrósa fyrir fínlegan og nákvæman samleik þar sem tilfinningaboltinn gengur fumlaust frá manni til manns.

Vegurinn Brennur er greinilega skrifað af væntumþykju þó myndin sem dregin er upp af okkur og samfélagi okkar sé ekki snotur. Þetta er samfélagsleg ástríðuleikritun af því taginu sem íslensk leikskáld eiga að sinna í meira mæli en þarf þó fyrst og fremst að fá mun meira pláss á verkefnaskrám leikhúsanna.